Kiran Millwood Hargrave er breskur verðlaunahöfundur og helst þekkt fyrir að skrifa barna- og ungmennabækur. Fyrsta bókin sem hefur verið íslenskuð eftir hana er Bálviðri, skáldsaga sem gerist á norsku eyjunni Vardø þar sem mikið galdrafár geysaði í kringum 1620.

Konurnar einar

Í Bálviðri fylgist lesandinn með eftirköstunum eftir hræðilegt óveður. Sagan segir af Marenu Magnusdatter sem horfir upp á föður sinn og bróður farast í skyndilegu bálviðri á aðfangadag 1617 ásamt öllum öðrum fullorðnum karlmönnum á eyjunni. Tíminn líður hægt eftir þennann hrikalega atburð. Konurnar á eyjunni standa einar eftir og þurfa á einhvern hátt að sjá fyrir sér, afla matar, lifa. Þær þurfa að taka að sér ný verk, karlmannsverk, í heimi sem setur konur sífellt fleiri skorður og sjálfstæð kona er ógn. Standa þær saman? Eða sundrast þær?

Einu og hálfu ári eftir dauða karlmannanna kemur nýr fógeti til eyjarinnar. Hinn skoski Absalom Cornet hefur getið sér gott orð á skosku eyjunum í norðri fyrir að búa yfir náðargáfu sem felst í því að koma upp um nornir og senda þær á bálið. Cornet er komin til eyjarinnar til að uppræta þá illsku sem hefur sest þar að, svæla út nornir og góma göldrótta Sama. Hann tekur með sér unga eiginkonu sínu, Ursu frá Björgvin. Ursa hefur alist upp í vernduðu umhverfi og kann lítið til verka í gamaldags bændasamfélagi. Með henni og Marenu tekst vinskapur. Höfundurinn byggir hægt og rólega upp veggi á milli fylkinga í bænum – kirkjukonur og hinar.  Millwood Hargrave hefur einstakt lag á ljóðrænum texta, persónusköpun er framúrskarandi góð og hún togar lesandann hægt og rólega áfram inn í klikkunina sem hlýtur að felast í galdrafárinu.

Byggt á raunverulegum atburðum

Millwood Hargrave byrjar bókina á óveðrinu sem drekkir öllum karlmönnunum. Maren stendur á ströndinni og fylgist með hamförunum ásamt hinum konunum. Lýsingin er svolítið óljós, bæði á veðrinu og á Marenu og ég vissi ekki alveg hvað mér átti að þykja um bókina til að byrja með. Hún greip mig ekki á fyrstu blaðsíðu. En þegar lengra var haldið náði stíll Millwood Hargrave til mín. Frásögnin er dáleiðandi, en einföld.

Í eftirmála bókarinnar skrifar Millwood Hargrave að hún hafi heyrt sögu af ofsóknum Kristjáns IV gegn Sömum og “ókristilegu” fólki í Finnmörku í kringum 1620. Þar á meðal söguna af því hvernig flestir karlmenn á eyjunni Vardø létust í skyndilegu óveðri á aðfangadag árið 1617. Í Finnmörku voru samískir karlmenn brenndir fyrir galdra og norskar konur fyrir að vera nornir.

Bókin er nokkuð feminísk. Samstaða kvennanna í byrjun bókarinnar er nauðsynleg svo þær geti lifað af. Afturhvarf þeirra til hjátrúar, líkneskja og náttúrunnar er einhvern veginn eðlilega framvinda eftir hörmungarnar sem gengu yfir. Afskipti karlmanna og ógnarstjórn þeirra einu og hálfu ári eftir dauða karlmanna eyjarinnar umturnar samfélagi kvennanna. Höfundurinn kemur líka með skemmtilega hinsegin vinkil á söguna, sem kom mjög skemmtilega á óvart.

Grunnt sögusvið

Eyrún Edda Hjörleifsdóttir þýddi bókina og þykir mér þýðingin prýðileg. Þó angraði fallbeying á nafni aðalpersónunnar mig (Maren ekki Marenu) og mér fannst yfirlestri ábótavant, þar sem orð og orð var rangt eða ofaukið. En nafn bókarinnar var skemmtilega margrætt og vel þýtt. Bálviðri vísar bæði í óveðrið sem drekkti karlmönnunum og bálviðrið sem geysaði í galdrafárinu.

Höfundurinn góð tök á persónusköpun og lesandinn verður mjög tilfinningabundinn persónunum. Þannig kynnist maður Maren mjög vel og Ursu líka og frásögnin snýst um þær tvær og þeirra upplifun af atburðunum. En þótt ég hafi verið fullkomlega bundin yfir bókinni þann tíma sem það tók mig að klára hana þá skilur hún ekki mikið eftir sig og efni bókarinnar hefði mátt magna betur upp og skapa allt umlykjandi sagnaheim. Þótt Millwood Hargrave hafi náð að skapa mjög sannfærandi persónur í bæði Marenu og Ursu þá eru aðrar persónur í bókinni nokkuð grunnar, eins og aukahlutir. Það hefði gjarnan mátt bæta við örlítið ítarlegir lýsingu á þorpinu, íbúum þess og hleypa lesandanum inn í sögusviðið. Sagan er þó vel þess virði að lesa hana og mjög góð afþreying.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...