Niður í undirdjúpin með Ævari

Vinsælustu barnabækur í jólabókaflóði síðustu ára eru Þín eigin bækur Ævars Þórs Benediktssonar. Að þessu sinni fá lesendur að dýfa sér niður í undirdjúpin í Þín eigin undirdjúp og kynnast helstu leyndardómum sjávarins. Evana Kisa myndlýsir bækurnar eins og áður.

Þrír skipstjórar, einn kafbátur og… þú

Í bókinni hefst ævintýrið á því að lesandinn er fastur í köfunarbúning á hafsbotni, súrefnið klárast eftir 40 mínútur og þú veist ekki hvar kafbáturinn er. Martraðakenndar aðstæður! Næsta val sviptir manni svo á byrjunarreitinn: Lesandinn gengur eftir bryggju og upp úr hafinu rís risastór kafbátur. Að sjálfsögðu hoppar lesandi glaður um borð (nema þeir sem gleymdu krananum á heima, þeir velja hinn kostinn og fara heim). Um borð eru þrír skipstjórar sem eru í klípu. Jú, sjáðu til, kafbáturinn er leigður en sökum efnaleysis þurftu þau að skjóta saman til að eiga fyrir vikuleigu. Þau vissu þó ekki að þau væru að deila kafbátnum með öðrum skipstjórum. Ekkert þeirra er tilbúið að láta af sínum kröfum og það er í höndum lesandans að velja hvert skal fara. Viltu fara að leita að fjársjóði með Hafdísi, taka upp heimildamynd í Bermúdaþríhyrningnum með Sæþóri eða rannsaka dularfullt BLÚP! hljóð og hugsanlegan risakolkrabba með Öldu (ég meina PRÓFESSOR Öldu)? Lesandinn velur og heldur af stað í ævintýrið.

Dýpri persónur

Þín eigin undirdjúp er sjöunda Þín eigin bók Ævars. Það fer að verða virkileg áksorun að halda áfram að þróa konseptið áfram, koma með eitthvað nýtt í hverri bók. Á síðasta ári var málið leyst með því að gera þykkustu bókina hingað til, með svo mörgum endalokum að það var nær ótrúlegt. Í ár er annað uppi á teningnum. Bókin er mun þynnri en síðustu bækur og allt er einhvern vegin hófstilltara. Ævar gaf sér tíma til að þróa aukapersónurnar þrjár lengra en hann hefur gert í fyrri bókum. Fyrir vikið fékk bókin meiri dýpt.

Í hverjum söguþræði snýr lesandinn aftur að martraðakenndu aðstæðunum í byrjun bókar, þar sem hann stendur aleinn í sjónum og bíður eftir kafbátnum. Það er svo eftir atvikum hvort tekst að komast úr aðstæðunum eða hvort maður drukkni aleinn á hafsbotni.

Sú besta hingað til?

Söguþræðirnir í bókinni voru mjög fjölbreyttir og komu virkilega á óvart. Sérstaklega þegar maður valdi að fara í heimildamyndagerðina með Sæþóri í Bermúdaþríhyrningnum. Hver söguþráður var frábrugðinn næsta. Ég er þó svekktust yfir að hafa misst af því að komast til Atlantis, sem hefur verið leyndur draumur minn lengi. Líklega þarf ég að hefja lesturinn aftur og stefna þangað.

Ævar Þór hefur lagt mikla vinnu í þessa bók, líkt og aðrar. Það er ástríða á bak við textann og hún skín í gegn. Ævar gerir sitt besta til að koma lesandanum á óvart, halda honum á tánum og gefur ekkert eftir. Þótt konseptið sé það sama og í fyrri bókum, þá er ég ekki frá því að Þín eigin undirdjúp sé ein af bestu Þín eigin bókunum. Hún er með dýpri persónur, fjölbreytt val, óvænt endalok og það er meira að segja tekið á sorg og missi, siðblindu og sjálfsdýrkun.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...