Hávaðinn í þögninni

 

Svo margan svip ber gæfan; goðin haga til
með ýmsu móti sem oss sízt til hugar kom;
það sem vér töldum vísast alls, kom ekki fram
en það sem vonlaust þótti, reyndist guðum fært.
Hér hafa leikar einmitt farið á þann veg.

 (Evrípedes, 1990, bls. 970) (1159-1163)

 

Verðug afþreying

Öðru hvoru rekst ég á verk sem nær að fanga athygli mína á fyrstu blaðsíðunum og halda mér áhugasamri og spenntri til síðustu síðu. Og hér er einmitt á ferðinni eitt slíkt verk. Þegar ég byrjaði á Þögla sjúklingnum (Silent Patient) hafði ég áætlað að lesa bókina á nokkrum dögum, en það var aldeilis ekki tilfellið. Þegar ég hóf lestur lagði ég hana ekki frá mér fyrr en ég hafði lokið við hana. Þessi glæpasaga er verðug afþreying sem kom skemmtilega á óvart.

Þögli sjúklingurinn er eftir Alex Michaelides, bókaforlagið Útgáfan gaf verkið út á íslensku fyrr á þessu ári og var það Ingunn Snædal sem þýddi. Verkið hefur fengið frábærar viðtökur, Óskarsverðlauna-framleiðandi hefur keypt kvikmyndaréttinn (Adams, 2019), bókin var í fyrsta sæti metsölulista New York Times um hríð og var valin glæpasaga ársins hjá Goodreads 2019. Alex Michaelides kemur frá Kýpur, hann lagði stund á enskar bókmenntir við Cambridge háskóla og lærði handritagerð við American Film Institute í Los Angeles. Hann skrifaði handrit fyrir kvikmyndirnar The Devil You Know (2013) og The Con is On (2018) en hvorug þeirra hlaut markverðar viðtökur þrátt fyrir gott úrval leikara. Þögli sjúklingurinn er frumraun hans í skáldsagnaskrifum (Michaelides, 2019).

Alex hefur einnig mikla reynslu af sálfræði og stofnunum fyrir andlega veika. Hann segist hafa sjálfur eytt miklum tíma í meðferð og fékk út frá því áhuga á að nema sálfræði. (Adams, 2019). Hann dróst, að eigin sögn, út í að hjálpa þeim sem eru veikir á geði í von um að geta læknað sjálfan sig, líkt og önnur aðalsöguhetja verksins, Theo Faber.  „Ég út­skrifaðist ekki því ég er of sjálfs­elsk­ur til að vera meðferðaraðili; ég verð alltaf rit­höf­und­ur. En ég vann á geðdeild fyr­ir ung­linga í tvö ár. Og það var mögnuð lífs­reynsla því ég kynnt­ist fólki með miklu al­var­legri vanda­mál en ég sjálf­ur. Það var mjög gott fyr­ir mig“ (Böðvar Páll, Ásgeirsson, 2020). Þessi lífreynsla nýtist Alex vel sem skáldsagnahöfundi og tekst honum að skapa trúverðugan heim innan geðsjúkrahússins í Þögla sjúklingnum.

Það liggur sannleikur í þögninni.

Þótt varasamt sé að segja of mikið um atburðarás glæpasagna í ritdómum er óhjákvæmilegt að fara hér nokkrum orðum um söguþráðinn. Alicia Berenson lifir svo gott sem fullkomnu lífi, hún er farsæll listmálari og eiginmaður hennar þekktur tískuljósmyndari, saman búa þau í fallegu húsi á besta stað í London með útsýni yfir almenningsgarð. Einn daginn kemur eiginmaður hennar seint heim úr vinnu og hún skýtur hann í höfuðið fimm sinnum, eftir það segir hún ekki orð.

Á gólfinu lá byssa. Við hlið hennar, í skugganum, sat Gabriel hreyfingarlaus, bundinn við stól með vír sem vafinn var um ökkla hans og úlnliði. […] Á veggnum á bak við hann voru brot úr höfuðkúpunni, heilanum,  hár – og blóð (Michaelides, Alex, 2020, bls. 8).

Bæði vegna þess hve hrottalegt morðið er og af því að Alicia mælir ekki orð frá vörum fangar hún fljótt athygli almennings og verður landsþekkt. Hennar eina málsvörn, hennar eina tjáning eftir atburðinn, er málverk, sjálfsmynd sem hún nefnir Alkestis. Vegna ástands hennar og skyndilegs málleysis er hún lögð inn á réttargeðdeildina á sjúkrahúsinu Lundi.

Áðurnefndur Theo Faber er sálmeðferðafræðingur sem hefur einstakan áhuga á máli Aliciu og hefur lengi þráð að vinna með henni. Sex árum eftir að hún er lögð inn losnar staða á Lundi, Theo grípur tækifærið og fær vinnu á deildinni hennar. Hann er staðráðinn í að uppgötva leyndarmál Aliciu, afhjúpa ráðgátu málleysisins og fá hana til að tala. Theo leitar sannleikans en um leið ógnar sannleikurinn honum.

