Mörg okkar teljum okkur sjálf frekar skipulögð, en við stöndumst ekki samanburð við konu sem skrifaði bók til þess eins að geta gefið hana út eftir þrjátíu ár. Ég er að sjálfsögðu að vísa hér í mína heittelskuðu Agöthu Christie, en sú bók er Tjaldið fellur, Síðasta mál Poirots sem kom nýlega út í íslenskri þýðingu Helga Ingólfssonar. Um er að ræða eina áhugaverðustu bók Christie sem heitir á frummálinu Curtain. Bókin er ekki síst fræg sökum þess að í kjölfar útgáfu hennar birtist minningargrein um Hercule Poirot í New York Times var í fyrsta, og mögulega eina, skiptið sem slíkt var gert fyrir skáldaða persónu. Fyrir ykkur sem farið nú strax að kvarta yfir því að ég hefði átt að koma með höskuldarviðvörun vil ég segja eftirfarandi: það er ekki hægt að hneykslast á því að man uppljóstri einhverju sem kom fram í bók fyrir tæpum fimm áratugum síðan.

Í bankahólfi í þrjá áratugi

Það er eiginlega ekki hægt að segja frá bókinni öðruvísi en að segja frá útgáfusögu hennar. Bókin kom út haustið 1975 og var síðasta bókin sem kom út meðan Christie lifði, hún lést árið á eftir og þá kom út síðasta bókin sem hún skrifaði, Sleeping Murder. Í seinni heimsstyrjöldinni óttaðist Christie um líf sitt en þar sem hún var alltaf með aðdáendur sína í huga ákvað hún að skrifa síðustu bókina um Poirot þá til að ljúka seríu sinni um belgíska einkaspæjarann á viðeigandi hátt. Hún lét setja bókina í bankahólf, þar sem hún var geymd í yfir þrjátíu ár. Árið 1972 kom svo út síðasta bókin um Poirot sem Christie skrifaði, Fílar gleyma engu, og stuttu síðar lét hún taka Curtain úr bankahólfinu og heimilaði útgáfu hennar. Agatha Christie var um áttrætt þegar hún lést og fengu bækurnar sem hún skrifaði á síðari árum sínum (með nokkrum undantekningum) verri viðtökur en þær sem hún skrifaði þegar hún var yngri. Rætt hefur verið um það í seinni tíð að hún gæti hafa sjálf þjáðst af minnisglöpum þegar hún skrifaði bókina Fílar gleyma engu sem stiklar einmitt á því málefni. Það er þess vegna svo dásamleg gjöf til aðdáenda hennar að hún geymdi síðustu bókina um Poirot sem hún skrifaði þegar hún var líklega upp á sitt besta sem rithöfundur. 

Fimmfaldur morðingi á kreiki

En að söguþræðinum, Poirot er gamall maður og biður góðvin sinn Hastings að koma og hitta sig á Styles-setrinu, en þar leystu þeir sitt fyrsta mál saman. Þeir hafa ekki verið í miklu sambandi undanfarið, en Hastings flutti til Argentínu og bjó þar í áratugi eftir síðasta mál sitt með Poirot, sem lesa má um í Dumb Witness. Poirot er kominn í hjólastól, orðinn heilsulítill en er alltaf jafn skarpur í höfðinu. Þegar Hastings mætir upplýsir Poirot hann um að morðinginn X sé þeirra á meðal og beri hann ábyrgð á fimm morðum sem aðrir voru dæmdir fyrir og sé líklegur til að myrða á ný. Poirot er mikið bundinn við rúmið og nýtir Hastings sem eyru sín og augu, en saman þurfa þeir að leysa málið til að koma í veg fyrir sjötta morðið.

Tjaldið fellur er hefðbundin Christie bók, hún er staðbundin við Styles-setrið og því takmarkaður fjöldi sem kemur til greina sem morðinginn. Bókin er þó ólík fyrri sögum af Poirot að því leyti hvað Hastings gegnir veigamiklu hlutverki. Einnig má sjá að hann er orðinn betri í spæjarastarfinu, en Poirot hefur í fyrri bókum hneykslast á og grínast í Hastings hvað hann er oft langt frá sannleikanum í hugmyndum sínum um morðingjann. Hastings sést einnig óvænt í hlutverki föður en 21 árs dóttir hans Judith kemur mikið við sögu. Heilt yfir er sagan spennandi og tekur nokkrar óvæntar stefnur. Með þessari bók kveður Christie Poirot á virðingaríkan og fallegan hátt, þrátt fyrir að hún hafi sjálf verið orðin hundleið á sköpun sinni og það er ekki laust við að man sé meir þegar sá gamli kveður. En í því samhengi má nefna að þegar David Suchet, sem túlkaði Poirot á ódauðlegan hátt í 24 ár í sjónvarpsþáttunum um Poirot, tók upp síðustu seríuna vildi hann að tökum yrði lokið með þættinum Dead Man’s Folly frekar en Curtain til að ljúka ferlinu í gleði en ekki sorg.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...