Lalli og Maja leysa enn eitt málið

Það er hægt að treysta á að tvisvar á ári komi út ný bók í hinni geysivinsælu glæpasagnaseríu um Lalla og Maju eftir þau Martin Widmark og Helenu Willis. Fyrir tveimur árum skrifaði ég fyrstu umfjöllun mína um SkólaráðgátunaÞá hafði átta ára sonur minn dottið niður á seríuna og las hverja bókina á eftir annarri, móður hans til mikillar gleði. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að börnin detti niður á bækur sem þau vilja lesa og maður þakkar fyrir allt. Tveimur árum síðar sækir drengurinn enn í að lesa bækurnar um Lalla og Maju, þótt lesfimin sé komin langt fram úr leshæfniviðmiði bókanna. Höfundar bókanna hafa skrifað að minnsta kosti 27 bækur sem hafa komi út á frummálinu sænsku. Widmark er margverlaunaður barnabókahöfundur í Svíðþjóð og Willis hefur hlotið fjölda tilnefninga og verðlauna fyrir myndlýsingar sínar og þá sérstaklega fyrir myndirnar í bókunum um Lalla og Maju.

Hver eitrar fyrir dýrum?

Í nýjustu bókinni sem þýdd hefur verið á íslensku, Dýraráðgátunni, þurfa Lalli og Maja að kljást við mjög dularfullt mál. Dýrin í dýrabúðinni eru veik og það lítur út fyrir að einhver sé að eitra fyrir þeim. Þegar Lalli og Maja finna spor við bakdyr búðarinnar fíleflast þau í grun sínum um að illmenni sé á ferð.

Eins og áður sagði er sá tíu ára mjög hrifinn af seríunni og las þessa bók hratt og örugglega í gegn. Hann er farinn að kannast við allar persónurnar í bókunum, man hverjar hafa gerst sekar um glæpi eða yfirsjónir. Hann gaf bókinni ágætis einkunn en fannst hún ekki sú besta.

Bókin byrjar nokkuð bratt. Enginn inngangur er að bókinni, Lalli og Maja eru í búðinni og ákveða að láta gera lykil fyrir sig. Strax á fyrstu síðunni getur lesandinn farið að líta eftir vísbendingum sem leiða að lausn gátunnar, sem þarna á fyrstu síðu er ekki komin fram. Sjálfri fannst mér bókin ögn þvælingsleg, farið var fram og til baka í grunsemdum og pælingum. Lausnin var ögn langsótt en kom að sama skapi á óvart.

Dýraráðgátan er langt í frá besta bókin í seríunni um Lalla og Maju. Hún er þó líkleg til að teyma krakka áfram í lestrinum og halda þeim við efnið, ef þau á annað borð kunna vel við seríuna.

 

Lestu þetta næst

Drekar, dauði og erótík

Drekar, dauði og erótík

Hafi man eitthvað fylgst með bókaumræðum á samfélagsmiðlum á þessu ári þá er ansi líklegt að man...

Bækur inn um lúgu

Bækur inn um lúgu

Það er eitthvað fallegt við að fá póstsendingu inn um lúguna. Þá meina ég ekki auglýsingabæklinga...

Það er húmor í lauginni

Það er húmor í lauginni

Sund í Tjarnarbíó Klórlyktin gýs upp þegar maður gengur í salinn og ber augum glæsilega sundlaug...

Bumba er best

Bumba er best

Bekkurinn minn er sería barnabóka sem gerast í íslenskum veruleika eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur og...