Alicia virðist vængbrotin og vanmáttug í þögn sinni, en áföll, vanræksla og óendurgoldin ást lita fortíð hennar. Hún virðist hafa verið nokkuð hamingjusöm í hjónabandinu og sjúklega ástfanginn af eiginmanni sínum, allt þar til hún skaut hann. Saga Theo er ekki ólík sögu hennar, fortíð hans er einnig mörkuð áföllum, vanrækslu og óendurgoldinni ást. Hann hefur unnið mikið í sjálfum sér og sinnt andlega veiku fólki. Hann hefur þó einhverja óheilbrigða þráhyggju gagnvart Aliciu, þráhyggju, sem verður oft á tíðum skuggaleg og fær mann til að efast um heilindi hans. Það er eins og hann trúi því að hann muni á einhvern hátt verða heill við að lækna Aliciu. Höfundi tekst vel að skapa fjölbreyttar persónur og umhverfi, reynsla hans á sviði sálfræði skilar sér vel í verkinu. Andrúmsloftið, lyfin, meðferðirnar, sjúklingar, starfsfólkið og sjúkrahúsinu í heild er lýst á trúverðugan hátt. Lýst er algengum vandamál sjúkrahúsa, á Lundi er til að mynda fjárhagsskortur, úrræðaleysi og vandi tengdur oflyfjun sjúklinga

Sagan er er sett saman úr þremur frásögnum; fyrstu persónu færslum úr dagbók Aliciu, lýsingum á einkalífi Theos og vinna Theos með Aliciu. Alex fléttar meistaralega þessum þremur þráðum saman í æsispennandi fléttu sem kemur lesanda í opna skjöldu áður en yfir lýkur. Dagbókarfærslur Alicu birtast inn á milli hinna frásagnanna sem eykur spennu og forvitni. Lýsingarnar á einkalífi Theos og vinnu hans með Aliciu eru trúverðugar, vel skrifar og spennandi, og flakkar höfundur einstaklega fimlega á milli þessara sögusviða heimilis og vinnustaðar. Verkið skiptist í fimm hluta, hver og einn einkennist af stuttum köflum sem skapar mikla eftirvæntingu.

Dagbók Aliciu gefur mikla innsýn í líf og hugarheim hinnar þöglu konu og er þetta í raun eina leið lesanda til að kynnast henni sjálfri, því ekki talar hún. Þarna leynast líka mikilvægar upplýsingar um líf Aliciu vikurnar fyrir morðið. Það er stórsniðugt hjá höfundi að nota þessa nálgun til að kynna persónu sem er að öðru leyti mállaus. En það er einn stór galli á gjöf Njarðar, dagbókin er ótrúverðug. Þá á ég við hvernig hún er skrifuð. Ég verð hér að vera sammála gagnrýnanda Kirkus tímaritsins sem bendir á að almennt séu dagbækur ekki svona ítarlegar. Þarna má finna heilu samræðurnar orðrétt, nákvæmar lýsingar á umhverfi og bakgrunni einstaklinga og fleira sem er ólíklegt að finna í dagbókum (The Silent Patient, 2019). Hér má sjá brot úr dagbókinni þar sem Alicia skráir niður samtal sitt  við bróður sinn:

 

„Hvað vantar þig mikið?“ spurði ég

„Tuttugu þúsund.“

Ég trúði ekki eigin eyrum. „tapaðirðu tuttugu þúsund pundum?“

„Ekki öllu í einu. Svo fékk ég lánað hjá fólki og – nú vill það fá borgað.“

„Ertu búinn að segja mömmu þinni þetta?“ Ég vissi nú þegar svarið við þessu. Þótt Paul sé í rugli er hann ekki heimskur.

„Auðvitað ekki. Hún myndi drepa mig. Þú verður að hjálpa mér, Alicia. Þess vegna kom ég hingað.“

„Ég á ekki svo mikla peninga.“ (Michaelides, Alex, 2020, bls. 166)

 

Þessi frásögn tekur fjórar blaðsíður og gefur ágætis hugmynd um hversu óþarflega og undarlega nákvæm dagbókin er. Þetta truflaði örlítið lesturinn, hugmyndin var góð en útfærslan tókst ekki nógu vel. Höfundur hefði mátt skoða að notast við annað form en dagbókarformið til að gera frásögn Alicu trúverðugri.

