Árni Árnason hóf söguna af systkinunum Sóleyju og Ara í fyrra með bókinni Friðbergur forseti sem fjallar um uppgang þjóðernispopúlistans Friðbergs og það hvernig Sóley og Ari koma fjölda barna á Íslandi til bjargar. Í Háspenna, lífshætta á Spáni halda ævintýri Sóleyjar og Ara áfram og þau þurfa aftur að kljást við öfl sem eru þeim sterkari.

Í sumarfríið

Bókin hefst á flugvelli, sem er orðinn flestum Íslendingum mjög framandi. En í bókinni er ekkert til sem heitir sóttkví, heimskomusóttkví eða smitrakning. Sóley Ari og fjölskylda þeirra eru á leið í langþráð ferðalag til Spánar, þar sem mamma þeirra þarf að sitja fund um loftslagsmál í nokkra daga (enda orðin forseti Íslands) en að því loknu mun fjölskyldan njóta lífsins saman á Spáni. Og það byrjar allt mjög vel. Sóley og Ari kynnast systkinum sem eru hálfíslensk og hálfspænsk og búa í smábænum sem þau dvelja í, ís er alltaf á boðstólnum og heilt yfir er allt frábært. Þegar Sóley tekur eftir undarlegum ferðum eins af lífvörðum mömmu hennar renna þó á hana tvær grímur og hún vill rannsaka málið. Þá hefst ævintýri sem þau hefði ekki getað órað fyrir. Sóley, Ari og nýju vinir þeirra þurfa skyndilega að eiga við mannræningja, hryðjuverkamenn og alþjóðleg öfga hægri samtök sem hyggja á heimsyfirráð.

Krakkar taka málin í sínar hendur

Bókin er mjög spennandi og tekur á alvarlegum málum. Mér finnst vel gert af Árna að taka af skarið og fjalla um pólitísk mál í barnabók á áhugaverðan og spennandi hátt. Hann gefur börnunum hyggjuvit og hugrekki til að takast á við hrikalegar aðstæður. Þau skora fullorðið fólk á hólm með skoðunum sínum og gjörðum og taka málin í eigin hendur. Hinnir fullorðnu hafa ekki alltaf rétt fyrir sér en það er líka ágætt að börnunum sé trúað þegar þau loksins komast í samband við lögreglu.

En þótt tekin séu fyrir alvarleg málefni þá er bókin líka nokkuð fyndin. Þannig er fyndnum atvikum blandað vel saman við gríðarlega spennu og hrikalega atburði. Persónuuppbygging þykir mér skipta miklu máli og mér þótti vanta ögn upp á hana. Ég náði lítilli tengingu við Sóley og Ara. Árni reyndi líka að skapa dulúð í kringum það hver höfuðpaur ódæðismannanna var, en það fyrir mitt leiti tókst það ekki eins vel og væntingar stóðu kannski til. Bókin er líka ein af mörgum framhaldsbókum í jólabókaflóði árisins og það er nokkuð af vísunum í fyrri bókina í þessari. Mér þótti ekki nauðsynlegt að hafa lesið fyrri bókina til að geta notið þess að lesa þessa.

Sé litið hjá þessum hnökrum þá er Háspenna, lífshætta á Spáni bók sem setur heiminn í örlítið samhengi fyrir krakka. Hún sýnir svart á hvítu að það vilja ekki allir það sama, samsæriskenningasmiðir hafa of mikil völd og það er til fólk sem vill öðrum illt. Sem betur fer geta Sóley og Ari þá komið til bjargar, eða eitthvað af börnunum sem lesa bókina.

 

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....