Heimurinn er ansi skrýtinn þessa dagana og geðheilsa margra hefur hlotið hnekki. Það er ekki auðvelt að halda uppi dampi í stöðugum breytingum, sóttkvíum og einangrunum. Heimurinn er ófyrirsjáanlegur og óþægilegur og nokkuð víst að börnin finna mikið fyrir þessu ótrygga ástandi. Það er alltaf jákvætt að hlúa að geðheilsunni, ekki síst þegar allt er skakkt og undarlegt.

Fyrir jólin gaf Króníka út tvær bækur sem einmitt snúa að geðheilsu barna. Súper Vitrænn og Súper Viðstödd, eftir Paola Cardenas og Soffíu Elínu Sigurðardóttur með myndlýsingum eftir Victoriu Buzukina, fjalla um muninn á neikvæðum og jákvæðum hugsunum og núvitund.

Hugsanavillurnar

Í Súper Vitrænum eru hinir ólíku tvíburar Tristan og Saga aðalsögupersónurnar. Tristan leiðist frekar út í neikvæðar hugsanir og lætur tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur. Saga hugsar jákvætt og líður fyrir vikið betur. Skilaboð sögunnar eru sett fram á mjög einfaldan og aðgengilegan hátt og börn niður í leikskólaaldur ættu að geta náð boðskapnum. Tilgangurinn með bókinni er að skapa inngang fyrir unga lesendur að hugrænni atferlismeðferð; sem sagt að vera meðvituð um hugsanir okkar, stöðva hugsanavillur, koma í veg fyrir neikvæða rörsýn og sleppa hrakspám. Allt eru þetta kostir og æfingar sem fullorðnir jafnt sem börn hafa gott af að æfa sig í.

Í Súper Viðstödd kynnist lesandinn Klöru, sem á óskaplega erfitt með að einbeita sér. Hún truflar bekkjarfélaga sína í skólanum, á erfitt með að læra heima og verður stundum mjög reið og leið því verkefnin virðast henni ofviða. Í gegnum söguna þarf Klara að kljást við niðurrifshuganir, verkefnaforðun og neikvæðar hugsanir. Til allrar hamingju kemur Súper Vitræn til aðstoðar og kennir Klöru slökunaröndun, litaæfingu, tilfinningaæfingu og jógaæfingar. Æfingarnar eru fyrstu skrefin í átt að núvitund, að ná stjórn á hugsunum sínum og tilfinningum með því að kjarna sig á staðnum í núinu.

Djúpar samræður eftir lestur

Myndir Victoriu eru lýsandi, sem er nauðsynlegt í bók sem þessari. Það þarf að vera greinilegt hvaða áhrif tilfinningarnar hafa á sögupersónurnar. Börn þurfa að geta lesið úr andliti þeirra hvernig þeim líður og efni bókarinnar kemst mjög vel til skila í gegnum myndirnar.

Eins og áður sagði eru bækurnar mjög aðgengilegar. Ekki er farið djúpt í æfingarnar en þær skapa frábæran grundvöll fyrir foreldra og forræðamenn að ræða dýpra um tilfinningar og hugsanir. Í ástandi eins og er í dag er það bráðnauðsynlegt, en þar fyrir utan þá er öllum hollt að kynnast sjálfum sér, hugsunum sínum og tilfinningum betur. Sjálf las ég bækurnar með mínum börnum og í kjölfarið áttum við langar samræður um alls kyns hluti og margt kom upp á yfirborðið.

Bækurnar hafa tilgang og sem slíkar eru þær fróðlegar og góðar. Þær koma sínum skilaboðum til skila. Börnunum sem ég las bækurnar með fannst þær ekki mjög skemmtilegar, en bækur sem þessar eiga ekki endilega að vera skemmtilegar. Þær eiga að vekja upp nýjar hugsanir, hvetja til sjálfskoðunar og endurmats og þessar bækur fylltu þau skilyrði. Börnin voru ánægð með samræðurnar sem áttu sér stað eftir lesturinn.

Lestu þetta næst