Rithornið: Líkið í fjörunni

Kafli 1

(Úr glæpasögu í vinnslu eftir Hugrúnu Björnsdóttur)

 

Elísabet hrekkur við.

Hún heyrir einhvern segja nafnið sitt og er samstundis toguð upp úr djúpum hugsunum sínum. Það rennur upp fyrir henni að hún er búin að stara út um gluggann við hliðina á sér og ekki hlustað á orð af því sem fram fór. Hún hafði ekki hugmynd um hvað hún hafði misst af miklu. Hún snýr sér fram og horfir á fólkið í kringum sig. Fundargestirnir stara á hana.

„Já…fyrirgefðu, hvað varstu að segja?” muldrar hún vandræðalega við forstöðumanninn sem situr beint á móti henni við langborðið í fundarherberginu.

„Er allt í lagi, þú dast þarna aðeins út,” segir Tryggvi, forstöðumaður eignastýringar hjá bankanum.

„Já, já allt í lagi með mig. Ég þarf bara greinilega að fá mér annan kaffibolla,” segir hún til að bjarga andliti. Fundargestirnir hlæja lágt. Einn þeirra kinkar kolli og lyftir upp kaffibollanum sínum til samþykkis. Elísabet þakkar fyrir það í huganum að fundargestirnir eru samstarfsmenn hennar en ekki tilvonandi viðskiptavinir.

Þau eru stödd í fundarherbergi í höfuðstöðvum bankans á 9. hæð á Höfðatorgi. Stóru gluggarnir í herberginu ná frá toppi til táar og gefa óviðjafnanlegt útsýni yfir Esjuna. Það var bjartur og fallegur morgunn í maímánuði og sólin hafði í rauninni ekkert sest.

„Er það ekki hið eðlilega ástand okkar allra,” segir Tryggvi vingjarnlega. Hann ræskir sig og heldur áfram að segja starfsfólkinu frá nýundirrituðum samstarfssamningi við alþjóðlegt eignastýringafyrirtæki. Fundargestirnir líta aftur á glærusýninguna fyrir aftan hann. Elísabet verður hinsvegar alvörugefin á svip og heldur áfram að horfa út um gluggann. Fyrr en varir er hún sokkin í dimmar minningarnar sem höfðu látið á sér kræla stuttu eftir að hún mætti í vinnuna.

Að fundinum loknum fer Elísabet inn á skrifstofuna sína og sest við skrifborðið, setur kaffibolla með köldu kaffi við hliðina á tölvumúsinni og kveikir á tölvunni. Hún fer rakleitt inn á alla helstu íslensku vefmiðlana í leit að fréttinni sem hún las áður en Tryggvi kíkti inn og spurði hana hvort hún hefði ekki fengið fundarboðið. Þau væru nefnilega öll að bíða eftir henni.

Hún finnur fréttina eftir örskamma leit en nær ekki að opna hana áður en það er bankað á hurðina. Hún hrekkur í kút, lokar augunum og blótar í hljóði. Hún var öll á nálum þennan morguninn.

„Hvað!…já, fyrirgefðu…ég meina…kom inn.” Hún reynir að taka sig saman í andlitinu. Borghildur, vingjarnleg og búlduleit kona á sjötugsaldri sem starfar sem ritari, gægist inn og tilkynnir að gesturinn sé kominn.

„Gefðu mér bara augnablik,” hvæsir Elísabet. Borghildur lokar hurðinni fljótt en hljóðlega. Elísabet fær sér sopa af kaffinu sem rennur ískalt niður og fær hroll. Hún hafði gleymt að hún átti að hitta mikilvægan viðskiptavin beint eftir starfsmannafundinn. Hún hafði starfað sem sérfræðingur í eignastýringu hjá Silfru banka í nokkur ár og þetta var í fyrsta skipti á hennar starfsferli sem hún gleymdi fundi.

Hún snýr sér aftur að tölvunni og opnar fréttina. Líki konu hefur skolað á land á höfuðborgarsvæðinu. Hún les yfir efnislitla fréttina nokkrum sinnum í viðbót. Einbeitingin er fokin út í veður og vind og hún sér ekki fyrir sér að hún muni koma nokkru í verk. Hún var ekki vön að gera hluti með hangandi hendi. Frekar kaus hún að sleppa því að gera nokkuð.

Loks sendir hún skilaboð á Borghildi og biður hana að koma.

„Segðu honum að ég verði því miður að afboða mig. Það kom svolítið upp á,” segir Elísabet stuttaralega án þess að líta upp. Hún flettir blöðum sem er snyrtilega raðað í bakka á skrifborðinu og þykist leita að einhverju. Hún finnur það á þögn Borghildar hversu undrandi hún er á þessum viðsnúningi. Elísabet starir stíft niður á blað með gömlum minnispunktum og finnst tíminn ekki líða.

„Ha, já…” Borghildur virðist ekki vita hvað hún á að segja næst. „Á ég að segja honum að…”

„Að það hafi svolítið komið upp á, já. Ég hef samband við hann um leið og ég get.” Elísabet starir enn niður á minnisblaðið. Hún setur höndina á ennið til að fela örlitla dropa af svita sem hafa myndast þar. Þarf hún að stafa þetta ofan í manneskjuna?

