Fantasía og raunveruleiki í skáldsögum um hinsegin rithöfunda

Nýlega las ég tvær skáldsögur sem taka sér svipað umfjöllunarefni: Líf raunverulegra, sögulegra hinsegin rithöfunda. Rithöfundarnir voru meira að segja uppi á svipuðum tíma, en lifðu og störfuðu hvor í sínu horni hins vestræna heims: Hinn norður-þýski Thomas Mann (1875–1955) annarsvegar og hinn gríski Konstantínos Kavafís (1863–1933) hinsvegar (meira um þjóðerni hans síðar). Sá fyrrnefndi er einn þekktasti rithöfundur Þýskalands á 20. öld (sem ég hef skrifað um tvisvar áður – „ætlar þessi maður aldrei að halda kjafti um Thomas Mann?“, heyri ég ykkur spyrja), en sá síðarnefndi er álitinn án vafa fremsta gríska skáld síns tíma og jafnvel það fremsta sem skrifað hefur á nútímagrísku.

Þessir rithöfundar voru að mörgu leyti líkir, að mörgu leyti ólíkir. Helsta stílvopn þeirra beggja var íronía og fágun. Verk þeirra gáfu af sér skarpa vitsmunalega áru sem lætur lesandanum líða eins og að nú tali vera frá æðra tilverustigi. Þeir voru báðir hinsegin og leyndu því alls ekki í sínum skáldskap, þvert á móti var því teflt þar fram og raunar kynnt sem ekki aðeins kynferðisleg afstaða heldur listræn líka. En Mann var einn virtasti rithöfundur sinnar þjóðar, hann fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum og seldi milljónir eintaka; hann ferðaðist víða, var heimsmaður, táknmynd þýskrar menningar í lifandi lífi. Þar var annað um Kavafís að segja.

Fyrir það fyrsta er það meira en að segja það að fullyrða hverrar þjóðar hann var. Kavafís átti grísku að móðurmáli, hét grísku nafni, talaði grísku og skrifaði á grísku. En hann fæddist og eyddi ævinni í meira en tvö þúsund ára gömlu samfélagi Grikkja í Alexandríu í Egyptalandi. Þegar Kavafís fæddist tilheyrði Egyptaland formlega Ottómanaveldinu, og hefur það væntanlega verið ríkisfang hans. Sem barn og ungur maður hraktist Kavafís ásamt fjölskyldu sinni undan stríðsátökum og gjaldþroti fjölskyldufyrirtækisins til bæði Konstantínópel og Liverpool áður en hann sneri baka til Alexandríu og bjó þar öll sín ár eftir það, og vann sem skrifstofublók í vatnsveituráðuneyti landsins. Hann gaf ekki út eina einustu bók á meðan hann lifði. Grikkland heimsótti Kavafís ekki fyrr en á efri árum og þá stuttlega. Mann var þannig maður með auðskiljanlegar rætur — þýskari en allt þýskt — en Kavafís spratt upp úr miklu flóknara umhverfi, og hafði það mikil áhrif á skáldskap hans sem vakti fyrst raunverulega athygli eftir að hann lést árið 1933 — en þá hafði Mann verið heimsfrægur í þrjá áratugi.

Kavafís.

