Draugagangur í dalnum, eða hvað?

Dalurinn er frumraun Margrétar S. Höskuldsdóttur og kom nýlega út hjá Forlaginu. Bókin segir frá Sif sem heldur ein síns liðs vestur á firði í  sumarbústað foreldra sinna, sem stendur í eyðidal, til að leggja lokahönd á meistararitgerð. Planið er að hún verði þarna ein síns liðs, sambandslaus í tvær vikur. Hún lætur vita af sér daglega með símtali til foreldra sinna frá stað með símasambandi í göngufæri frá bústaðnum en er að öðru leyti einangruð.

Bókin hefst á frásögn frá 18. öld af ungri konu að nafni Gunnhildur sem drukknar í bátsferð, en virðist svo ganga aftur. Síðan tekur nútíminn við þar sem Sif er einmitt að skrifa meistararitgerð í þjóðfræði um drauga og vætti dalsins sem hún er stödd í, en sagan af Gunnhildi er ein þekktasta draugasaga svæðisins. Sif hefur alltaf verið róleg í dalnum en í þessari útlegð byrjar eitthvað að raska ró hennar. Henni fer að líða illa í einverunni og býður ókunnugum erlendum ferðamanni sem hún rekst á húsaskjól. Á sama tíma hefur lögreglan leit að erlendri ferðakonu.

 Í öruggum höndum höfundar 

Það er athyglisvert að Forlagið hafi ákveðið að gefa út spennusögu eftir íslenskan höfund á sumartíma, en ekki á hinum hefðbundna tíma: í aðdraganda jólabókaflóðsins. Mér þykir þetta snjallur tími til að gefa út nýjan spennubókahöfund, marga þyrstir í góða spennusögu í sumarfríinu og þurfa þá gjarnan að lesa nýlegan norrænan krimma til að fá eitthvað nýtt í hendurnar.

Á dögunum heyrði ég viðtal við rithöfundinn Fríðu Ísberg á Rás 1 frá því fyrr á þessu ári þar sem hún talaði um að henni þætti mikilvægt sem lesandi að finna að hún væri í öruggum höndum og að henni leiddist ekki sem lesanda. Ég hugsaði mikið um þetta þegar ég byrjaði að lesa Dalinn, því þrátt fyrir að vera frumraun finnur lesandinn klárlega fyrir þessari tilfinningu að vera í öruggum höndum. Höfundurinn veit alveg á hvaða ferðalag hann ætlar með lesandann. Skipt er hratt og örugglega um sjónarhorn milli persóna í bókinni og flæðir textinn vel áfram.

Ég hef mjög gaman af spennusögum, en les sjaldan spennusögur sem mættu flokkast sem draugasögur. Ég man þig hræðir mig enn mörgum árum eftir lestur, en ég ákvað að reyna við þessa bók þrátt fyrir það. Það var eflaust ekki góð hugmynd að lesa þessa bók ein í gömlu húsi í Hrísey, en ég hóf lestur á leiðinni og gat einfaldlega ekki lagt bókina frá mér þegar þangað var komið.

Hrollvekjandi í birtu

Höfundurinn byggir hægt og rólega upp drungalegheitin og ég fann hvernig hárin fóru að rísa þegar leið á söguna. Það eru fáar persónur í bókinni, eins og í góðri Agöthu Christie, og því fer lesandinn að reyna að giska hver gæti verið annar en hann í fyrstu sýnist. Draugasögur úr dalnum lita upplifun Sifjar og nýtir höfundur þessar gömlu sögur til að auka spennuna í bókinni. 

Í gagnrýni sinni í Tengivagninum á RÚV benti Melkorka Gunborg Briansdóttir á að áhugavert væri að margar spennusenur bókarinnar gerast um hábjartan dag. Ég tek undir þetta, það telst afrek hjá höfundi að skapa spennu í dagsbirtu. Í einni senu þegar Sif heyrir þrusk á háaloftinu verður lesandinn til dæmis mjög hræddur og samtímis forvitinn að vita hvað gæti leynst þar uppi, en þetta gerist þegar Sif er nývöknuð en ekki í næturbirtunni. Heilt yfir er Dalurinn spennusaga sem óhætt er að mæla með, sérstaklega í bústaðinn eða annan einangraðan stað ef lesandinn vill leyfa hárunum að rísa.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...