Getnaður eftir Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur rann mjúklega inn um lúguna, eins og limur rennur inn í leggöng strax á fyrstu síðum hennar. Heitasta bók sumarsins var komin í hendur mér, nýjasti sigurvegari Nýrra radda, handritasamkeppni Forlagsins. Hún er uppfull af… hverju? Ég vissi ekki um hvað bókin var. Aftan á henni las ég mér til um að innihaldið tengdist fullorðinspressu, íbúðarkaupum, samböndum, djammi og, mér að miklum óvörum, getnaði. Spennandi. Ég byrjaði að lesa klukkan tíu og kláraði sama kvöld. Á mínu heimili er það gæðamerki að maður hakki bókina í sig frá upphafi til enda, sérstaklega þegar nýjasti fjölskyldumeðlimurinn hangir á brjósti lesanda og vælir. En nú erum við orðin aðeins of persónuleg, snúum okkur að alvöru málsins.

Hárfínn balans af djammi

Sagan er fjórskipt frásögn fjögurra persóna sem hver er sögumaður síns hluta. Sævar er ástfanginn ungur hjálparsveitarmaður sem elskar Friends, Gerður er ástfangin bankakona sem langar í barn og hefur engar áhyggjur af peningum, Nanna er áhyggjufull systir og Sigurður hefði haft gott af aðeins meiri ást og natni frá höfundi og yfirlesara til að verða jafn heilsteyptur og hinar persónurnar.

Frásögnin rennur undurvel og lesandi á auðvelt með að sjá hlutina út frá augum sögupersóna. Framvindan er í senn hröð og róleg, mikið gerist en þó aðallega innra með fólki, í augngotum og tækifærum sem verða kannski að engu eða of miklu. Djammið spilar minni hlut en ég hefði haldið, ég er ekki frá því að það hafi verið akkúrat fullkomlega hæfilegt magn af djammi, sem er hárfínn balans sem erfitt er að ná áður en fólk fer að slaga út í gamaldags drykkjusögur og ælulýsingar.

Orðfæri höfundar er stórskemmtilegt, meira að segja frekar hot á köflum, eins og höfundur myndi sennilega sjálfur segja, og allar kynlífslýsingar eru merkilega góðar, en það er með erfiðari lýsingum að ná vel án þess að enda í kjánaskap eða hljóma sem svo að höfundur hafi aðeins haft eina hendi á lyklaborðinu þegar þær voru skrifaðar.

Nístandi falleg

Það sem snerti mig einna mest eru lýsingar á innra hugarheimi sem passar ekki endilega við yfirborðið, það sem er ósagt og þær gjár sem ekki er hægt að brúa. Samtöl eru lifandi og skemmtileg, sagan verður aldrei langdregin eða leiðigjörn og persónurnar eru mjög fullmótaðar og ljóslifandi, ég hafði einstaklega gaman af móðurinni, af Garðabæ, af gömlum konum og mömmum fullorðinna afkvæma. Einnig þóttu mér lýsingarnar í hluta Nönnu nístandi fallegar og frumlegar og er nokkuð viss um að langflestir lesendur finna sér eitthvað við hæfi, eitthvað kunnuglegt, sorglegt og broslegt á síðum bókarinnar.

Ég mæli óhikað með þessari dásamlegu nýju rödd á bókamarkaðinum og er spennt að sjá hvað kemur næst frá höfundi. Ég vil einnig að lesendur taki sér tíma til að athuga hvort bókin fengi öðruvísi umfjöllun og dóma væri höfundur karlkyns.

Fyrst við hjá Lestrarklefanum erum hætt stjörnugjöf gef ég bókinni fimm limi af fimm, þrjá þeirra stinna og tvo þvala, enn þá inni í leggöngum. Gleðilegt sumar.

Lestu þetta næst

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...

Ógöngurnar í göngunum

Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði...