Stundum dettur maður óvænt niður á bók sem fangar alla athygli manns algjörlega. Oftar en ekki þegar þetta kemur fyrir hjá mér er það vegna þess að ég hef gleymt að taka með mér aukabók eitthvert og sit því uppi með bókina sem ferðafélagar mínir hafa klárað. Vissulega fæ ég bókina venjulega afhenta með meðmælum.

Í lok júlí kom einmitt þetta fyrir. Ég hafði gleymt aukabók í helgarferðinni, kláraði mína eigin og sat eftir nær örvæntingafull þegar mér var færð Þerapistinn eftir Helene Flood í hendurnar. Þerapistinn er fysta skáldsaga Flood, sem er sjálf sálfræðingur og býr í Osló. Bókin kom út í lok júní og ég hafði engar sérstakar væntingar til hennar. Það sem eftir var ferðarinnar var ég varla viðræðuhæf.

Sálfræðitryllir

Bókin er fyrstu persónu frásögn Söru Lathus, þerapista sem sérhæfir sig í vandamálum unglinga. Sara er gift Sigurd, sem í byrjun bókarinnar hverfur sporlaust. Lesandi fylgist með Söru þar sem hún veltir fyrir sér örlögum Sidurdar og hægt og rólega afhjúpast líf þeirra hjóna fyrir lesandanum. Á sama tíma fara undarlegir atburðir að eiga sér stað á heimili Söru; hún heyrir fótatak á háaloftinu, hlutir hreyfast úr stað, birtast og hverfa. Sara fer að draga eigin reynslu í efa. Heyrðu hún virkilega eitthvað? Er eitthvað til að óttast?

Þegar lögreglan hefur rannsókn á máli Sigurdar fer Sara að líta æ grunsamlegri út. Í gegnum árin hefur hún einangrast. Draumahúsið hennar og Sigurdar verður tilefni til rifrildis og að lokum verður það eins og fangelsi, ógn. Sara efast um eigin geðheilsu, lögreglan grunar hana um að vera tengda morðmálinu og lesandinn veit ekkert í hvaða átt hann á að horfa til að finna morðingjann og þyrstir stöðugt í meiri upplýsingar. Dularfullir atburðir í húsi Söru valda því líka að lesandinn fer að velta fyrir sér hvort Flood hafi kannski skrifað hryllingssögu, eða sálfræðitrylli. En ég held ég geti sagt með fullri vissu að Þerapistinn er spennusaga, og ári góð sem slík.

Róleg uppbygging en óbærileg spenna

Uppbygging sögunnar er frábær. Hægt og rólega dregur höfundur upp mynd af lífi Söru fyrir og eftir Sigurd, hjónabandi þeirra, fjölskyldu lífi Söru og æsku. Þegar skrifaðar eru spennu- eða glæpasögur nota höfundar oft þann stílinn að hoppa um í tíma með kaflaskiptingum. Þannig eru margir söguþræðir í gangi í einu og það er lesandans að rata í gegnum bókina. Flood nýtir vissulega þessa aðferð, en gefur þó eingöngu sýn á hjónaband Söru og Sigurdar með afturlitinu. Allar aðrar upplýsingar sem lesandi getur notað til að giska á hver ódæðismaðurinn er koma í gegnum eðlilega framvindu sögunnar. Það minnkar hávaðann í bókinni. Við lok hverrar blaðsíður hefur lesandinn komist að einhverju nýju um Söru, Sigurd og fleiri persónur í bókinni, oft án þess að taka eftir því. Vísbendingum er laumað svo lymskulega í textann að það er ekki fyrr en í lok bókarinnar sem allt smellur saman.

Það var ógerningur að leggja frá sér bókina. Hún var spennandi fram á síðustu blaðsíðu og endirinn kom mér mjög á óvart. Ég bíð spennt eftir fleiri spennusögum frá Helene Flood.

 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.