Hið ljúfsára líf

 

Í fyrsta sinn í langan tíma virkuðu auglýsingar á samfélagsmiðlum á mig! Eina vikuna sá ég þessa fallegu kápu á bókinni Um endalok einsemdarinnar svo oft að ég gat ekki hætt að hugsa um að ég yrði að koma höndum yfir þessa bók. Og það strax. En páskafríið var að hefjast og ég á leiðinni í bústað þannig ég hefði þurft að bíða þangað til eftir helgi til að næla mér í hana. Er ég svo ekki bara það heppin að þessi bók liggur á borðinu í bústaðnum! Tengdamóðir mín var við það að klára hana og eftir það fékk ég hana í mínar hendur.

Ég hef yfirleitt verið ánægð með þýddu bækurnar sem koma út hjá Benedikt bókaútgáfu eins og t.d. Grikk og Eins og fólk er flestSíðan er það einnig Ráðgátan Henri Pick sem ég skrifaði reyndar aldrei um fyrir Lestrarklefann en var stórkostleg afþreying. En bækurnar sem Benedikt velur til þýðingar eru yfirleitt innihaldsríkar, djúpar og margar mjög skemmtilegar.

Uppskera lífsins

Um endalok einsemdarinnar las ég mjög hratt, hún er þægileg aflestrar og er það Elísa Björg Þorsteinsdóttir sem þýðir en það má alltaf treysta á gæði þýðinga hennar. Höfundur bókarinnar er hinn svissnesk-þýski Benedict Wells sem hefur notið mikillar velgengni eftir útgáfu þessarar bókar.

Bókin fjallar um Jules og systkini hans Liz og Marty sem missa foreldra sína ung í bílslysi. Þau eru send á heimavist þar sem þau alast upp í sitt hvoru lagi. Jules er skarpt barn en eignast í raun aðeins eina góða vinkonu, Ölvu, sem hann getur deilt sínum innstu hugsunum með: „Þetta hérna er allt eins og fræ. Heimavistin, skólinn, það sem kom fyrir foreldra mína. Þessu er öllu sáð í mig en ég sé ekki hvað það gerir úr mér. Uppskeran kemur ekki fyrr en ég er fullorðinn og þá er það um seinan.“ (65-66) Þetta er gott dæmi um gullmolana sem leynast í þessari bók en vangavelturnar um lífið og uppvöxtinn eru fallegar og ljúfsárar.

„Óleiðréttanleg kerfisvilla“

Meðfram örlagasögu systkinana er ástarsaga Jules og Ölvu í aðalhlutverki, þau missa sambandið um tíma en alltaf er Alva efst í huga Jules. Hún lætur sig hverfa til Rússlands eftir heimavistarskólann og giftist frægum, og mun eldri, rithöfundi. En leiðir Jules og Ölvu liggja auðvitað aftur saman seinna á fullorðinsárunum þar sem einstök tengingin á milli þeirra er ósködduð. Ástarsagan fléttast vel inn í frásögnina og er það einnig ást og samband systkinanna sem er veigamikill þráður í bókinni. Bókin fjallar í raun um hvernig lífið getur gjörsamlega kippt undan manni fótunum og tekið mann í allt aðra átt en maður gerði ráð fyrir. Jules veltir þessu fyrir sér: „Hvernig líf okkar kemur að sporskiptum eftir dauða foreldra okkar, tekur ranga beygju, og eftir það lifum við öðru lífi, röngu. Óleiðréttanleg kerfisvilla.“ (129) Hérna sést einnig hvernig textinn fer af og til á ljóðrænt flug sem þýðing Elísu grípur mjög vel.

Ég naut þess að lesa bókina og leið áreynslulaust í gegnum hverja blaðsíðu. Fyrir mér er þetta hin fullkomna bók til að lesa í fríi, að fá að týnast í lífi og örlögum vel skrifaðra persóna, þó að sorgin sé fléttuð inn í frásögnina. Við lesturinn var mér hugsað til bókarinnar Einn dagur sem er einnig ljúfsár ástar- og örlagasaga eftir David Nicholls, en tilfinningin sem hríslaðist um mig var sú sama og við lestur þeirra bókar. Ég mæli eindregið með Um endalok einsemdarinnar í sumarfríið, notalegu bústaðaferðina eða á sólarströndina (ef þú kæri lesandi ert einn af þeim heppnu sem kemst út fyrir landsins steina í sumar!).

Lestu þetta næst

Köld slóð

Köld slóð

Eva Björg Ægisdóttir sigraði Svartfuglinn með glæpasögu sinni Marrið í stiganum árið 2018 og hefur...