Í vetur kom út fyrsta skáldsaga Ásdísar Höllu Bragadóttur, Ein, en síðustu ár hefur hún gefið út tvær fjölskyldusögur, Tvísaga og Hornauga, sem hlutu mjög góðar viðtökur.

Ein á sér stað í kringum páskana 2020 þegar kórónuveiran hefur lagst þungt á landann. Bókin hefst á því að eldri kona í blokk við Aflagranda finnst látin og Sólrún, ung kona sem starfar við heimaþjónustu hjá henni og finnur hana, óttast að eiga sök á því að hafa hrundið af stað hræðilegri atburðarás. Í bókinni fléttast svo saman saga Sólrúnar, ungs læknis í New York, og annarra íbúa í blokkinni á Aflagranda. Rauði þráðurinn í sögunni er einsemdin sem hefur magnast á tímum Covid-19.

Þetta er önnur bókin sem ég les sem gerist í miðjum kórónuveirufaraldri. Í þeirri fyrri, Snertingu, er faraldurinn meira í bakgrunninum en hér. Sóttvarnarreglur, einangrun og mismunandi viðbrögð við faraldrinum spila mikilvægt hlutverk í þessari sögu. Eitt sjónarhorn bókarinnar er svo frá dóttur hinnar látnu, Klöru, sem starfar sem læknir í New York borg, einni verst leiknu borginni af faraldrinum, og berst við að bjarga fórnarlömbum faraldursins.

Ég var mjög hrifin af ritstíl Ásdísar Höllu í Hornauga og var því spennt að lesa hennar fyrstu skáldsögu. Ásdís Halla er eins og margir vita meðeigandi heimaþjónustufyrirtækisins Sinnum og því þótti mér snjallt hjá henni að láta konu sem vinnur við heimaþjónustu vera eina aðalpersónu í fyrstu skáldsögu sinni. Nokkrir íbúar sem njóta heimaþjónustunnar koma svo einnig við sögu. Í viðtali við Fréttablaðið sagðist Ásdís Halla sjálf einmitt hafa fyrstu tvö árin í rekstri farið af og til í verkefni á heimilum langveikra og aldraðra. Hún upplifði margt í þessu starfi og vildi skrifa um raunveruleika þessa fólks sem er mikið eitt.

Ásdís Halla er góður penni og textinn er lipur í þessari skáldsögu. Það eru ekki margar bækur sem fjalla um stöðu aldraðra og aðstandanda þeirra og því ber að fagna að slík málefni séu tekin fyrir í nýrri skáldsögu. Mér fannst mikið lagt í að gefa sögupersónunum áhugaverða baksögu og gera samskiptin trúverðug. Það er þannig gott efni í bókinni, en mér fannst þó eitthvað vanta upp á þegar allt kom heim og saman. Bókin er í styttra fallinu og gerist innan þröngs tímaramma. Ef til vill hefði mátt lengja bókina og fara dýpra í hlutina. Mér þótti saga Klöru sérstaklega sterk og hefði viljað vita meira af henni. Ritstíll Ásdísar Höllu heldur áfram að lofa góðu og verður áhugavert að sjá hvað hún tekur fyrir næst í ritstörfum.

 

Lestu þetta næst

Smáar sögur, stór orð

Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á...

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....