Kavafís birti ljóð sín stundum í lítt lesnum ljóðatímaritum í Alexandríu og Aþenu, en mest dreifði hann þeim að því er virðist í handritum eða vélrituðum síðum og þá til vina og vandamanna. Þar hafði hann áhugaverðan dreifingarmáta á: Hann var alltaf að vinna í því að búa til fullkomið heildarsafn ljóða sinna, og vinsaði út úr möppum vinanna þau ljóð sem honum þóttu ófullkomin, lét annaðhvort nýjar útgáfur í staðinn eða hreinlega krafðist þess að þeim yrði hent sem ómögulegum. Þannig var til við dauða Kavafís hárnákvæmt ritstýrt safn ljóða hans – sem hafði þó aldrei komið neinstaðar formlega út. Þetta er hið svokallaða kanón Kavafís sem auðvelt er að safna saman í eina veglega ljóðabók – og sú ljóðabók er að mati þess sem hér skrifar einhver sú besta sem fyrirfinnst. Eins og enski rithöfundurinn E. M. Forster lýsti honum, þá er eins og Kavafís „standi grafkyrr örlítið á ská við alheiminn“ og noti það sjónarhorn til að færa lesendum sínum nýja, íroníska og erótíska sýn á söguna, samskipti manna og þráina, sérstaklega hinsegin þrá karla til karla.

Skáldsagan Það sem eftir lifir nætur (gr. Tí mení apo tí níkhta / e. What‘s Left of the Night) eftir gríska rithöfundinn Ersí Sotíropúlos fjallar um hvernig Kavafís öðlaðist þetta sjónarhorn á ská við alheiminn. Bókin gerist yfir þrjá daga sem Kavafís eyddi í París árið 1897 ásamt bróður sínum. Þá var Kavafís enn lítið skáld, og ljóðin sem hann hafði þá samið entust fæst inni í möppum vinanna. Í bókinni veit Kavafís vel af þessu og óskar þess að heimsóknin til Parísar muni færa sér einhvern skáldlegan innblástur í anda frönsku skáldanna sem hann dáðist að. En það sem hann finnur í París eru aðallega vonbrigði sem skila Kavafís engu að síður einhverju undir lok bókar: Hann er kominn með grunninn að einu af meistaraverkum sínum, ljóðinu „Borginni“ (gr. Í polís) sem hann lagði lokahönd á árið 1910. Hér er ljóðið í þýðingu Atla Harðarsonar:

 

Þú sagðir: „Ég ætla í annað land, ætla að öðru hafi.

Ætla að finnist þá önnur borg og betri en þessi.

Áfellisdóm hafa örlög skráð um allt sem ég reyni að gera;

Hjarta mitt – orðið sem lík – dautt og grafið:

Æ, hugur mín sjálfs, hve lengi skal enn una þeim döpru kjörum.

Hvert sem ég skima, hvert sem ég augunum renni

sé ég hér sömu, svartleitu rústir míns lífs.

Hversu mörg ár hef ég eyðilagt, spillt þeim og glatað.“

 

Þú finnur ekki nýja staði, þú finnur ekki önnur höf.

Borgin eltir þig. Þú gengur um sömu

götur og verður gamall í sömu hverfum;

Í þessum sömu húsunum verður þú grár af elli.

Þú kemur alltaf í þessa sömu borg. Gerðu þér engar vonir um annað –

það er ekkert skip handa þér, það er enginn vegur.

Eins og þú hefur eyðilagt líf þitt hér

í þessum litla útnára, hefur þú spillt því og glatað um alla jörð.

 

Kavafís sleppur ekki undan uppruna sínum, undan Alexandríu, undan sínum eigin þrám: Allt þetta eltir hann til Parísar, rétt eins og það myndi elta hann til endimarka heimsins. En það sem Kavafís þó finnur í París er máttur fantasíunnar sem getur lyft manni yfir sínar eigin takmarkanir, fært menn út úr sjálfum sér. Í mörgum af áhrifaríkustu senum bókarinnar er Kavafís heltekinn af rússneskum dansara sem deilir með honum hóteli. Hann nálgast dansarann en snertir hann aldrei, talar aldrei við hann, en finnur gríðarlega erótíska nautn í því að *næstum* snerta hann eða tala við hann, og lætur hugann sjá um afganginn. Þetta er bæði fyndið — hann þarf stöðugt að afsaka sig við bróður sinn og skreppa upp á hótelherbergi til að fróa sér — og magnað, því þetta sýnir svo vel hvernig lífsreynslur sem eru næstum ekkert í raun geta stækkað og skapað meistaraverk í gegnum skáldskapinn, meistaraverk sem allir lesendur tengja við og finnst lýsa sannleika, þótt innblásturinn hafi verið agnarsmár. Kavafís er skáld þess sem næstum því gerðist, hefði getað gerst, leit út fyrir að gæti gerst, en ekkert varð úr nema ljóðið, og það er það sem einkennir Parísardvöl hans í frásögn Sotíropúlos. Það er vert að mæla með þessari bók — ákveðin sena í lok bókar sem involverar þvagblauta bagettu á almenningsklósetti er ein og sér kaupanna virði!

