Að telja upp í milljón eftir Önnu Hafþórsdóttur var önnur tveggja bóka sem unnu keppnina Nýjar raddir á síðasta ári en keppninni, sem Forlagið stendur fyrir, er ætlað að kynna nýja rithöfunda á sjónarsviðið með smásagnasöfnum eða stuttum skáldsögum. Anna hefur áður sent frá sér smásögur og ljóð, en er einnig leikkona og hefur leikið í kvikmyndum á borð við Webcam og Snjór og Salóme.

Bókin kom út síðasta vor og hlaut góðar viðtökur en hefur haldið áfram að vekja umtal og ákvað ég að lesa hana eftir að hafa heyrt góða hluti frá vinkonum.

Mér þótti athyglisvert að bókin nær bæði til lestrarhesta og þeirra sem lesa sjaldnar sér til gamans.

Mamman sem taldi upp í milljón

Þessi stutta skáldsaga segir frá Rakel, ungri konu sem stendur á tímamótum. Í upphafi sögu ákveður kærastinn hennar að yfirgefa hana og lesandinn veit ekki hvers vegna. Í gegnum þessi sambandsslit fer hún að rifja upp æsku sína við erfiðar aðstæður og að púsla saman hvernig hún endaði á þessum stað. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Rakel upplifir það að vera yfirgefin. Titillinn vísar til þess að þegar faðir hennar yfirgaf móður hennar skýringarlaust (að minnsta kosti fyrir Rakel) og móðir hennar brást við með því að byrja að telja upp í milljón.

Raunsær texti

Bókin er stutt og er auðvelt að lesa hana í einum rykk, en það er ekki þar með sagt að innihaldið sé léttvægt. Hún er alveg ótrúlega vel skrifuð, raunsæið skín í gegn og sem lesandi á þrítugsaldri tengdi ég mikið við allar tilvísanir í dægurmenningu úr æsku Rakelar. Anna fer létt með að segja þessa átakanlegu sögu og sum minningarbrot Rakelar, til að mynda fermingin, rista ákaflega djúpt. Textinn er kraftmikill í gegnum bókina, mér fannst tónninn þó aðeins breytast í lok hennar, sem mér þótti ekki þörf á.

Hér er kominn á sjónarsviðið mjög spennandi nýr höfundur og erum ég og allar vinkonur mínar sem hafa lesið bókina afar spenntar að lesa það sem hún tekur sér fyrir hendur næst.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...