Bækurnar um Orra óstöðvandi eftir Bjarna Fritzson staldra stutt við á skólabókasöfnum og þær hafa selst eins og heitar lummur síðustu tvö jól. Þriðja bókin um Orra og vini hans situr nú þegar í efstu sætum metsölulista. Krakkar hreinlega éta þessar sögur upp til agna og biðja svo um meira.

Stutt innlit í líf Möggu Messi

Í Orri óstöðvandi – Bókin hennar Möggu Messi er það Magga Messi sem heldur um pennann og segir frá sínu eigin lífi og sérstaklega einu sumri. Eins og í fyrri bókum er sagan nokkrar smásögur sem þó haldast í hendur og skapa þokkalega heildarmynd. Magga þarf að kljást við illa nágranna, Blikaþjálfara sem vill henni allt illt, vandræði í skólaferðalagi og margt fleira. Með félögum hennar gengur allt betur, sameinuð standa þau.

Sögurnar eru allar skoplegar og fyndnar og til þess gerðar að heilla unga lesendur. Þær eru færðar í stílinn og stundum er óljóst hvort þær séu eingöngu ýkjusögur sagðar af Möggu eða hvort þær eigi að virðast raunverulegar.

 

Misræmi milli raunveruleika og skáldskapar

Bækurnar um Orra og félaga eru skrifaðar í þeim tilgangi að hafa góð áhrifa á sjálfsálit barna og kenna þeim markmiðasetningu. Í raun má segja að Orri óstöðvandi sé angi af sjálfstyrkingarnámskeiðunum sem Bjarni Fritzson heldur úti, með góðum árangri. Það er mikilvægt að efla sjálfsmynd barna og kenna þeim að setja sér markmið sem þau geta náð. Svo ætlunin með bókunum er góð. Mér þykir Bjarni þó hafa skotið yfir markið í þessari bók. Krakkarnir í bókinni þurfa í raun ekki að sigrast á neinum hindunum og geta ögrað reglum og brotið þær án afleiðinga. Hérna kemur aftur inn í mörkin milli raunveruleikans og ýkjusögunnar. Sem dæmi mála Orri og Magga mynd af Gigi Bryant, sem lést í þyrluslysi með pabba sínum Kobe, á vegg skólans. Þyrluslysið er raunverulegt, andlát Kobe og Gigi er raunverulegt og með því að nefna atburð sem þennann hefur Bjarni nelgt sögusvið bókarinnar niður í tíma. Fyrir vikið spurði ég mig af hverju engin kórónaveira væri í bókinni. Eftir að hafa málað myndina á vegg skólans (sem er augljóslega í óleyfi) fá Magga og Orri þó engar skammir. Þeim er hrósað fyrir að mála vel og afleiðingarnar eru engar fyrir þau. Þau fá klapp á bakið. Sama gerist þegar Magga sleppir eldmaurum á Blikastelpur í skólaferðalagi. Afleiðingarnar eru engar, nema klapp á bakið og hlátur.

Í öðrum kafla í bókinni stökkva krakkarnir upp á snjóflóð og sörfa niður fjallshlíð. Hafi Bjarni viljað fjalla um líf barna út frá raunverulegum forsendum þá finnst mér óþarfi að hvetja þau til að sigrast á sjálfum sér og leggja sig í hættu á sama tíma. En fyrir utan þetta misræmi milli raunveruleika og skáldsögu þá fannst mér Magga Messi ekki þurfa að sigrast á mjög miklu. Magga er langbest í fótbolta (þótt hún sé svo óheppin að vera stelpa og mega ekki spila með strákavinum sínum í fótboltanum), hún á bestu vinina, frábæra fjölskyldu, býr í góðu hverfi og henni gengur í raun allt í haginn. Hvar eru hindranirnar? Hvar er sjálfsefinn? Hann er ekki til staðar og því er lítið annað hægt að gera en að öfundast út í (eða dást að) þessari hressu og sjálfsöruggu stelpu.

En þrátt fyrir mínar aðfinnslur um bókina, þá mun þessi bók vera lesin upp til agna af áhugasömum börnum. Það verður keppst um að fá bókina að láni á skólabókasöfnum og hún mun seljast vel í bókabúðum. Það er nefnilega eitthvað við Orra sem hittir í mark og ef hann verður til þess að eitthvert barn uppgötvar töfra bókanna eða eflist í sjálfstrausti, þá er það frábært.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...