Umrót tilfinninga og sjálfsmótun í Lygalífi fullorðinna

 

Skáldsagan Lygalíf fullorðinna er nýjasta verk ítalska hulduhöfundarins Elenu Ferrante. Ferrante varð heimsþekkt nafn, þó að andlitið og persónan á bak við það sé enn kyrfilega læst leyndarmál, með Napólí fjórleiknum svokallaða sem fjallar um vinkonurnar Lenu og Lilu. Enn á ný flytur Ferrante okkur til Napólí-borgar og kynnir okkur nú fyrir hinni ungu og galvösku Giovanni. 

 

Höfundur er ekki dauður, hann er leyndardómur

Lygalíf fullorðinna kom út samtímis í ótal löndum þann 1. september og var sérstaklega ýtt undir eftirvæntingu lesenda fyrir útgáfunni. Bækur Ferrante hafa farið sigurför um heiminn, en það er erfitt að horfa algjörlega framhjá því að mögulega er spennan og aðdáunin á skrifunum á einhvern hátt mögnuð vegna þeirrar staðreyndar að enginn veit hver er á bak við þau. Margar sögusagnir um raunverulegt nafn höfundarins hafa sprottið upp í gegnum árin en á einhvern undraverðan hátt hefur leyndardómnum ekki enn verið aflétt. Á vissan hátt gerir þetta það að verkum að rithöfundurinn er þurrkaður alveg út úr umræðunni, en á sama tíma er hann einnig aðalatriði hennar. Þetta gæti hljómað þversagnakennt en það er kannski galdurinn. Í raun höfum við ekkert á að byggja nema fyrri verk höfundar, ekki lífshlaup eða persónu, sem gefur höfundinum og þá einnig lesandanum mikið frelsi. Á sama tíma verður leyndardómurinn sem er höfundurinn alltaf stærri og stærri hluti af verkinu í gegnum markaðssetningu, getgátur og forvitni lesenda. Höfundur verður eins og sögupersóna þar sem lesendum er gefinn laus taumurinn að ímynda sér höfundinn. Þetta er kannski efni í alveg sérstakan pistil út af fyrir sig, en það er merkilegt að velta því fyrir sér hversu mikið hlutverk höfundarnafn getur spilað inn í viðtökur á verki. Huldunöfn hjá rithöfundum er að sjálfsögðu ekkert nýdæmi en það verður að segjast að í dag er það ekki algengt. Í gegnum tíðina hefur höfundurinn nefninlega þurft að vera sífellt meira á útopnu og mjög samofin markaðssetningu á eigin verki. Hér er það hins vegar leyndardómurinn sem gerir nafnið. 

 

Að spegla sig í öðrum

En víkjum okkur að sögunni. Giovanni er ung stúlka sem býr í efri byggðum Napólí, en lesandi fær að fylgja henni í gegnum stór og merkileg mótunarár hennar á kynþroskaskeiðinu. Viðfangsefnið sem Ferrante er að kljást við hér eru að sjálfsögðu þroski og mótun sjálfsmyndar og persónu. Við sjáum Giovanni í raun uppgötva hvernig foreldrar hennar eru mannlegir og breyskir. Foreldrarnir falla af stallinum sem hún hafði stillt þeim upp á, þeir eru ekki lengur alvitrar fyrirmyndir heldur hafa þeir sína galla og þeir geta oft haft rangt fyrir sér. Þetta ákveðna rof þekkjum við líklegast flest. Sumir gætu jafnvel litið til baka og fundið atburðinn eða augnablikið þar sem þessi umsnúningur á viðhorfi varð hjá þeim sjálfum. Hjá Giovanni verður það þegar faðir hennar líkir henni við ljóta og illa innrættu frænkuna Vittoriu. Öll sjálfsmynd Giovanni brotnar við að heyra þessi orð og hún þarf smám saman að púsla sér upp nýja sjálfsmynd. Við sjáum samt hvernig hún á oft erfitt með að gera sér fulla grein fyrir hvernig best er að fara að því. Hún speglar sig í öðrum, í fyrstu ákveður hún að spegla sig í Vittoriu frænku, síðar speglar hún sig í jafnöldrum sínum og svo í karlmönnum og strákum sem eru hrifnir af henni eða sem hún er sjálf hrifin af. Hún vill með öðrum orðum finna sjálfa sig eða skilgreina sjálfa sig upp á nýtt en hefur ekki ennþá tólin eða almennilegan þroska til þess. Það er þess vegna sem hún speglar sig í öðrum og vonast til þess að aðrir geri skilgreininguna fyrir sig. Þessi mótun og erfiðleikarnir við að finna réttu leiðirnar til að skilja og skilgreina er eitthvað sem ég held að flestir lesendur tengi við. Ferrante lýsir þessu á virkilega skarpan og sniðugan hátt í gegnum sögu Giovanni. Hún fangar einhvernveginn ruglinginn sem getur átt sér stað í þroskaferlinu. Það hvernig hægt er að taka rangar ákvarðanir og blekkja jafnvel sjálfan sig í leiðinni. 

