Dauðaleit er nýjasta skáldsaga furðusagna rithöfundarins Emils Hjörvars Petersen en hún kom út nú í október sem hljóð-, raf- og prentbók hjá Storytel. Þetta er í þriðja sinn sem Emil gefur út bók í samstarfi við Storytel en hrollvekjurnar Ó, Karítas og Hælið hafa áður komið út hjá þeim og hlotið góðar viðtökur.

Emil er þekktur fyrir að skrifa furðusögur sem spila inn á hið dulræna. Fyrir utan að hafa skrifað og gefið út áðurnefndar bækur hjá Storytel þá hefur hann einnig skrifað þríleikinn Saga eftirlifenda og svo bækurnar um huldumiðilinn Bergrúnu Búadóttur (Víghólar, Sólhvörf og Nornasveimur) sem teljast svo sannarlega til hrollvekjandi furðusagna. Í öllum þessum bókum sækir Emil innblástur í íslenskan sagnaarf og fortíðina. Það gerir hann einnig í Dauðaleit þó hún sé mögulega meira í áttina að hrollvekjandi glæpasögu en furðusögu þó dulrænir og furðulegir hlutir komi vissulega við sögu. 

Unglingsstúlka hverfur

Dauðaleit hefst á mannshvarfi. Unglingsstúlkan Aníta hverfur sporlaust í undirgöngunum undir Hamraborg í Kópavogi. Rannsóknarlögreglumaðurinn Halldór Kjartansson fær málið á borð til sín og tengir hvarfið fljótt við annað mannshvarf. Máni, besti vinur Halldórs, hvarf í sömu undirgöngum árið 1994 og fannst aldrei. Von kviknar hjá Halldóri um að við rannsókn þessa máls muni hann mögulega fá svör við hvarfi vinar síns. Tíminn er knappur, mannslíf er í húfi og Halldór leggur allt í sölurnar til að leysa málið en á sama tíma banka draugar fortíðar upp á.

Sögusviðið er Hamraborgin í Kópavogi í nútíma og fortíð. Undirgöngin eru þar í aðalhlutverki þó aðrir hlutar Hamraborgarinnar komi við sögu. Það er virkilega vel valinn staður fyrir hrollvekjandi atburði. Margir þekkja umrædd undirgöng og geta þar af leiðandi auðveldlega sett sig inn í umhverfið og hversu draugaleg þau geta verið. Í raun dugar reynsla af hvaða undirgöngum sem er til að geta sett sig inn í það. Hver hefur ekki gengið um undirgöng í myrkri, seint að kvöldi? 

Grípandi og spennandi

Örvænting Halldórs við rannsókn málsins og þörf hans að komast að því hvað kom fyrir Anítu en ekki síst vin sinn, Mána, er áþreifanleg og skiljanleg. Undirrituð kunni vel að meta bókasafn Halldórs sem hann flokkar eftir Dewey flokkunarkerfinu, það kitlar minn innri bókasafns- og upplýsingafræðing þegar fólk flokkar bækur sínar sama hvernig það er gert. Emil tekst einnig vel að setja upp söguna í nútíð en líka í fortíð með vísunum í hvernig staðhættir voru áður en einnig með vísunum í grunge’ið og þá sérstaklega Pearl Jam. Það virkaði allavega einstaklega vel á 90’s unglinginn í mér.

Sagan er virkilega spennandi, svo mikið að hún greip undirritaða frá fyrstu stundu og olli því að lesið var inn í nóttina með tilheyrandi afleiðingum á þreytustig næsta dags. Það má segja að það sé vísbending um góða, spennandi bók.  Ég hlustaði einnig á hluta hennar sem hljóðbók á Storytel og er lestur Hjartar Jóhanns Jónssonar einstaklega góður. Rödd hans er fullkomin fyrir þessa tegund af bók fyrir utan að hann er sjálfur frábær lesari.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...