Vendipunktar í lífi

Vendipunktar er smásagnasafn eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson sem er þekktur fyrir bæði ljóð, texta og barnabækur. Í þessari bók leynast sjö sögur en ef draga má merkingu frá nafni bókarinnar verða í öllum sögunum einhverskonar hvörf eða þáttaskil í lífi persónanna.

Forvitni vakin

Sögurnar eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar en eiga það sameiginlegt að hafa yfir sér þægilegan blæ, einfaldleika í tungumáli og staðfestu. Bókin hefst á sögunni „Hótel Ríó“ þar sem maður sem hefur ferðast til New York veltir fyrir sér tignarlegri konu sem sést reglulega hverfa inn í næsta hótelherbergi við hann. Sagan hefur dularfullt andrúmsloft og það er stæk ammoníakslykt sem einkennir þetta tiltekna herbergi. Í því liggur óþekktur meistari sem virðist vera á síðustu metrunum. Aðalsteinn er góður í að vekja upp ákveðna stemningu í sögunum sínum. Það er eitthvað sem vekur athygli eða forvitni persóna hans sem una sér ekki þangað til fundin er lausn.

Mótorhjól á miðju eldhúsgólfi

Sagan „Eldhúshjólið“ situr sterkast eftir í minninu eftir lestur safnsins. Par fer í rómantíska ferð á gríska eyju og ákveður að ferðast um eyjuna á bílaleigubíl til að flýja íslendingahópinn sem tók yfir hótelið. Þau enda í sveitagistingu seint um kvöld þar sem þau sjá mótorhjól inni í eldhúsi hússins. Það endar ekki betur en svo að maðurinn missir ástkonuna á bak mótorhjólsins daginn eftir í smá prufuhring, knúsandi grískan glaumgosa. Það má segja að maðurinn gangi svolítið af göflunum, sé kokkálaður vegna þessa. Bæði athyglisvert og skondið er að fylgjast með innri baráttu mannsins sem reynir allt til að halda aftur að tilfinningunum sem eru að sjóða upp úr.

Í Vendipunktum flýgur Aðalsteinn með lesandann í huganum um heiminn þar sem sögurnar gerast á mjög svo fjölbreyttum stöðum og henda margbreytilegar persónur. Safnið er heldur stutt, og sögurnar líka, en styrkleiki þess liggur í andrúmslofti og innri baráttu persónanna.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...