 

Stétt og sjálfsmótun

Mörg þemu og viðfangsefni eru í sögunni sem eru lesendum Ferrante mjög kunnug. Þar má helst nefna samfélagslega stéttaskiptingu en hún umlykur alla söguna og persónurnar. Mállýska er sýnd sem stöðu- eða stéttartákn persóna ásamt lestri og búsetu, og menntun kemur sífellt upp sem drífandi aflið til að klífa upp metorðastiga samfélagsins. Þessi staða persónanna í samfélaginu fer líka að leika vel utan um þessa sjálfsmótun. Þetta tvennt, stétt og sjálfsmótun, getur kannski aldrei verið alveg fyllilega aðskilið hvort öðru. 

Lygin er einnig stórt viðfangsefni í þessari sögu, eins og titillinn gefur til kynna, en Giovanni uppgötvar hvernig hinir fullorðnu, eða foreldrar hennar og vinkvenna hennar, eru stöðugt að ljúga. Eftir því sem líður á söguna fer Giovanni samt sjálf að nýta sér tækni lygarinnar. Hún fer að sjá að lygin eða blekkingarleikurinn er nauðsynlegur á stundum. Hún fer einnig að ljúga markvisst að sjálfri sér til að sefa eigin tilfinningar og hugsanir. Lygin er með öðrum orðum ekki jafn einföld og hún taldi í upphafi. 

 

Margslunginn hugarheimur

Sagan er mjög tímalaus en hún á víst að gerast um 1990, en tímabilið er aldrei greinanlegt, í raun gæti hún jafnvel hafa gerst í gær. Elena Ferrante lýsir hugsanalífi ungrar stúlku frá 12 ára aldri til 16 ára listilega vel. Það er umrót tilfinninga, mikil óvissa og óöryggi í hverju orði. Hún lýsir kynlífi og sjálfsfróun alveg hispurslaust og fallega sem er mjög upplífgandi og skemmtilegt. Öll þessi litlu augnablik þar sem persónan er að kynnast sjálfri sér í gegnum leik eða samtöl við vinkonur eða stráka mynda svo lúmskan og vel ofinn vef sem skapar margslunginn hugarheim. Ferrante er einnig klók í því að gera aukapersónur sínar jafn lagskiptar og flóknar eins og aðalpersónur, hún vekur upp forvitni um baksögu þeirra og hugsanir. Alveg þannig að ég varð fyrir smá vonbrigðum í lok sögunnar að þær væru ekki afhjúpaðar, ég vildi að hegðun þeirra yrði útskýrð á einhvern hátt, þá sérstaklega átti það við um hina margslungnu Vittoriu. 

 

Sagan er vissulega þroskasaga en ekki endilega á þann hátt sem við höfum vanist. Hún er meira inn á við í tilfinningunum heldur en út á við. Við sjáum persónuna ekki endilega læra neitt heldur frekar uppgötva smátt og smátt þetta rof eða nýja sýn á allt í lífinu. En það gerir hún með mikilli sorg og trega fyrir því sem áður var. Á sama tíma er hún til í að berjast við að losna og skapa sína eigin heimsmynd.

 

Þýðingin er frábær í höndum Höllu Kjartansdóttur, ekki það að ég hafi samanburðinn við ítölskuna en málfar er fallegt og greinilega vandað til verka. Textinn flæðir ótrúlega vel og þó sagan sé oft á köflum átakanleg er lesturinn það þvert á móti ekki og fer í vitundina eins og gamalt dægurlag sem maður er nokkuð viss um að kannast við frá eigin mótunarárum. 

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...