Svefnfiðrildin og auðveldari háttatími

Erla Björnsdóttir er sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum. Hún hefur sérhæft sig í rannsóknum á svefni og meðferðum gegn svefnleysi og hefur nú sent frá sér sína fyrstu barnabók um svefn. Bókin heitir Svefnfiðrildin og fjallar um Sunnu sem er í fyrsta bekk. Sunna kemst einn daginn ekki í skólann af því hún er slöpp. Saman fara hún og mamma hennar til læknis sem er ekki lengi að komast að rót vandans – Sunna þarf að sofa lengur og betur.

Erla segir í viðtali við Fréttablaðið að henni hafi ekki þótt nægilega mikið til af efni um svefn og mikilvægi hans fyrir yngstu börnin, með bókinni vilji hún bæta úr því.

Sagan um svefnfiðrildin

Sunna heyrir söguna um svefnfiðrildin hjá lækninum. Svefnfiðrildin svífa um líkamann þegar hann sefur og laga og bæta, þroska og kæta. Það er nauðsynlegt að skapa ró fyrir svefninn svo svefnfiðrildin geti komist inn í líkamann til að vinna að því sem skiptir máli. Það þarf til dæmis að geyma skjátæki fyrir svefninn, dempa ljós og slaka vel á. Læknirinn í bókinni telur upp alls kyns kosti við það að fara snemma að sofa og hlúa að því sem skapar ró í umhverfinu. Einnig hefur Erla bætt við góðum punktum aftast í bókina sem foreldrar geta glöggvað sig á.

Baráttan á háttatíma

Án efa eru fjölmörg börn sem ekki fá nægan svefn á nóttunni. Með stöðugu áreiti frá skjám, félagslífi, tómstundum og öðru sem getur truflað svefnvenjur, þá getur verið erfitt að finna ró í líkama og huga þegar loks er komið upp í rúm.

Ég las bókina með einu fiðrildi sem á mjög erfitt með að sofna á kvöldin. Við lásum bókina saman og sá svefnlausi var alls ekki hrifinn af henni og hrópaði upp yfir sig í eitt skipti “Oooohhh! Þetta er svo leiðinlegt!”. En bætti svo við lágri röddu: “En ég er að læra svo mikið.” Og þá fannst mér takmarkinu náð. Eftir að við lásum svefnfiðrildin saman hefur löngun hans til að vaka lengi fram eftir dalað örlítið (er er samt ennþá mjög venjulegur átta ára strákur sem vill helst vaka frameftir um helgar).

Í lok bókarinnar telur Erla upp einkenni barna sem þjást af svefnleysi.

Fullorðnir upplifa gjarnan þreytu og orkuleysi eftir svefnlitla nótt en börn verða frekar pirruð, eirðarlaus og jafnvel árásargjörn. Einkennum sem vansvefta börn sýna, svipar gjarnan til einkenna ofvirkni og athyglisbrests.

Þessa punkta finnst mér að sem flestir foreldrar ættu að taka eftir og líta á hegðun sinna eigin barna. Kannski eru þau einfaldlega vansvefta og betri svefn getur leyst mörg vandamál.

Nytsamleg en ekki spennandi

En ef litið er á bókina sem heild þá er hún heldur litlaus og óspennandi. Einræða læknisins er löng og er kjarni bókarinnar en söguþráðurinn þar á eftir missir svolítið marks. Bókin er töluvert löng fyrir eina lesningu í einni beit (eða kannski er ég bara löt að lesa). Seinni hluti bókarinnar snýst að mestu um viðbrögð Sunnu við sögunni um svefnfiðrildin. Hvað gerir hún til að útrýma slæmum siðum á sínu eigin heimili? Hvernig bregðast hennar nánustu við? Hvað segja bekkjarfélagar hennar? Hvernig gengur henni að koma upp betri siðum? Sagan er einföld og fer aldrei neitt út fyrir þann tilgang sem hún á að hafa, sem gerir hana ögn þurra. Myndlýsingar Auðar Ómarsdóttur í bókinni eru rólegar og upplýsandi en að öðru leiti þótti mér þær ekki eftirtektarverðar.

Bókin nýttist okkur mæðginum vel. Svefntíminn er orðinn örlítið auðveldari og svefninn er ekki lengur dómur sem þarf að afplána heldur eitthvað gott og nytsamlegt. Sem er án efa tilgangur bókarinnar og til að koma á betri svefnvenjum hjá börnum er hún mjög nytsöm. Hún er líka mjög fræðandi fyrir foreldra sem geta þá líklega leitað sér frekari upplýsinga út frá fræðslunni í lok bókarinnar.

Lestu þetta næst