„Já, fyrirgefðu. Allt í lagi, segi honum það,” segir Borghildur og lokar.

Elísabet er fegin að vera loksins laus við þessar truflanir. Hún nær í símann og finnur númer sem hún hefur ekki flett upp í langan tíma. Í raun svo langan að hún er ekki viss hvort viðtakandinn sé enn með sama númer. Hún horfir á nafnið og finnur mótsagnakenndar tilfinningar bærast um innra með sér. Hún velur númerið og finnur hjartað slá á ógnarhraða á meðan hún hlustar á sóninn. Henni léttir við það hversu lengi það hringir. Þá fær hún meiri tíma til að anda djúpt.

„Hæ,” segir hún lágróma þegar karlmaður svarar í símann. „Þetta er Beta.” Hún hikar. „Elísabet.” Hún lítur aftur á fréttina á meðan hún leyfir honum að átta sig. „Hvernig hitti ég á þig?”

 

*          *         *

 

Nokkrum kílómetrum frá skrifstofu Elísabetar situr Baldvin og horfir þögull á símann. Hann hefur nýlokið símtali við manneskju sem hann hefur ekki talað við í nokkur ár. Manneskju sem eitt sinn var honum kær. Mun kærari en hann hafði nokkurn tímann viðurkennt, hvorki fyrir sjálfum sér né henni.

Hann situr við skrifborðið á skrifstofu sinni í glerhýsi á 15. hæð. Skrifstofan er rúmgóð með fáum en stílhreinum vistarverum. Stórir gluggar eru beggja megin við hann með stórbrotnu útsýni yfir höfuðborgarsvæðið. Dökkgráir veggirnir mynda sterkt mótvægi við skjannahvítt skrifborðið. Baldvin stendur upp, gengur að einum glugganum og fiktar djúpt hugsi í hvítagulls ermahnöppunum á skyrtunni.

Símtalið kom honum alveg úr jafnvægi. Elísabet spurði hann hvort hann væri til í að hitta hana í eigin persónu til að ræða málin betur. Hún sagði ekkert um hvort hún ætlaði líka að hafa samband við gömlu félagana. Röddin hennar kom honum svo í opna skjöldu að hann hafði ekki haft rænu á að spyrja. Meðan á símtalinu stóð gerði hann ráð fyrir því að hún vildi hitta hann undir fjögur augu. Nú þegar hann hafði náð að melta samtalið fannst honum líklegt að hún myndi líka hafa samband við þau. Sjálfur hafði hann ekkert heyrt í þeim. Og langaði ekkert til þess.

Hann sest aftur við skrifborðið og opnar tölvuna. Hann fer inn á fréttasíðurnar til að finna fréttina sem Elísabet sagði honum frá. Hann þurfti ekki að leita lengi enda var fréttin ein af þeim fyrstu sem birtist. Hún var ekki löng því margt virtist vera á huldu um málið.

 

Líkfundur á höfuðborgarsvæðinu

Lík konu fannst í fjörunni við Gróttu um sexleytið í morgun. Viðbúnaður er mikill á svæðinu, þar sem allt tiltækt slökkvilið var kallað út, ásamt sjúkrabílum, lögreglu og björgunarsveitum. Lögreglan er með málið til rannsóknar.

 

Honum verður ómótt við lesturinn. Hann hafði forðast fréttir sem tengdust á einhvern hátt líkum, mannshvörfum og morðum um árabil. Svoleiðis fregnir fengu hann til að hugsa um sína eigin reynslu af harmleikjum.

Hann opnar neðstu skúffuna á skrifborðinu, nær í litla flösku af vodka og skellir í sig góðum sopa. Hann er reiður út í Elísabetu fyrir að minnast aftur á málið, þegar þau höfðu lofað hvort öðru að tala aldrei um það aftur. En innst inni gladdist hann yfir að heyra röddina hennar.

Hún hafði endað símtalið á því að segjast ætla að heyra betur í honum seinna varðandi nánari tímasetningu á fundi þeirra. Hans fyrsta hugsun var sú að það kæmi ekki til greina að hitta hana, þó hann hefði jánkað bón hennar í símanum. En smám saman finnur hann að löngunin til að hitta hana verður yfirsterkari. Hann hugsar með sér að hann ætti að láta sig hafa það að hitta hana. Þrátt fyrir allt. Sama hvort þau yrðu tvö eða fleiri. En hann mun gera henni fullljóst hver afstaða hans er. Hann er farsæll í starfi og hefur eytt mikilli vinnu í að komast þangað sem hann er. Lífið sem hann hefur byggt upp gæti hrunið eins og spilaborg á einu augabragði. Það þarf svo lítið til.

„Morðingjar fara bara í fangelsi ef það kemst upp um þá. Ef einhver segir til þeirra,” hafði hann eitt sinn hugsað. Síðan þá hafði hann haldið áfram með líf sitt og látið eins og ekkert væri.

Eins og að hann væri ekki morðingi.

 

[hr gap=”30″]

Hugrún Björnsdóttir er 32 ára og starfar sem vefforritari og verkefnastjóri. Hún er með BA í stjórnmálafræði, MA í blaða- og fréttamennsku og fagháskólagráðu í vefþróun. Hún er búsett á Seltjarnarnesi með manni sínum og tveimur dætrum.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...