Veturinn er kominn til að vera

 

Brunagaddur er nýjasta ljóðabók Þórðar Sævars Jónssonar. Þórður er bæði skáld og þýðandi en þetta er önnur ljóðabók hans í fullri lengd. Ljóðabókin Vellankatla kom út 2019 og var rýnd hér í Lestrarklefanum, áður kom út stutta ljóðabókin Blágil í meðgönguljóðaseríu Partusar.

Brunagaddur er einstaklega fallegur titill, orðið inniheldur athyglisverða mótsögn, bruna og gadd, eld og ís, en orðið þýðir nístandi kuldi. Titillinn gefur til kynna að hér sé Þórður að vinna með svipuð þemu og í bókinni Vellankatla, veðráttu og náttúru Íslands.

Hinn árvissi fyrirburi

Upphafsljóð bókarinnar setur tóninn og kynnir veturinn sem fyrirbærið sem verður í aðalhlutverki: „veturinn fer aldrei / alveg // það gengur bara mismikið á forðann“ (11). Ljóðmælandi vill fá viðvaranir um komu vetursins en hann virðist aldrei tilbúinn til að taka á móti honum: „þessi / árvissi / fyrirburi // kemur mér / alltaf / í opna skjöldu“ (13).

Höfundur heldur áfram að vinna með myndljóð, líkt og í Vellankötlu, það má meðal annars sjá í ljóðunum „Kósídagur“ og „Órói sem ég slæmi hendinni í“ þar sem orðin minna á fall snjókorna. Húmorinn og írónían eru einnig í aðalhlutverki líkt og í fyrri bók höfundar en tónninn er léttur og leikandi. Orðin eru leikföng höfundar og hann nýtir þau til að varpa upp óvæntum myndum og skilningi í huga lesandans. Eitt stutt dæmi um það má finna í ljóðinu „Innilokunarkennd I“: „ að vera // myrkranna // á milli“ (24). Einnig vill hann bjóða mykrinu í feluleik í ljóðinu „FELÓ“ og telja upp í óendanlega háa tölu, „og það er / bannað / að telja hratt“ (32).

Miskunnarlausi einræðisherrann

Þó svo að mörg ljóðin séu léttleikandi er þungt yfir ljóðmælanda, myrkið sem fylgir vetrinum leggst á sálina og veldur vonleysi, veturinn er „miskunnarlaus einræðisherra“ (38) og ber ljóðmælandi borgarísjaka í brjósti sér „og þeir rista djúpt // alveg ískyggilega // djúpt“ (37). Í síðasta ljóði bókarinnar virðist ljóðmælandi ekki geta meir:

 


til Kristjáns

og allt í einu
kemst ég ekki
skrefinu lengra

með botnfrosið stöðuvatn
í eftirdragi

finn kuldann
ryðja sér
til rúms

finn blóðið
frjósa

finn ekki
fyrir neinu

Brunagaddur, bls. 44.

 

Skýr höfundareinkenni

Þrátt fyrir þungan endi bókarinnar er þetta ljóðabók í léttari kantinum, það er hægt að skemmta sér við lesturinn og flestir íslendingar geta tengt við þetta vonleysi, skammdegisþunglyndi, sem bugar að lokum ljóðmælanda. Veturinn á það til að stjórna lífi okkar á þessari litlu eyju og er þessi ljóðabók góð heimild um það. Mér finnst höfundur vera búinn að skapa sér ákveðinn tón og skýr einkenni með þessum tveimur ljóðabókum Vellankatla og Brunagaddur. Það verður áhugavert hvað hann tekur fyrir næst, er það náttúran sem mun alltaf eiga hug hans allan eða fáum við að lesa um ný yrkisefni frá þessu unga skáldi?

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.