Skáldsagan um Mann er hinsvegar eftir írska rithöfundinn Colm Tóibín og heitir Töframaðurinn (e. The Magician), sem var nafnið sem börn Thomasar Mann gáfu honum eins og ég skrifaði um hér. Bókin er ævisaga í skáldsöguformi, þar sem fjallað er um ævi Manns frá barnæsku til dauða byggt á sannsögulegum atburðum, en með skáldskap í eyðurnar og notkunar skáldsagnalegra frásagnaraðferða. Bókin hefur fengið verðlaun og mikla athygli, en ég heillaðist raunar minna af henni en Það sem eftir lifir nætur. Ég hafði lesið frábærar greinar Tóibín um ævi Manns í London Review of Books áður og fannst eiginlega að skáldsagan bætti litlu við þær. Það sem skáldsagnaformið gerir er augljóslega að leyfa manni að setja orð í munn persónanna, orð sem engin heimild skráir en skýrir og passar við ævina sem um er fjallað. En Tóibín kaus að beita í þessari bók ákveðnu látleysisstílbragði í samræðum persóna sem mér fannst passa mjög illa við rithöfundinn Thomas Mann, meistara hinnar löngu, þýsku setningar og hins ósagða en augljóslega að ýjaða. Mér tókst aldrei að samþykkja aðalsöguhetju bókarinnar sem rithöfundinn Thomas Mann.

Engu að síður er bókin áhugaverð enda er ævin sem um er fjallað fáránlega áhugaverð. Sérstaklega vekja athygli þær senur í bókinni þar sem Mann kemst í snertingu við sínar eigin hinsegin þrár, en þau (fremur fáu) skipti enduðu oftast einhversstaðar í skáldskap Manns í einhverju formi. Rétt eins og Kavafís leit Mann á erótík sem eitthvað sem gerðist ekki eða gerðist næstum því; erótíkin er það sem fyllir upp í tómið milli löngunar og gjörðar. Þannig sóttist Mann hreinlega í það að ekkert, eða nær ekkert, gerðist milli sín og þeirra manna (eða drengja) sem hann hreifst af: það var þar sem hann fann hina listrænu spennu sem hann svo nýtti í skrifum sínum. En ólíkt Kavafís birtust þessar senur ljóslifandi í skáldskap Manns, ekki bara tilfinningin sem spratt úr eigin óuppfyllingu heldur allar ytri aðstæður líka. Mann nýtti sér eigið líf og líf sinna nánustu á allt að því grimmdarlegan hátt í verkum sínum, og aftur og aftur þegar maður les Töframanninn þá kannast maður við aðstæðurnar úr skáldskap Manns. Mann gerir þannig sjálfan sig stöðugt að skáldsagnapersónu, og kann það að skýra hversu ónáttúrulega mér þykir Tóibín gera það sama: Mann skrifaði persónuna Mann betur en Tóibín. Engu að síður má vel mæla með bókinni, hún fjallar um stórmerkilega ævi og látlausi stíllinn á sér vissulega sína kosti — hún er miklu auðlæsari allavega heldur en bækur Manns sjálfs, og erfitt er að ímynda sér annað en að hún veki áhuga þeirra sem lesa hana á skáldskap hans.

Lestu þetta næst

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...