Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf

Milla og Guðjón G. Georgsson eru sögupersónur úr smiðju Snæbjörns Arngrímssonar og komu fyrst fram í bókinni hans, Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins, sem sigraði Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2019. Sú bók er jafnframt frumraun Snæbjörns í barnabókaskrifum, en þekktari er hann sem bókaútgefandi og fyrir að hafa gefið út Harry Potter á Íslandi.

Nú hefur Snæbjörn sent frá sér sjálfstætt framhald af fyrri bókinni, Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf. Þar heldur lesandinn áfram að fylgja eftir Millu og Guðjóni G. Georgssyni. Það var svolítið skrýtið að hitta þau aftur í nýrri bók, enda hefur sú fyrri setið lengi í mér. Að þessu sinni segir Milla lesandanum frá haustinu eftir sumarið sem hún kynntist Guðjóni G. Georgssyni. Guðjón, eða Gonni eins og hann vill láta kalla sig, hefur verið í ferðalagi með pabba sínum, vísindamanninum og rannsakandanum Georgi, allt sumarið og Millu hefur leiðst mjög mikið. Það ber þó til tíðinda! Furstynja flytur inn í hús í Álftabæ og allir bæjarbúar eru forvitnir um hinn nýja og dularfulla nágranna sinn. Á sama tíma hverfur Doddi, bekkjabróðir Millu, og Milla slysast til að stela dýrmætri froskastyttu frá furstynjunni. Það er því svolítill léttir fyrir Millu þegar Gonni loksins snýr aftur úr ferðalaginu til að aðstoða hana við að leysa málin.

Sérstök börn dragast hvort að öðru

Milla er sögumaður bókarinnar og það er nokkuð ljóst að hún er að rifja upp þessa atburði úr öruggri fjarlægð framtíðarinnar, þótt af og til slái saman framtíð og nútíð – stundum er eins og Milla sé að segja atburðina frá sjónarhóli barns. Snæbjörn veitir nýja sýn inn í líf Millu og Gonna, aldur þeirra, heimilisaðstæður og félagslíf opinberast lesandanum og fyrir vikið fannst mér hann rjúfa einhverja töfra sem höfðu myndast í kringum sögurnar. En að sama skapi fannst mér óskaplega gaman að kynnast Millu og Gonna betur. Milla er sérstök persóna. Það kemur nokkuð vel í ljós í bókinni að hún er félagslega einangruð og sérkennilegt barn. Þess vegna kemur þeim Gonna svona vel saman. Gonni býr við sérstakar heimilisaðstæður – er vanræktur af sveimhuga föður sínum.

En ekkert af þessu er sagt með berum orðum í bókinni. Snæbjörn hefur einstakt lag á að skrifa í kringum hlutina, gefa í skyn og koma upplýsingum á framfæri í gegnum fallegt orðalag eða gjörðir persónanna. Það er unun að lesa textann hans! Hann skrifar ekki niður til krakka heldur gerir ráð fyrir að þeir geti lesið á milli línanna – skilið það sem er ósagt í textanum. En þótt textinn sé á einhvern hátt þyngri en í öðrum barnabókum þá er söguþráðurinn engu síðri. Þvert á móti.

Annað eyðihús í myrkri

Hvarf Dodda hvílir þungt á bænum og ekki síst Millu. Doddi hafði rétt áður en hann hvarf sagt við Millu að allt væri henni að kenna. Forsagan að þeim samskiptum er að Dodda og Millu hafði lent saman og afleiðingarnar fyrir Dodda voru töluvert óþægilegar fyrir hann, þótt hann hafi eflaust átt refsinguna skilið. Það sækir líka á Millu að hafa tekið froskastyttuna frá furstynjunni, því fylgir víst ógæfa og endalaus smáóhöpp á heimili Millu valda henni áhyggjum. Milla vill koma styttunni til réttra eigenda.

Milla og Gonni einsetja sér að finna Dodda og koma honum til foreldara sinna. Millu finnst hún á einhvern hátt bæta upp fyrir misgjörðir sínar á þann hátt. Álftabær lýkst upp fyrir lesandanum, bæjarbragurinn, íbúar hans og tímaskeið. Leitin að Dodda leiðir Millu og Gonna í Djúpadal þar sem þau komast í kynni við annað eyðihús, þar sem einhver virðist hafa haldið til. Að einhverju leiti finnst mér Snæbjörn endurnýta fyrri söguþráð, þar sem krakkarnir könnuðu líka í fyrri bókinni gamalt eyðihús í myrkri (það kom þó í ljós að það var töluvert leyndardómsfullt eftir allt saman). Mér fannst hann ekki ná að byggja upp eins mikla spennu og í fyrri bókinni, jafnvel þótt hann hafi sent krakkana ein út í myrkrið um miðja nótt. Þó vissulega hafi söguþráðurinn verið spennandi, þá dró ekki almennilega til tíðinda fyrr en í blálok bókarinnar. Allt þar fram að var þó yndislega vel skrifað og fallegt og það var dásamlegt að fá að kynnast Millu, Gonna og Álftabæ betur.

Það eru margir lausir söguþræðir í lok bókar. Milla og Gonni hafa leyst eina ráðgátu, ráðgátuna um fjársjóð Bjarnabófanna, en eftir standa fleiri ráðugátur sem erfitt er að komast til botns í. Svarið við þessum gloppum í söguþræðinum finnst mér að megi rekja til þess að Milla er sú sem segir söguna og hennar upplifun á atburðum kemst til lesandans. Hún sjálf komst aldrei til botns í þessum ráðgátum og því situr lesandinn eftir með fullt af spurningum.

Ég mun alltaf bíða spennt eftir bók frá Snæbirni og ég vona að þessi verði ekki sú síðasta frá honum. Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf er margslungin spennusaga fyrir börn með alvarlegum undirtón, skrifuð á nær ljóðrænan hátt sem gefur börnum tækifæri til að lesa á milli línanna.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...