Flest okkar upplifðu það í byrjun COVID-19 faraldursins að líf okkar væri að breytast til muna og að hlutirnir yrðu ekki áfram eins. Lífið hægðist hjá mörgum og sumir fengu óvænt andrými til að hugsa um líf sitt, ferðafélaga í því, og hvað raunverulega skiptir máli. Þetta allt saman grípur Ólafur Jóhann Ólafsson í nýjustu bók sinni Snertingu sem kom út á dögunum. Bókin er ekki einungis skrifuð á þessu ári heldur gerist hún einnig árið 2020, nánar tiltekið í upphafi faraldursins í vor. Þetta er fyrsta bókin sem ég les sem gerist á tímum veirunnar, og tekst höfundi á snilldarlegan hátt að grípa tíðarandann en janframt segja stórfenglega og fallega sögu.
Ferðalag til fortíðar
Snerting segir frá Kristófer, manni á áttræðisaldri, sem ákveður að loka veitingastað sínum í miðbæ Reykjavíkur vegna veirunnar eftir nokkurra áratuga rekstur. Sama dag fær hann óvænta vinarbeiðni á Facebook og drífur sig af stað í ferð yfir þveran hnöttinn til að gera upp fortíðina. Líkt og í mörgum bókum Ólafs Jóhanns ríkir mikil dulúð yfir aðalpersónunni og fortíð hennar. Kristófer leggur af stað í ferðalag til þess að endurnýja kynnin við fyrrum unnustu sína Míkó sem hann var með fyrir hálfri öld í London þar til hún hvarf skyndilega úr lífi hans. Í gegnum söguna er Kristófer þó ekki einungis að gera upp þennan tíma fyrir fimmtíu árum síðan heldur líka fráfall eiginkonu sinnar Ástu nokkrum árum áður, samband sitt við uppeldisdóttur sína Gerði og eftirsjár sínar.
“Það segi ég aftur og aftur og þótt ég viti að allt sé það satt og rétt þá heldur efinn áfram að smjúga inn í hausinn eins og vatn í lekan bát, finnur sér nýja glufu þegar fyllt er upp í gamlar, dropi hér og dropi þar, uns mér finnst ég allt í einu vera að því kominn að sökkva.” (bls. 119)
Í læri á japönskum veitingastað
Bókin gerist í Reykjavík og Tókýó nútímans en einnig í Lundúnum árið 1969 þar sem Kristófer rifjar upp tímann þegar hann hætti óvænt í hagfræðinámi og fór að vinna á japanska veitingastaðnum Nippon. Kristófer vann þar undir leiðsögn Takahashi-san sem fræddi hann um japanska matargerð og hæku skrif en þar kynntist hann dóttur Takahashi-san og síðar unnustu sinni Míkó. Ólafur Jóhann hefur greinilega unnið mikla rannsóknavinnu eða kynnst japanskri menningu vel af eigin raun (hann vann lengi fyrir Sony) og lýsir af mikilli nákvæmni japanskri matargerð, sem og ljóðlist. Það kviknar eitthvað inni í Kristófer á þessum tíma á Nippon og er hann því staðráðinn í að fara til Japan og hitta Míkó þegar hún hefur samband, hálfri öld eftir að hún og faðir hennar létu sig hverfa og ástarsambandi þeirra Kristófers lauk því skýringarlaust.
Snerting er með betri bókum sem hafa komið út á árinu. Lestrarupplifuninni get ég líkt við að liggja í heitu baði, og mæli raunar með að fólk geri slíkt meðan það les þessa yndislegu og fallegu sögu. Bókin er vel uppbyggð, þó að ekki sé um spennusögu að ræða viðheldur höfundurinn ákveðinni spennu í gegnum bókina með því að færa lesandanum stöðugt nýjar upplýsingar um fortíð Kristófers. Afturhvörf hans til fortíðarinnar eru mjög náttúruleg og raunsæ, hann neyðist til að stoppa í Lundúnum á ferð sinni til Japan og fer þannig að rifja upp tímann þar meðan hann labbar milli gamalla bækistöðva. Síðar þegar hann er kominn til Japan kveikja litlir hlutir gamlar minningar, hann fer til að mynda að hugsa um lestarferð með Míkó til og frá Bath á meðan hann situr í lest á leið til Hiroshima. Höfundi tekst að blanda saman réttu magni af afturhvörfum til fortíðar og framvindu í nútímanum í lífi Kristófers. Án þess að gefa of mikið upp þótti mér einnig Ólafi Jóhanni takast að hnýta vel um alla lausa enda við lok bókarinnar og gefa lesendum endi sem er mjög fullnægjandi.
Góð persónusköpun einkennir einnig bókina, Kristófer er ljóslifandi maður sem hefur gert mistök og þurft að lifa með eftirsjá. Sambönd hans við aðrar persónur sögunnar eru mjög raunsæ, sérstaklega þótti mér samband hans og samskiptin við stjúpdótturina Gerði skrifuð af mikilli næmni.
Ólafur Jóhann Ólafsson hefur sent frá sér fjölda góðra skáldsagna og er Snerting meðal þeirra betri sem ég hef lesið eftir hann. Hún heldur manni alveg við lesturinn, en það gerir hana sérstaklega góða hvað hún skilur mikið eftir sig.