Jörðin titrar á Reykjanesinu og raddir eru háar um að Sigríður Hagalín sé völvan sem kallar hamfarir yfir þjóðina! Hún hafi spáð fyrir um lokun landsins vegna kórónaveirunnar í bókinni Eylandi og nú spáir hún hamfaragosi á Reykjanesinu í bókinni Eldarnir. Ég gef lítið fyrir að Sigríður Hagalín sé forspá eða göldrótt, en efnisval hennar í skáldsögum er grípandi.

Ég er haldin undarlegri forvitni um hræðilega hluti. Fyrir ári síðan sökkti ég mér í bækur um vírusa og farsóttir, eftir að veiran gekk á land á Íslandi. Að auki var sjónvarpsefnið yfirfullt af uppvakningamyndum og hræðilegum bráðdrepandi vírusum. Þetta róar mig. Aðstæður verða aldrei eins slæmar og dramatískar og í sjónvarpi og skáldsögum. Þess vegna fannst mér tilvalið að demba mér í skáldsöguna hennar Sigríðar Hagalín þegar jörð byrjaði að titra á Reykjanesinu á ný.

Bundin eldsumbrotum

Sagan segir af Önnu Arnarsdóttur, eldfjallafræðingi, móður og eiginkonu á miðjum aldri. Þegar jörð fer að skjálfa á Reykjanesinu umturnast líf hennar. Bókin fjallar ekki síður um ástina en um jarðelda og -skjálfta. Sigríði er tíðrætt um ástina sem hamfarir í lífi fólks. Ástin sé í raun gjöreyðingarafl sem umturnar lífi manns, sviptir mann sjálfræði og skynsemi.

Sigríður gerir samband Íslendinga við eldfjöllin að umfjöllunarefni í byrjun bókarinnar. Ást okkar á eldfjöllum, eldsumbrotum og jarðskjálftum er ansi skrýtin og virðast ekki eiga sér hliðstæður annars staðar í heiminu. Á öðrum eldfjallaeyjum eru eldfjöllin virt með óttablandinni virðingu. Á Íslandi hlakkar í fólki þegar styttist í gos einhvers staðar og einhvern veginn er trú okkar og traust á eldfjallasérfræðingum, jarðeðlisfræðingum og almannavörnum óbilandi. Þannig á það að vera. Við þurfum að treysta og trúa að fagfólkið viti hvað það er að gera og hlýða þegar þar að kemur. En hvað gerist af varnarkerfið bregst okkur? Það er spurningin sem Sigríður spyr í bókinni.

Stórslysamyndin

Bókin er keyrð áfram á spennu. Lesandinn veit frá fyrstu síðu að eitthvað hræðilegt er í uppsiglingu. En í henni leynist þó líka hörð ádeila á afskipti hagsmunaafla af almannavarnakerfinu. Á að taka tillit til álits nágrannaþjóða á Íslandi? Þarf að taka efnahagslegan ávinning með í reikninginn þegar almannahagsmunir eru í húfi? Inn í þessar pælingar fléttast svo pælingar um ástina og fjölskyldulífið. Örlög Önnu eru bundin jarðhræringunum. Tilfinningalíf hennar er kraumandi kvika og allt springur í loft upp.

En að öllu þessu sögðu þá fannst mér persóna Tómasar Adler gangandi klisja; hinn ævintýragjarni ljósmyndari og listamaður, frjáls og óháður.  Og einhvern veginn sá ég Önnu alltaf fyrir mér uppdiktaða í buxnadragt, en ekki sem jarðfræðing sem er til í allt. Eitthvað passaði ekki fyrir mér. Kápa bókarinnir passar líka óskaplega illa við innihaldið og hefði mátt vera mun ævintýralegri.

Bókin er gríðarlega grípandi og auðlesin. Ég maraþon las hana á tveimur kvöldum, á meðan jörðin titraði undir mér. Mér fannst ég stundum vera að lesa handrit að stórslysamynd, sem fyrir mína parta er ekki slæm upplifun. Inn á milli leynast þó ljóðrænar pælingar um ástina, samband Önnu við foreldra sína, pælingar um hvað skapar okkur sem manneskjur. Og Sigríði tókst að gera þetta allt áhugavert og binda það saman í eina heild – í eitt kraumandi eldfjall. En ég er þó heitust fyrir stórslysasöguþræðinum, hann svalaði einhverri þrá hjá mér. Verði einhvern tíman gerð stórslysamynd um íslenskt eldfjall, vona ég að þessi bók verði höfð til hliðsjónar.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...