Á morgun, þegar stríðið hófst eftir John Marsden kom í fyrsta sinn út á íslensku fyrir síðustu jól í þýðingu Berglindar Baldursdóttur. Bókin kom nokkuð seint inn í jólabókaflóruna og fór því nokkuð huldu höfði framan af. Á morgun serían er ein vinsælasta ungmennabókasería Ástralíu og hefur verið þýdd á fjölda tungumála, verið aðlöguð að sjónvarpi og kvikmyndahúsum og slegið í gegn hvar sem hún hefur drepið niður fæti. Fyrsta bókin kom út árið 1993 og svo ein á ári til 1999.

Erlendur óvinaher

Fyrsta bókin segir frá sjö vinum sem fara í útilegu í Víti, fjalladal skammt frá heimabæ þeirra Wirrawee í Ástralíu. Krakkarnir, sem eru um sautján ára gamlir, sækjast eftir sjálfstæði og frelsi. Planið er að dvelja úti við í viku og allt gengur upp hjá þeim. Þau sverja þess eið að sameinast aftur á sama stað, sami hópur. Þau hafði þó ekki grunað hve stutt það yrði þangað til þau hittust þar aftur. Þegar þau snúa aftur heim er þar engan að finna. Búfénaður liggur dauður í fjósunum og hvergi er mann að sjá. Þegar ungmennin hafa rannsakað málin frekar kemur í ljós að erlendur óvinaher hefur ráðist inn í landið og tekið íbúa til fanga um alla Ástralíu og fjölskyldum þeirra er haldið í fangabúðum í miðbæ Wirrawee.

Unglingarnir þurfa að berjast fyrir lífi sínu og nýta alla þekkingu sína til að lifa af. Þegar kemur í ljós að unglingarnir ætla ekki að láta sér nægja að lifa bara af, heldur ætla þau að berjast  á móti innrásarhernum, færist fjör í leikana.

Erfiðar tilfinningar og áfall

Marsden hittir beint í mark með bókinni. Söguþáðurinn er spennandi frá fyrstu síðu. Hann er bersögull um þær hörmungar sem viðgangast á stríðssvæði; óttann, ofbeldið, örvæntinguna. Persónurnar í bókinni upplifa ótta, skelfingu og kvíða en á sama tíma finna þau leyndan kraft. Stríð er ekki skemmtilegt og Marsden reynir ekki að gera það skemmtilegt. Hann lýsir tilfinningum unglinganna gagnvart baráttunni mjög vel.

En þar sem persónurnar í bókinni eru unglingar þá verður að vera ást í bókinni líka. Og það er um auðugan garð að gresja í þeim efnum í bókinni líka. Þrátt fyrir að allur þeirra heimur sé fallinn og þau þurfi að berjast fyrir lífi sínu kraumar ástin á milli unglinganna. Dagar þar sem lítið er að gera í Víti fara í þanka um hugsanlegan kærasta og erfiðar tilfinningar. Bókin er því frábær unglingabók.

Engir snjallsímar

Á bókinni er þó einn hnökri. Þar sem hún er skrifuð árið 1993 eru engir snjallsímar í bókinni, engir samfélagsmiðlar og ekkert internet. Úrræðin sem krakkarnir hafa til að komast til botns í innrásinni eru því töluvert fá og allt öðruvísi en krakkar í dag myndum fara að málunum. Þetta tæknileysi gæti orðið til þess að fæla lesendur frá, en þó skal ekki gera of mikið úr því. Þar sem óvinaherinn hefur þegar rofið allt samband við umheiminn, símalínur eru ekki virkar og rafmagn farið af, þá ætti þetta tæknileysi ekki að hafa nein marktæk áhrif á söguna. Ég spurði mig þó að því við upphaf bókarinnar hvar símarnir þeirra væru.

Nokkrar bækur á ári

Bergmál útgáfa gefur út bókina. Þegar byrjað er að þýða bókaseríu gerist það stundum hjá útgefendum að lesendur gefast upp á því að bíða eftir næstu bók og fyrir vikið seljast næstu bækur illa og hætt er við þýðingu á framhaldinu. Eftir standa nokkrir svekktir lesendur og óþýddir sagnabálkar. Bergmál hefur þó lýst því yfir að bækurnar verði þýddar ört og gefnar út ört – minnst tvær á ári næstu ár. Það er jákvætt og verður vonandi til þess að bækurnar nái til fleiri lesenda.

Á morgun, þegar stríðið hófst er hörkuspennandi saga sem byrjar með hvelli og endar of snemma. Ég tel hana vera raunsanna lýsingu á stríði og hörmungum og þeim tilfinningum sem fólk upplifir í þessum aðstæðum. Ég get ekki beðið eftir því að lesa næstu bók.

Hér að neðan er hægt að sjá stiklu úr bíómyndinni sem kom út árið 2010.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....