Nú er komið framhald Nornasögu – Hrekkjavakan úr smiðju hinnar fjölhæfu Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur. Nornasaga 2 – Nýársnótt á sér stað tæpum tveimur mánuðum eftir atburði fyrstu bókarinnar en flestir borgarbúar virðast hafa gleymt öllu sem gerðist á Hrekkjavöku. Aðalsöguhetjan Katla man þó allt og meginmarkmið hennar er að endurheimta Heiði, nágrannakonuna sem var full af visku og sem seinna kom í ljós að var systir nornarinnar vondu, Gullveigar. Af einskærri óheppni tekst Kötlu að bjóða allskyns óvættum inn í mannheima á Þorláksmessu og þarf að bjarga sér, Mána vini sínum, fjölskyldunni sem og allri Reykjavík úr klípunni.

Eins og í síðustu bók er virkilega vandað til verka í þessari skemmtilegu barnabók. Bæði texti og myndir halda lesandanum við efnið og samblandast óaðfinnanlega. Bókin gerist í miðbæ Reykjavíkur og nærumhverfi – Öskjuhlíðinni þar á meðal, þar sem feikna skógur sprettur upp á skömmum tíma.

„Foreldrafélag með drónadellu“

Katla á í svolitlum vinavandræðum en Máni, besti vinur hennar í heiminum, vill allt í einu bara vera með Emblu, óvinkonu Kötlu, eftir að Katla gefur honum öðuskel í jólagjöf. Seinna kemur í ljós að þetta er auðvitað galdraskel sem innihélt ástargaldur. Foreldrar Emblu eru langt leiddir í aðgerðir foreldrafélags sem kallar sig Heimavarnarliðið og er farið að vinna leynilegt verkefni á vegum ráðuneytis sem er ekki til! Þau hafa helling af drónum á sínum snærum til að leita að hundinum Prins Sjarmör en allir benda fingrum á Kötlu.

Bókin inniheldur samfélagsádeilu sem er alltaf hressandi í barnabókum. Í þetta sinn er loftslagsvandinn til umræðu og aðgerðarleysi stjórnvalda og fullorðna fólksins. Katla kemst að því að hún hefur boðið tröllskessunni Angurboðu, systur Gullveigar, inn í mannheima og hvert sem hún fer vex gífurlegur skógur úr fótsporum hennar. Heimavarnarliðið heldur að það sé að nýta sér Angurboðu til að græða landið: „Henni hefur verið lofað lúxusfótabaði eftir að hún hefur grætt Laugaveginn. Með því þrekvirki mun hún eyða þó nokkrum risavöxnum kolefnissporum og sýna hvers hún er megnug. […]. Hún á að verða vopn ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.“ (bls. 172) Seinna kemur í ljós að þetta tilbúna ráðuneyti er hugarfóstur Gullveigar til að handsama systur sína.

Mikilvægur fjölbreytileiki

Annað sem er til umfjöllunar í þessari bók er uppruni Kötlu. Fjölskylda hennar er afar fjölbreytt og falleg. Hún á mæður sem heita Ugla og Þórdís og tvö systkini, Kára og Kríu. Katla veit ekki hver faðir hennar er, Kári varð til með hjálp tæknifrjóvgunar og Kría var ættleidd. Mæðurnar tala opinskátt um uppruna barna sinna sem mér finnst afar mikilvægt enda eru fjölskyldur allskonar og það er svo gott að börn sjái allskonar birtingamyndir fjölskyldna í barnabókum. En faðir Kötlu verður að mikilvægri fléttu í bókinni, það kemur í ljós að hann er sjálfur Loki lævísi sem þýðir þá að miðgarðsormurinn og fenrirsúlfurinn eru hálfbræður Kötlu! Það útskýrir galdramátt Kötlu en í þessari bók þarf hún að nýta hæfileika sína mikið til að koma sér úr allskonar vandræðum og opna gátt á nýársnótt til að koma Angurboðu og Gullveigu aftur til síns heima.

Spenna og óvenjuleg ævintýri

Fyrir mér er þetta fullkomin bók fyrir börn sem þyrstir í smá spennu og ævintýri. Sagan gerist hratt og inniheldur allskonar uppákomur, bæði fyndnar og hræðilegar. Kristín Ragna nýtir sér enn og aftur sagnaarf okkar íslendinga og henni tekst vel til. Hún fléttar inn samfélagsádeilu og fjallar um mikilvæg málefni. Þetta er barnabók sem kafar djúpt án þess að verða alvarleg. Léttleikinn er alltaf til staðar. Myndlýsingarnar hennar Kristínar Rögnu eru alveg í uppáhaldi hjá mér því þær eru svo litríkar og einstakar. Maður sér höfundareinkenni Kristínar Rögnu langar leiðir.

Ég mæli gífurlega mikið með þessari bók fyrir börn sem vilja lesa um venjuleg börn sem lenda í óvenjulegum ævintýrum. Textinn er oft brotinn upp með feitletrunum og myndum og því mjög aðgengilegur. Annars munu fluglæsir krakkar hafa mjög gaman af bókinni (og fullorðnir). Nú er ég orðin voðalega spennt að lesa síðustu bók bókaflokksins en hún kemur örugglega næstu jól og ber heitið Nornasaga 3 – Þrettándinn.

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...