Sumarfríið er langt og bestu vinirnir Hávarður og Maríus hafa ekkert að gera. Þeir eru búnir að gera bókstaflega allt! Svo þora þeir ekki að kanna rörið bak við hús Maríusar, enda leynast þar án efa hræðileg skrímsli. Og núna hafa þeir lítið annað að gera en að væflast um og vesenast. Það er, þangað til þeir hitta níu ára stelpur sem eru með tombólu. Það verða Maríus og Hávarður að sjálfsögðu að prófa! Á tombóluna kemur hinn pólski Bartek, sem talar enga íslensku.

Strákarnir ná að gera sig skiljanlega með handapati og teikningum. Það kemur í ljós að Bartek ætlar að fara að kanna rörið og komast að raun um hvort þar séu skrímsli. Bartek er vopnaður vasaljósi og myndavél. Hefst þá æsispennandi og svakaleg atburðarás!

Tungumál og teikningar

Hilmar Örn Óskarsson er höfundur bókarinnar Holupotvoríur alls staðar og Blær Guðmundsdóttir er myndhöfundur hennar. Saman hafa þau skapað bráðfyndna en jafnframt mjög spennandi barnabók sem ætti að ná vel til krakka sem hafa náð nokkuð góðum tökum á lestri. Sérstaða þessarar léttlestrarbókar er án efa sú að í henni talar Bartek eingöngu pólsku. Aftast í bókinni er hægt að lesa sér til um þýðingu pólsku setninganna. Þegar strákarnir spjalla saman með handapati og táknmáli, þá týnist þýðingin á milli tungumála. Þetta leiðir til bráðfyndinna samskipta fram og til baka. En það gengur allt betur þegar þeir fatta að tjá sig frekar með teikningum. Teikningar eru nefnilega tungumál sem allir tala.

Blær Guðmundsdóttir nær á frábæran hátt að fanga galsaganginn í átta ára ormum. Þeir eru óreiðukenndir, alltaf á hreyfingu og smá skítugir. Allt eins og það á að vera. Blær er líka mjög flink að koma bráðfyndnum smáatriðum fyrir á myndunum, sem er alltaf jafn gaman að finna og hlæja að.

Hlegið hátt og mikið

Það er gaman að sjá pólsk börn í auknum mæli sem persónur í barnabókum. Barnabækur endurspegla þannig ekki bara raunveruleika barna af íslenskum uppruna, heldur líka þeirra pólsku. Þessi þróun, í átt að fjölbreyttara persónugalleríi, hefur reyndar verið áberandi síðustu ár. Skemmst er að nefna bækur Ævars Þórs Benediktssonar þar sem persónur af mismunandi uppruna fá að njóta sín (eða verða fyrir einhverju hræðilegu…). Í bók Gunnars Helgasonar, Bannað að eyðileggjafær fjölmenningarsamfélagið einnig að njóta sín til fulls.

En aftur að Holupotvoríunum. Níu ára lesandi fékk heimsókn frá höfundum bókarinnar á vegum SÍUNG, skáld í skólum. Í kjölfarið las hann bókina þeirra og þótti mikið til koma. Hann hló töluvert mikið upphátt yfir bókinni, enda eru aðalpersónurnar ansi uppátækjasamir átta ára gaurar sem auðvelt er að samsvara sig við. Sjálf las ég bókina fyrir stuttu. Þegar ég stóð sjálfa mig að því að hlæja upphátt var ég sannfærð um að bókin ætti erindi til allra.

Holupotvoríur alls staðar er hluti af Ljósaseríu Bókabeitunnar. Þar geta börn skráð sig í áskrift og fengið fjórar léttlestrarbækur á ári inn um lúguna. Fátt er eins lestrarhvetjandi. Einnig eru bækur úr Ljósaseríunni tilvaldar tækifærisgjafir, lestrarhvetjandi tækifærisgjafir. Bækurnar henta börnum á yngsta stigi grunnskóla.

Lestu þetta næst

Blæðir þér?

Blæðir þér?

Í kvöld heiti ég Sara. Pabbi minn, sem kom með mér í leikhús, heitir líka Sara. Sama gildir um...

Er hægt að vera svona?

Er hægt að vera svona?

Nú í mars mánuði kom út hjá bókaútgáfunni Björt bókin Verity eftir Colleen Hoover í íslenskri...

Harry var einn í heiminum

Harry var einn í heiminum

Í janúar kom út ein stærsta ævisaga síðari tíma. Bókin seldist í bílförmum út um allan heim því...