Móðurhlutverkið

Móðuhlutverkið er erfitt, flókið, gefandi og skemmtilegt. Ég sækist í efni sem ég get speglað mig í, skoðað móðuhlutverkið frá öðrum hliðum, rýnt og pælt.

Díana Sjöfn Jóhannsdóttir gaf út ljóðabók sína Mamma þarf að sofa í lok maí. Áður hefur Díana gefið út nóvelluna ÓlyfjanEinnig hefur hún gefið út ljóðabókina FREYJA í seríu Meðgönguljóða. Díana Sjöfn er líka einn af pennum Lestrarklefans.

 

Sakleysi æskunnar

Ljóðabókin Mamma þarf að sofa er ljúfsár frásögn konu og móður. Bókin er þrískipt í kaflana „Móðureign“, „Móðurlát“ og „Móðurgerð“. Í fyrsta kafla kynnist lesandi ungri stúlku og tengslum hennar við móður hennar. Kaflinn lyktar af vöfflum með rjóma og nostalgíu. Móðurleg umhyggja og ást streyma yfir til lesandans og barnslegt sakleysi ljóðmælanda talar sterkt til mín og vekur verndartilfinningu. Kaflinn er innilegur og fallegur en lesandinn finnur að ógn vofir yfir. Eitthvað mun rjúfa sakleysi æskunnar.

Móðurlát

Í næsta kafla fellur himinninn og sorgin ríkir og ljóðmælandi varpar sprengjunni strax í byrjun kaflans.

þeir segja mér að lífhimnan umlyki kviðarhol

og öll líffæri 

meinmyndun í myrkrinu lá

horfurnar litlar

(Bls. 29)

 

Ljóðmælandi kallar eftir minningum um móður, sem ekki eru um síðustu andartökin heldur fremur um það sem skiptir máli. En áföll gleymast ekki og þau sækja á. Minningarnar eru margar ljúfsárar og aðrar hreinlega sársaukafullar og kalla fram tár á hvarmi. Inni í okkur flestum býr löngunin eftir að þóknast foreldrum okkar, að gera þau stolt. Ljóðmælandi óskar eftir því að móðirin fylgist með að ofan og spyr hvort hún sé stolt. Er það hún sem fylgist með, er hún hlýjan sem fylgir henni?

Ljóðin eru  afhjúpandi en mjúk og blíð og full af væntumþykju

Í þriðja og síðasta kafla bókarinnar skyggnist lesandinn inn í líf fullorðinnar konu, dóttur og móður sem reynir að fóta sig í nýju hlutverki. Hún er dóttir án móður, en orðin móðir sjálf.

 Ég er stundum hrædd mamma

stressuð og svo þreytt

ég held ég skilji þig betur núna

finnst ég aldrei gera nóg

en

þegar hún hlær

þá lyftist hjarta mitt í þyngdarlausa gleði

(Bls. 85)

Lesandinn finnur þreytu hinnar nýbökuðu móður, efann og óttann. Ljóðin eru afhjúpandi en mjúk og blíð og full af værð og væntumþykju. “Ég sakna þín nokkrum metrum frá mér / örlítill andardráttur fyllir í glufurnar (bls. 93). 

Ljóðabókin talaði sterkt til mín. Með blíðu sinni og angurværð í fyrsta hluta minnti hún mig á mína eigin móður. Í miðið blossaði sorgin upp og samkenndin syrgði með ljóðmælanda. Í lokin endurupplifði ég æsku minna eigin barna, erfiðleikana sem fylgja barnauppeldi en jafnframt gleðina og lísfyllinguna sem fylgir uppeldishlutverkinu.

Lestu þetta næst

Drekar, dauði og erótík

Drekar, dauði og erótík

Hafi man eitthvað fylgst með bókaumræðum á samfélagsmiðlum á þessu ári þá er ansi líklegt að man...

Bækur inn um lúgu

Bækur inn um lúgu

Það er eitthvað fallegt við að fá póstsendingu inn um lúguna. Þá meina ég ekki auglýsingabæklinga...

Það er húmor í lauginni

Það er húmor í lauginni

Sund í Tjarnarbíó Klórlyktin gýs upp þegar maður gengur í salinn og ber augum glæsilega sundlaug...

Bumba er best

Bumba er best

Bekkurinn minn er sería barnabóka sem gerast í íslenskum veruleika eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur og...