Jörðin frýs og mannkynið leitar annað

Ég hef nýlega endurnýjað kynnin við lesbrettið mitt. Best af öllu finnst mér að lesa bækur á ensku á lesbrettinu og fyrir stuttu varð ég mér úti um nokkuð stórt safn af vísindaskáldsögum.

A.G. Riddle hefur skapað sér töluverðar vinsældir með bókaseríum sínum. Seríurnar snúast oftar en ekki um að mannkynið sé á heljarþröm og hæfasta vísindafólk heims þarf að taka höndum saman og finna lausn. Fyrsta serían sem ég les eftir hann er Winter World.

Vísindaskáldsögur geta verið flóknar og stundum, hreint út sagt, óskiljanlegar. Oftast þrýsta þær á mörk hins raunverulega og skáldaða, og fá lesandann til að ímynda sér heiminn á allt annan hátt en hann hefði nokkurn sinni getað gert sér í hugarlund. Tækni er framarlega í framvindu sögunnar og mennskan er það sem höfundurinn er oftar en ekki að velta fyrir sér. Það er gaman að fá svona áskoranir, en ekki alltaf það sem maður óskar sér. Stundum vill maður bara afþreyinguna. Þá kemur sér vel að til eru vísindaskáldsögur eins og Winter World.

Heimurinn frýs

Í Winter World er heimurinn hægt og rólega að frjósa. Af ókunnum ástæðum hefur orka sólarinnar minnkað svo um munar, jöklar færast nær miðbaug, landsvæði sem er byggilegt mönnum fer þverrandi og finna þarf lausn. Sagan er sögð frá sjónarhorni Emmu, geimfara á alþjóðlegu geimstöðinni, og James Sinclair, bráðsnjalls vísindamanns sem var fangelsaður fyrir eitthvað sem er mjög óljóst framan af. Nöfn bókanna þriggja, Winter World, Solar Wars og The Lost Colony, gefa nokkuð vel til kynna hver er söguþráðurinn í seríunni. Það er langur vetur, svo kemur stríð og mannkynið þarf að leita að nýrri plánetu og nema þar land.

Hafir þú gaman af því að horfa á stórslysamyndir, eins og ég, þá mæli ég hiklaust með bókunum. Líkindin á milli uppbyggingar bókarinnar og stórslysamyndar eru ansi mikil. Til dæmis er alþjóðlegu liði snillinga safnað saman til að finna lausn á vanda jarðarbúa, ótrúleg tækni er þróuð á örskömmum tíma og geimskutla smíðuð á enn styttri tíma. Svo er hægt að bjarga öllu með róbótum og gervigreind. Hetjur eru hetjur alla leiðina í gegn, óhvikular og óþrjótandi í dyggð sinni og alltaf fáránlega klárar. Inn í söguna fléttast ástir og örlög James og Emmu. Á stundum var óljóst hvernig færi fyrir mannkyninu, en maður gat alltaf treyst á að James reddaði málunum, hann er svo mikill snillingur.

Grunnar persónur og duttlungar höfundar

Riddle fær ekki hrós frá mér fyrir að skapa djúpar persónur. James og Emma eru grunnar persónur sem eru eingöngu þarna til að knýja áfram söguna. Maður kemst illa inn í hugarheim þeirra og ef maður fékk innsýn í huga þeirra þá skyldi Riddle lítið eftir fyrir ímyndunarafl lesandans. Það er kannski viljandi gert, því bókin snýst í raun og veru ekki um þau tvö heldur um örlög mannkyns. Eins og í stórslysamyndum þurfa persónur bókarinnar að kljást við ótrúlegt ofurefli og þola hrikalegar, líkamlegar raunir. Riddle velur og hafnar þau skipti sem líkamleg geta heldur aftur af þeim, það er allt háð duttlungum höfundarins. Til dæmis virtist Emma aðeins finna fyrir verkjum í fótum sínum þegar hún var að taka upp börnin sín (því móðurhlutverkið er svo erfitt), en ekki þegar hún þurfti að bjarga særðum hermönnum frá framandi óargardýrum og nýrri plánetu (af því þá er hún hetja).

Sefjandi lestur

Bækur sem þessar les maður ekki með því hugarfari að þær séu hnökralausar. Mér fannst lesturinn virkilega skemmtilegur og það var ekki margt sem hélt mér við efnið. Ég óskaði þess að geta vakað lengur fram eftir og að geta lesið fram á nótt, svo spennandi eru bækurnar á köflum.

Winter World serían er þrusu spennandi vísindaskáldsaga sem verður án efa aðlöguð að hvíta tjaldinu innan nokkurra ára. Lesandinn binst ekki aðalpersónunum tilfinningaböndum, en fylgist þó spenntur með framvindu þeirra og örlögum mannkyns.

E.S. Hér að neðan má sjá kynningarmyndband fyrir fyrstu bókina, sem er augljóslega tekið upp á Ísland. Hvert annað er hægt að fara til að finna hrikaleg lífsskilyrði, kulda og niðurnýddar byggingar?

Lestu þetta næst

In memoriam

In memoriam

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur (úr...