Fyrir aðventu hef ég ávallt þau fögru fyrirheit að lesa sem mest af nýútkomnum bókum, sökkva mér í allskyns fantasíur, reifara og aðra skáldsagnarheima. Stundum næ ég að lesa bók á kvöldi, stundum taka bækur lengri tíma. Þessi aðventa fór hinsvegar algjörlega fyrir ofan garð og neðan hvað varðar bókalestur. Því koma dagarnir milli jóla og nýárs sterkir inn og þá daga skyldi enginn vanmeta.

Ein af þeim bókum sem vakti áhuga minn í bókaflóði barnanna var myndasaga Ara H.G. Yates Þegar Stúfur bjargaði jólunum. Bókin er kynnt sem svokölluð „hybrid“ bók. Hefði ég viljað fá íslenskara orð yfir þetta hugtak en bókin á sumsé að henta öllum aldurshópum og er skrifuð með þeim tilgangi.

Stúfur segir starfinu lausu

Stúfur er argur jólasveinn. Hann upplifir sig tilgangslausan og telur nafn sitt bera þess merki að hann sé ónothæfur sem jólasveinn. Bræður hans hafa jú nöfn sem vísa til þeirra hlutverka, Bjúgnakrækir eltist við bjúgun, Skyrgámur við skyrið og svo frameftir götunum. En Stúfur telur sitt hlutverk eingöngu það að vera lítill og taka við háðsglóðsum frá bræðrum sínum þess vegna, þar að auki finnst honum þessi hefð, að gefa í skóinn, frekar asnaleg svo hann strunsar að heiman og segir starfi sínu sem jólasveinn lausu. Í vonsku sinni rekst hann á hinn ameríska kóka kóla jólasvein, þennan rauðklædda sem flýgur um himininn, fer niður um strompinn aðfaranótt jóladags og laumar pökkum undir trén. En sá sveinn er í tómu tjóni, sleðinn brotinn, Rúdólf fótbrotinn og sleðataumurinn slitinn. Svo Stúfur fer af stað til hjálpar hinum rauðklædda sveini og til að bjarga jólunum.

Þessi skörun á þessum tveimur jólasveinum og þeirra tilveru er skemmtileg. Ég man ekki eftir að hafa lesið um fundi íslensku jólasveinanna og þess ameríska.  Söguþráðurinn er grípandi og myndmálið er með því betra sem ég hef séð í bókum þar sem blandað er saman teiknimyndaforminu og svo þessu klassíska myndmáli.  Boðskapur bókarinnar kemst vel til skila og þrátt fyrir óheflað orðalag íslensku bræðranna eru þeir mjúkir að innan og óhræddir við að sýna tilfinningar þegar á reynir. Samanburður á íslenskri og erlendri tiltrú er skemmtilega uppsett og myndræn, rauðklæddur sveinn sem er góðhjartaður og svolítið afalegur í sér en íslensku lopapeysu sveinarnir óheflaðir og hrekkjóttir. Íslenskir álfar eru samkvæmt okkar trú hættulegar verur sem ber að varast en útlenskir álfar oftast sagðir vinna á dótaverkstæði jólasveinsins við að smíða leikföng í jólapakka.

Vandamál bókarinnar er hinsvegar óljós markhópur. Hún er stundum skrifuð á fullmiklu unglingamáli en samt barnaleg á öðrum stað. Boðskapur, inntak og útlit höfðar meira til barna en unglinga. Því myndi ég segja að þessi bók væri tilvalin fyrir þá krakka sem eru komin með annan fótinn á unglingastigið, 10 til 12 ára, mögulega aðeins yngri. Myndirnar eru snilldarlega vel gerðar og bera söguna algjörlega uppi. Stúfur bjargar jólunum er ágætis myndasögubók en verður sennilega ekki talin með sem jólaklassík.

Lestu þetta næst