 

Goðsögn sem brást

Alex segist hafa alist upp við grísku klassíkina á Kýpur og haft sérstakt dálæti af Evrípídes og verki hans Alkestis frá barnæsku. Honum fannst eitthvað hrífandi við þessa konu sem reis upp frá dauðum en talaði ekki aftur (Adams, 2019). Það var frábær hugmynd að gera leikritið Alkestis að svona mikilvægu en lúmsku atriði, sem verður ekki fyllilega skiljanlegt fyrr en í lokin. Í Þögla sjúklingnum er sögunni um Alkestis að vísu lýst á þá leið að guðirnir hafi dæmt eiginmann hennar, Aðmetos, til dauða nema að hann fengi einhvern til að deyja í sinn stað. Þegar enginn vill deyja fyrir hann stígur eiginkonan fram og býðst til að fórna sér fyrir hann, sem hún gerir. Heracles sækir þá sálu hennar til helmar og hún rís upp úr gröfinni. Aðmetos er himinlifandi að fá konu sína aftur en hún segir ekkert eftir að hafa risið frá dauðum og talar aldrei aftur. Í  skáldsögunni er gefið í skyn að Alkestis tali ekki vegna þess að eiginmaður hennar sveik hana og sendi til heljar. Theo spyr yfirmann sinn af hverju Alkestis talar ekki „Theo, hugsaðu. Hvernig myndi þér líða? Manneskjan sem þú elskar mest í öllum heiminum hefur dæmt þig til dauða, sakir eigin hugleysis. Það eru ansi mikil svik“ (Michaelides, Alex, 2020, bls. 174-5) Þessi túlkun á Alkestis fellur fullkomlega að Þögla sjúklingnum, þetta er áhrifamikil hliðarsaga sem útskýrir margt og er nauðsynleg fyrir söguþráðinn. En saga Alkestis er ekki svona í raun og veru. Alkestis leikritsins býðst til að deyja fyrir mann sinn, hún vill það,.  „Nú sér þú, Aðmetos, að feigðin fjötrar mig; ósk mína vil ég tjá þér áður en ég dey. Þig met ég hærra en mitt líf; til að auðnist þér að njóta lengur ljóssins, mun ég deyja nú” (Evrípedes, 1990, bls. 947) (280-284). Í leikritinu er málleysi hennar, með öðrum orðum, ekki tilkomið vegna svika, það stafar aðeins af því að hún var vakin upp frá dauðum. Og málleysið er ekki varanlegt, eins og útskýrt er skilmerkilega fyrir Aðmetosi: „Enn mun þér ekki leyft að heyra hennar rödd og eigi fyrr en Undirheima-vígslu skal á þriðja degi riftað fyrir fórnargjöf“ (Evrípedes, 1990, bls. 969) (1144-1146). Í skáldsögunni talar Theo um leikritið eins og að þar hafi ekki verið neina útskýringu á málleysi hennar að finna: „Ég las síðustu síðu leikritsins aftur, hægt og vandlega. Alkestis rís aftur upp frá dauðum. Hún talar ekki – annað hvort er hún ófær um það eða vill ekki tala um upplifun sína“ (Michaelides, Alex, 2020, bls. 163). Eins og áður sagði segist höfundur hafa fallið fyrir verkinu í æsku og það fylgt honum alla tíð, og því spyr ég: Kunni hann ekki söguna eða breytti hann henni til að láta hana falla betur að sögu sinni?  Ef þetta var óviljandi þá var rannsóknarvinna hans ekki fullnægjandi, ef þetta var viljandi þá er hann meðvitað að kynna aldagamalt verk á fölskum forsendum. Eins fullkominn og mér fannst þessi tenging við Alkestis þá varð ég afar vonsvikin þegar að ég komst að því að leikritið er öðruvísi en Alex Michaelides setur það fram. Hvort sem þetta er gert viljandi eða óviljandi er það varla boðlegt. Þetta mætti jafnvel kalla gróft brot á bókmenntahefð og -sögu.

Þrátt fyrir umrædda vankanta á verkinu, sem huganlega má skrifa á reynsluleysi höfundar, mæli ég eindregið með því við lesendur. Verkið var spennandi, öðruvísi og áhugavert. Söguþráðurinn góður og vel haldið utan um sjónarhornin og þau meistaralega fléttuð saman. Persónur eru áhugaverðar og vel mótaðar. Frábærar viðtökur verksins á alþjóðavettvangi eru verðskuldaðar. Ef þú er að leita eftir spennu, geðveiki og dulúð í áhugaverðum sálfræðitrylli þá er þetta skáldsaga fyrir þig.

 

[hr gap=”30″]

 

Jenny Katarína er fædd 1988 og er frá Þorlákshöfn en búsett í Reykjavík. Hún byrjaði ung að lesa og hafa bókmenntir verið stórt áhugamál frá blautu barnsbeini, nú stundar hún nám í bókmenntafræði við Háskóla Íslands og hyggst hún fara í framhaldsnám á sviði bókmennta. Hennar helsta áhugasvið eru rússneskar bókmenntir og klassískar, þó lætur hún önnur spennandi verk ekki fram hjá sér fara.

 

 

 

Lestu þetta næst

Dulmögnuð spennusaga

Dulmögnuð spennusaga

Nýlega kom út framhald bókarinnar Dauðaleit eftir Emil Hjörvar Petersen inn á Storytel. Bannhelgi...

Föst í Hulduheimi

Föst í Hulduheimi

Það er farið að líða á haustið. Úti er rökkur, rakt og kalt. Náttúran fellur í dvala og sjálf...

Drekar, dauði og erótík

Drekar, dauði og erótík

Hafi man eitthvað fylgst með bókaumræðum á samfélagsmiðlum á þessu ári þá er ansi líklegt að man...