Finndu þína eitruðu yfirkonu!

Uppistandshópurinn Fyndnustu mínar spyr sig hvers vegna hann hefur ekki náð sömu velgengni og frægð og karluppistandshópar í sýningunni FemCon 2022, en undirskrifuð sat einmitt síðustu sýninguna. Þrátt fyrir að vera á hápunkti fegurðar sinnar virðast þær Salka, Hekla og Rebecca hafa náð toppi eigin frægðar og þurfa snarlega að rannsaka hvað vantar upp á til að þær fái þann sess sem þær eiga skilið.

Sprenghlægileg samfélagsádeila

Salka, Hekla og Rebecca stíga á svið í sýningu sem er sett fram sem rýnihópur um mörkun femínisma. Femínisminn hefur ekki gert nóg fyrir þær persónulega og virðist jafnvel ekki eins svalur og hann gæti verið. Með reynslu úr auglýsingabransanum og stjórnmálastarfi leggur þríeykið höfuð í bleyti og finnur lausn á þessu í eitt skipti fyrir öll. Nú vil ég ekki gefa of mikið upp um efni sýningarinnar en áhorfendur mega búast við að hlæja mjög mikið.

Hafandi unnið í auglýsingabransanum fannst mér ótrúlega fyndið og spot on hvernig er staðið að ímyndarsköpun og mörkun efnisins. Samfélagsádeila sýningarinnar er bæði sprenghlægileg og smá sorgleg því hún hittir naglann svo algerlega á höfuðið, en maður flissar gegn um tárin. Sýningin leggur sig fram við að fanga húmorinn í alvarlegum umfjöllunarefnum og tekst það listavel upp. Má einnig hrósa hópnum fyrir að kýla upp fyrir sig, eins og sagt er, og gera einnig grín að sjálfum sér þegar við á.

Bossbitch powersuit

Konurnar sem skipa hópinn eru hver annari fyndnari og með frábæra sviðsframkomu svo ég verð að vera sammála því að þær ættu að vera enn frægari en þær eru þegar. Nú er þetta fyrsta sýningin sem ég sé með þessum hóp en ég mun sennilega vera fremst í röðinni að kaupa miða á næstu sýningu sem þær standa fyrir. Verandi geggjað mikil tussa finnst mér fátt mjög fyndið í leikhúsum landsins en mér fannst þetta sprenghlægilegt. Ekki skemmir heldur fyrir að íronísk bossbitch powersuit í sterkum litum, rétt eins og þau sem uppistandararnir komu fram í, eru fashion goals.

Til að hafa hundrað prósent gegnsæi og heiðarleika að leiðarljósi skrifaði ég undir samning þess efnis að mæla með sýningunni við alla sem ég hitti, og held að ég þurfi ekkert að rjúfa það merka skjal. Endilega skellið ykkur í Borgarleikhúsið, hlægið og skemmtið ykkur í einn og hálfan tíma og munið að það er gengið inn um starfsmannainnganginn að aftan, ekki haldiði eins og einfeldningar að uppistandssýning með þrem konum fái að vera á alvöru sviði.

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...