Í leit að fegurri heimi

Hver einasta bók Sally Rooney hefur slegið í gegn en þessi ungi rithöfundur er einungis þrítugur. Þriðja skáldsaga hennar, Beautiful World, Where Are You, kom út í byrjun september. Á tímabili var ekki víst að hún myndi skrifa aðra bók en heimsfrægðin sem hún hlaut fyrir fyrri bækur hennar, Conversations with Friends og Normal People, fór ekki svo vel í hana. Hér er þó komin skáldsaga sem er ekki svo ólík þeim fyrri, hún fjallar um fjóra unga einstaklinga sem eru öll svolítið týnd og óhamingjusöm. Vinkonurnar Eileen og Alice, sem eru að nálgast þrítugt, eru í forgrunni en ástarviðföng þeirra Simon og Felix fá einnig sína kafla.

Óhamingjusamt ungt fólk

Bókin er merkileg blanda af rómantík og pólitík þar sem samfélagsádeilan drýpur af hverri síðu. Sagan er sögð frá frekar hlutlausu þriðju persónu sjónarhorni sem flakkar milli þessara fjögurra aðalpersóna. Lesandinn kynnist best Eileen og Alice sem hafa verið vinkonur síðan í háskóla. Alice er frægur rithöfundur sem hefur óbeit á öllu sem því fylgir en Eileen vinnur fyrir lúsalaun hjá bókmenntatímariti. Alice er furðuleg en Eileen falleg og klár. Þær eru báðar vinafáar og segjast báðar hornreka í félagslegum ástæðum. Þær eru því nauðalíkar andstæður ef svo má segja. Við kynnumst einnig ástarviðföngum þeirra, Simon og Felix. Simon er fimm árum eldri og vinnur fyrir stjórnmálaflokk, einnig á lúsalaunum, en hann er gífurlega myndarlegur og ástfanginn upp fyrir haus af Eileen (þó að hún átti sig ekki á því). Felix er af lágstétt, vinnur heiðarlega verkamannavinnu, drekkur og lifir frekar stefnulausu lífi þar til hann kynnist Alice á Tinder-deiti.

Samfélagsádeila í pósthólfinu

Inn á milli koma kaflar sem eru langir tölvupóstar sem Eileen og Alice skrifa á milli sín. Þar varpa þær fram allskyns hugleiðingum um samfélagsmál, kapítalisma, marxisma, trú og fegurðina sjálfa. Tölvupóstarnir eru í raun þar sem sjá má beittustu samfélagsádeiluna, jörðin er að farast vegna loftlagsbreytinga, kapítalisminn pakkar öllu inn í plast og það er tilgangslaust að fæða börn einungis til að upplifa heimsenda. Mikla ádeilu á rithöfundastarfið og evrópsku skáldsöguna má finna í póstunum frá Alice en henni finnst hún vera hræsnari, og allir í kringum hana. Þessir frægu og ríku rithöfundar sem skrifa um venjulegt fólk (líklega ekki tilviljun að önnur bókin hennar heitir Normal People) og vita í raun ekkert um þeirra líf þar sem þeir hafa lifað hástéttarlífi árum saman. Í raun eru stéttarpælingar í frekar miklum forgrunni í bókinni þar sem lesandinn sér hvernig valdaójafnvægið á milli persónanna á rætur að rekja til að þau koma af mismunandi stétt.

Sally Rooney skrifar ljóslifandi samtöl sem vekja ávallt áhuga minn. Tilfinningar og hugsanir persónanna liggja aldrei á yfirborðinu og því verður að stúdera litlu núansana í hegðun þeirra og það sem liggur á bak við orðin. Samtölin eru sem sagt full af undirtexta sem er spennandi að rýna í og eru þau listilega vel skrifuð.

Fyrsta-heims-samviskubitið

Skáldsögur Sally Rooney fara misvel í lesendur þar sem sumir dýrka þær en aðrir þola þær ekki. Enda skrifar Sally um breyskar og frekar óviðkunnanlegar persónur sem gera sífellt mistök og eru virkilega óhamingjusamar. Í Beautiful World, Where Are You færir hún sig ekki langt frá fyrri bókum en hér má kannski sjá aðeins meiri bjartsýni í lok bókar, kannski er heimurinn nokkuð fallegur þó að margir séu búnir að sannfæra sig um að hann taki brátt enda. Sjálf hafði ég mjög gaman af bókinni og mæli með henni, hún er áhugaverð stúdía á ungu fólki í dag sem lifa með fyrsta-heims-samviskubiti, loftlagskvíða og meira þunglyndi en nokkurntímann áður.

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...