Seiðmögnuð og öfgafull fantasía

Fyrir jól kom loksins út bókin Hrímland: Skammdegisskuggar eftir Alexander Dan en áður hefur hann gefið út bókina Vættir árið 2018. Bókin hefur svolítið undarlega útgáfusögu en hún kom fyrst út á vegum Alexanders sjálfs árið 2014 þar sem ekkert íslenskt forlag treysti sér til þess að gefa hana út, hinsvegar fékk hann svo útgáfusamning við bresku bókaútgáfuna Gollancz fyrir bæði bókinni og framhaldi hennar. Við þetta hefur stærsta bókaútgáfa Íslands líklega tekið við sér og kom bókin því út hjá Forlaginu eftir einhver endurskrif. En nú skulum við demba okkur í sjálfa bókina.

Fróðleiksþorsti og byltingarandi

Skammdegisskuggar fylgir lífum Sæmundar og Garúnar sem búa á Hrímlandi í borginni Reykjavík sem er undir stjórn erlends stórveldis, Kalmars. Aðskilnaðarstefna ríkir meðal mannfólks, huldufólks og blendinga, en einnig búa verur sem kallast náskárar og marbendlar í borginni. Sagan hefst með Sæmundi, drambsfullum galdramanni sem hefur verið rekinn úr galdraskólanum Svartaskóla. Hann getur ekki fylgt tilsettum reglum og þráir meira, þyrstir í vitneskju hvað sem það kostar. Garún er fyrrverandi kærasta hans og er svokallaður blendingur, blanda huldumanneskju og manneskju. Vegna þess fær hún að líða mikla fordóma en hún þráir að bylta samfélaginu á Hrímlandi og gengur hennar tilvera að meistu leiti út á það. Hún vinnum með róttækum hópi sem gefur út pólitískt tímarit en orð eru ekki nóg. Það þarf mikið til að komast undan valdi Kalmars og Trampe greifa sem ræður ríkjum.

Myrk og öfgafull fantasía

Bókin byrjar tiltölulega sakleysislega, sem lesandi furðusagna er það algengt minni að aðalsöguhetjan hafi gengið í galdraskóla og lifi í miðaldarsamfélagi þar sem tækni er víðs fjarri, eins og raunin er í upphafi Skammdegisskugga. En við lesturinn kom fljótt í ljós að hér er um að ræða mun myrkari og öfgafyllri fantasíu þar sem höfundur er óhræddur við grótesku hliðar galdranna og samfélagsins. Djöflar, seiðskrattar og náskárar eru meðal þeirra fyrirbæra sem er lýst á hrottafenginn hátt, það er ekkert undir rós í þessari bók. Ég er í raun hálf orðlaus yfir því hversu mikið bókin kom mér á óvart. Frumleikinn er algjörlega í fyrirrúmi, höfundur vinnur með íslenskan sagnaarf á magnaðan hátt, hættulegt seiðmagn má finna í náttúrunni, galdrastafir eru notaðir við kvaðningu þula og svo er það tónlistin! Í Skammdegisskuggum spilar tónlistin megin hlutverki þegar kemur að göldrunum, tónbylgjur, tíðni og beiting raddar og orða. Það fannst mér virkilega merkilegt og vel gert, enda er eitt tónbilið þekkt sem tónskratti á íslensku. Allar þessar tengingar gera bókina svo furðulega alíslenska. Ég var semsagt mjög hrifin!

Persónuþróun bæði Sæmundar og Garúnar er gífurlega sorgleg og það er erfitt að fylgjast með þeim feta veginn til glötunar. Dramb Sæmundar leiðir hann á djöfullega braut og baráttuvilji Garúnar fyllir hana hatri og ofsa. Hún er listakona og notar ólöglegt efni, delýsíð, í verkin sín til að fylla þau seiðmagni. Þannig getur hún haft áhrif á vilja og hugsanir fólks í návígi við verkin. Hún graffar verk um alla Reykjavík til að reyna að vekja upp baráttuanda og andúð á núverandi kerfi. Þetta finnst mér góður vinkill á graffsenuna, þar sem listin er notuð sem tæki til áróðurs og vakningar.

Seiðmögnuð rússíbanareið

Við lok bókar var ég í raun algjörlega uppgefin! Þvílík rússíbanareið sem þessi bók er. Skammdegisskuggar er virkilega metnaðarfull fantasía og hef ekki lesið neina hennar líka á íslensku, nema þá kannski Vættir eftir sama höfund, en sú bók er ekki jafn epísk og þessi ef ég má orða það þannig. Hún var léttmeti miðað við þessa ofsafengnu og útpældu bók. Hér er heimurinn svo úthugsaður, svo djúpur, og samfélagsbyggingin allt öðruvísi en ber að venjast hér á landi. Persónusköpunin og vegferð þeirra er mögnuð, ég fann til með þeim en á sama tíma fann ég líka fyrir viðbjóð gagnvart gjörðum þeirra. Nú hefur heyrst að framhald sé í bígerð og ég hreinlega hef ekki hugmynd hvaða stefnu sagan getur tekið eftir þetta fyrsta bindi Hrímlands! Takið sénsinn og takið upp Skammdegisskugga, þið munuð ekki sjá eftir því.

 

Lestu þetta næst