Bókasafnið milli lífs og dauða

Plottið í hinni geysivinsælu bók Miðnæturbóksafnið eftir Matt Haig er: Hvað myndirðu gera ef þú fengið annað tækifæri? Flest okkar gætu svarað þessari spurningu auðveldlega. Það er svo auðvelt að nefna einhverja eftirsjá, einhverja ákvörðun sem var tekin og eftir á að hugsa var hún kannski röng. Hefði kannski verið betra að breyta svona? Hefði á kannski átt að taka þessa vinnu? Hefði ég átt að þrauka? Af hverju fór ég ekki í nám þá? Og svo liggur maður löng kvöld í rúminu og veltir sér upp úr þessu, marinerast í eftirsjá. Svo, já. Matt Haig veit hvað hann er að gera. Hann vekur upp með okkur von um að við höfum val seinna, að síðar sé hægt að breyta einhverju.

Á botninum

Nora Seed er óhamingjusöm og þunglynd og allt gengur á afturfótunum hjá henni. Röð ömurlegra atvika leiða hana niður á botninn og hún ákveður að taka eigin líf. En maðurinn með ljáinn mætir ekki á staðinn um leið, heldur endar hún á risastóru bóksafni þar sem skólabókasafnsfræðingurinn frú Elm sýnir henni hina þykku bók eftirsjáarinnar. Og býður henni svo að lifa lífinu án valinnar eftirsjár, að breyta öðruvísi.

Bókin er mjög auðlæs. Frú Elm er rödd skynseminnar og boðskaparins í bókinni. Á sama tíma er lærdómur Noru mjög auðveldlega matreiddur niður í lesandann. Hún hugsar mikið, uppgötvar og lærir. Nora er menntaður heimspekingur sem gerir það mun auðveldara fyrir Haig að koma skilaboðum sínum til skila. Nora er nefnilega mjög djúpt þenkjandi persóna.

Hvert val leiðir á nýja braut

Í gegnum bókina fylgist lesandinn með Noru prófa mismunandi líf, laus við hina og þessa eftirsjána. Hún prófar að vera rokkstjarna, vísindamaður, móðir og Ólympíumeistari svo fátt eitt sé nefnt. Í raun er nokkuð fyrirsjáanlegt hvaða leiðir Nora mun velja, enda setur Haig það mjög skýrt upp í byrjun bókarinnar. Bókin er mjög örugg lesning en að sama skapi um erfitt efni. En efni hennar er haganlega pakkað saman í auðveldar pillur sem maður gleypir áreynslulaust.

Boðskapur bókarinnar er sá að lífið sem við lifum er það rétta. Það eina sem skiptir máli er hvernig við spilum úr þeim spilum sem við erum með á hendi hverju sinni. Hugarfar okkar skiptir máli og sýn okkar á heiminn í kringum okkur. Eftirsjá er tímasóun.

 

Lestu þetta næst

Smáar sögur, stór orð

Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á...

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....