Spennandi hringferð um hnöttinn

Ég hef lengi ætlað mér að lesa bækur Lizu Marklund enda hefur hún um árabil verið meðal vinsælustu skandinavísku höfundanna hér á landi. Þegar vinkona mín með afbragðssmekk á bókum hélt ekki lofi yfir bók hennar Svartri Perlu ákvað ég að byrja þar. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Friðriku Benónýsdóttur árið 2019 og er hreint útsagt ófráleggjanleg!

Svört Perla segir frá hinni ungu konu Kionu sem býr á lítilli og afskekktri eyju í Suður-Kyrrahafi í byrjun tíunda áratug síðustu aldar þar sem hún vinnur við köfun og perluvinnslu. Utan þess aðstoðar móður sína, hjúkrunarfræðing svæðisins, í sjúkraskýlinu. Dag einn breytist líf hennar þegar lítil snekkja ferst við eyjuna en um borð í henni er Svíinn Erik sem Kiona hjúkrar aftur til heilsu. Með þeim Kionu og Erik takast fljótlega ástir og er það upphaf af ástarsögu, sem og spennusögu, sem endar í hringferð um hnöttinn.

Skáldsaga með spennusögulegu ívafi

Bókin er ekki hefðbundin spennusaga, heldur frekar skáldsaga með spennusögulegu ívafi. Hún er líka í lengri kantinum miðað við hefðbundna norræna krimma en hér er af nógu að taka, enda spannar sagan fjölda ára og gerist víðsvegar um heiminn. Ég tók bókina á bókasafninu í fríi og lá nánast með hana í tvo daga samfellt á sófanum. Á covid tímum er sérstaklega kærkomið að fara til útlanda í huganum og var ég hugfangin af sögusviðinu í Kyrrahafi sem og þroskasögu Kionu.

Vel rannsakað sögusvið

Mín helsta gagnrýni á bókina er að ráðgátan sem er leyst við lok bókarinnar var full stórmennskuleg að mínu mati. Það breytti því þó ekki að hún var góð til að stýra framvindu sögunnar og ég naut þess að flakka með Kionu um heiminn í leit að sannleikanum. Það er óhætt að mæla með Svartri Perlu í sumarfríið, sérstaklega þegar manni veitir ekki af að skreppa í huganum til Kyrrahafsins. Liza Marklund vann mikla rannsóknarvinnu sem hún vísar til í eftirmálanum og segir hún því bæði spennandi sögu, auk þess að fræða lesendur um þetta afskekkta svæði í heiminum sem fáir hafa nokkurn tímann heyrt um.

Lestu þetta næst