Kraftmikil, stórfyndin og persónuleg sýning

Á fallegu fimmtudagskvöldi flykktist leikhúsþyrst fólk á öllum aldri á forsýningu gamanleiksins Bíddu bara eftir magnað þríeyki, Björk Jakobsdóttur, Sölku Sól Eyfeld og Selmu Björnsdóttur. Leikstjórn er í höndum Ágústu Skúladóttur, leikmynd og búningar sá Þórunn María Jónsdóttir um og svo var það þríeykið sjálft og Karl Olgeirsson sem sáu um tónlistina.

Sýning hefst á hugljúfum söng Sölku Sólar þar sem hún syngur um bjarta framtíð en í miðju lagi birtast Selma og Björk syngjandi nafn sýningarinnar aftur og aftur, „Bíddu bara!“. Þetta er frasi sem margir hafa tamið sér að nota, sérstaklega þegar við kemur barneignum og barnauppeldi. Bíddu bara þangað til þú færð ekki að sofa á nóttunni! Bíddu bara þangað til barnið fer að taka tennur! Bíddu bara er eins og einhver óljós hótun um hvað framhaldið verði gjörsamlega hræðilegt. En þessar þrjár frábæru konur gera stólpa grín af öllum þessum klisjum og frösum sem fólk lætur út úr sér næstu tvo tímana í Gaflaraleikhúsinu.

Gellumamma vs. Gyllinæðarmamma

Björk dregur þær vinkonur saman í upphafi til að kenna þeim núvitund og er það í raun rammi sýningarinnar, þessi núvitundaræfing sem er sífellt trufluð af einhverri af þeim þremur. Björk lætur hugann reika um fullorðnu drengina sína sem hún er viss um að munu búa í bílskúrnum hennar alla ævi og birtast einn daginn með vegan tengdadætur sem neyða hana til að flokka. Síminn hjá Selmu er stanslaust pípandi útaf Tinder, sem hún er sko alveg að fara að eyða því það inniheldur bara hræðilegar týpur eftir fertugsaldurinn. Salka er svo kasólétt og kvíðir fæðingunni, uppeldinu og því að þau hjónin séu ekki búin að velja rétta gráa litinn á barnaherbergið. Og þá aðallega að hún ætlar að vera GELLUMAMMA en er í raun bara þessi venjulega gyllinæðarmamma sem er ekki með neitt á hreinu (djöfull voru gyllinæðarbrandararnir fyndnir… ég meina það!). Þær á endanum bresta í söng og syngja „Kvíðalagið“ sem ég gjörsamlega tromaðist úr hlátri yfir. Þetta söngleikjaívaf sýningarinnar er svo snilldarlegt, lögin eru svo óhemju skemmtileg og þær þrjár allar fanta söngkonur, þannig þessi kómísku lög settu alveg punktinn yfir i-ið. Selma syngur „Mömmulag“ við þekkt stef, forleik Williams Tell, á svo miklum hraða og snilld að ég gat varla andað á meðan á því stóð. Þvílík söngkona. Hún sannaði það aftur og aftur í þessari sýningu. Raddir þeirra þriggja blönduðust æðislega vel í öllum þessum stórfyndnu lögum (og einu rappi!).

Þrjár kynslóðir kvenna

Bíddu bara gerir grín af þremur kynslóðum kvenna þannig allir, bókstaflega allir, geta tengt við sýninguna. Ég og maðurinn minn tengdum allt það sem fram fór á sviðinu við okkar líf eða konurnar í kringum okkur. Á meðan sýningunni stóð hugsaði ég til móður minnar, sem er af sömu kynslóð og Björk, og þarf að díla við grænmetisætuna og femínistan mig, stóru systur minnar sem er jafngömul Selmu og er að ala upp þrjár stúlkur af TikTok-kynslóðinni sem var gert mikið grín af, og að lokum til litla stráksins okkar sem mun alast upp í þessum PC, RIE og vegan-heimi sem mín eigin kynslóð er búin að skapa. Það er svo fyndið að sjá hvernig mismunandi kynslóðir takast á við breytta tíma og samfélag sem er sífellt að breytast. Það er alls ekki hægt að vera fullkomin í þessum heimi og því mikill léttir að viðra alla þessa hluti og gera smá gys að sjálfum sér.

Björk, Selma og Salka eiga svo sannarlega hrós skilið en þær voru svo kraftmiklar að þær fylltu upp hvern krók og kima sviðsins með orku sinni. Þær eru óhræddar við að gera grín af sjálfum sér en þeirra eigin líf blandast inn í sýninguna og er hún því mjög persónuleg í rauninni. Ég var hrifin af leikmyndinni sem var eldrauð og í beinni andstæðu við búninga kvennanna sem voru svarthvítir. Tónlistin var frábær og glæddi sýninguna miklu lífi.

Drífið ykkur í leikhús!

Ég get ekki hrósað þessari sýningu nóg, hún var nákvæmlega það sem ég þurfti þetta fimmtudagskvöld, algjört frí frá áhyggjum og umheiminum, og fékk mig til að hlæja að nákvæmlega þessum áhyggjum og heimi sem ég bý í. Allir í salnum virtust njóta í botn og mátti sjá breitt bros á hverju einasta andliti sem gekk út í milt kvöldið í Hafnarfjarðarbæ.

Þetta er svona sýning sem maður gengur út af og segir við alla daginn eftir: „Þú VERÐUR að sjá hana! Bara VERÐUR!“ Ég í raun byrjaði að hlæja á fyrstu mínútu sýningarinnar og hætti ekki fyrr en að henni var lokið. Eða reyndar endursögðum við meira að segja nokkra brandarana í bílnum á leiðinni heim og hlóum eins og hross.

Það er bara eins gott, kæri lesandi, að þú fáir þér miða á þessa stórskemmtilegu sýningu. Þú bara VERÐUR!

[hr gap=”50″]

Höfundar: Selma Björnsdóttir, Salka Sól Eyfeld og Björk Jakobsdóttir.

Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir

Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir

Lýsing: Freyr Vilhjálmsson

Tónlist: Karl Olgeirs, Selma Björns, Salka Sól og Björk Jakobs.

Lestu þetta næst