Í kuldanum á Lónsöræfum

Nýjasta bók Yrsu Sigurðardóttur heitir Bráðin. Eins og áður trónir bók Yrsu hátt á metsölulistanum eftir jólin og situr í þriðja sæti eftir árið 2020. Yrsa nær oftar en ekki að heilla lesendur sína með góðri fléttu í bland við hið yfirnáttúrulega og Bráðin er þar engin undantekning.

Bleiki skórinn

Sögusvið bókarinnar er þrískipt. Það er hinn einmana vörður í ratsjárstöðinni á Stokksnesi, skammt frá Höfn í Hornafirði. Annað sjónarhorn er hópur af útilegufólki sem leggur á Lónsöræfi um miðjan vetur. Þriðja sjónarhornið er ung kona frá Höfn sem er líka í björgunarsveitinni og þarf að leita að útilegufólkinu. Og svo er það leyndardómurinn með bleika barnaskóinn.

Palletta og pallíetta

Ég heyrði út undan mér að bók Yrsu væri innblásin af atburðunum í Dyatlov-skarði í Rússlandi árið 1959, þar sem níu manns létust við undarlegar aðstæður. Tjöldin voru sundurskorin innan frá, ferðalangarnir fundust á víð og dreif í kringum tjaldstæðið – öll fáklædd – og engar vísbendingar fundust um hvað hafði orðið til þess að ungmennin ruku úr tjöldum sínum fáklædd um miðja nótt í fimbulkulda. Ég hef verið heilluð af þessum atburði síðan ég las fyrst um hann í einhverju tölublaði af Lifandi vísindum fyrir allmörgum árum.

Yrsa er vandvirkur höfundur. Söguuppbyggingin er góð, persónurnar nægilega djúpar til að maður hrífst með örlögum þeirra og ráðgátan freistar til áframhaldandi lesturs. Yrsa er einstaklega lagin við að valda kuldahrolli og æsa upp í manni myrkfælnina. En svo lumar hún líka á bráðfyndnum línum inn á milli. Uppáhaldslínan mín eftir lestur Bráðarinnar er án efa þegar ein persónan lýsir sér sem pallettu, en hinni sem pallíettu. Súmmerar mjög upp útlit og persónuleika viðkomandi persóna. Yrsa er nákvæm og notar fallegt mál við skrifin, sem gerir heildarupplifun af bókinni þægilega. Maður upplifir að höfundurinn viti nákvæmlega hvert hann ætlar að fara með mann.

Ísland er lítið land

Fléttan í bókinni er góð og það var ekki fyrr en á síðustu blaðsíðum bókarinnar sem það fóru að renna á mig tvær grímur og mig fór að gruna hver ódæðismaðurinn var. Sannleikurinn kom þó á óvart. Ég hef gaman af því að lesa glæpasögur Yrsu, með smá blandi af hrollvekju inn á milli. Þær ríghalda mér við lesturinn.

Ég er nokkuð ánægð með hvernig Yrsa nýtti sér ráðgátuna við Dyatlov-skarð. Framan af er lesandanum algjörlega haldið í óvissu um atburðina. Það er ekki fyrr en í blálokin sem sannleikurinn kemur í ljós á nokkrum blaðsíðum. Yrsa fór þó að mínu mati offari í tengingum á milli persóna og ég velti því fyrir mér hvort það hafi verið tilefni til þess. Ísland er lítið land, en þarf að tengja alla?

Bráðin er óhemju spennandi bók sem nýtir sér áratuga gamla ráðgátu sem hefur enn ekki verið leyst. Bókin heldur lesandanum stjörfum við lesturinn með spennandi söguþræði og góðri fléttu.

Lestu þetta næst

Stormasamt hjónabandslíf

Stormasamt hjónabandslíf

Gift eftir Tove Ditlevsen er minningarbók sem segir frá hjónabandslífi danska rithöfundarins sem...

Ótrúlegt aðdráttarafl

Ótrúlegt aðdráttarafl

Sú hefð hefur skapast á mínu heimili að enda daginn alltaf á að lesa. Kvöldlestur er hluti af...

Ameríka er líka blekking

Ameríka er líka blekking

Fólk var hneppt í þrældóm frá mismunandi svæðum í Afríku nýlendutímans. Það var flutt í gegnum...

Júlían er fullkominn

Júlían er fullkominn

Aumingja Efia er bara átta ára og stjúpmamma hennar pínir hana til að lesa með sér barnabækur til...