Sigrún Eldjárn er einn af okkar ástsælustu barnabókahöfundum og örugglega einn af þeim afkastameiri. Í nýjustu bók hennar, Ófreskjan í Mýrinni, er ritskrá þar sem hægt er að finna 87 titla eftir hana, þar á meðal bækur fyrir námsgagnastofnum og bækur sem hún hefur unnið í samvinnu við Þórarinn Eldjárn. Þetta er ekkert smáræðis afrek! Ég las sjálf mikið eftir hana sem barn og Bétveir – Bétveir var lengi ein af mínum uppáhalds.

Bókin Umskiptingur er unnin samhliða leiknýningu sem var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu 2022. Sýningin féll vel í kramið og var tilnefnd til Grímunnar sem barnasýning ársins og sem leiksýning ársins á Sögum, verðlaunahátíð barnanna. Ég hef því miður ekki séð leikritið en get ímyndað mér út frá söguþræði bókarinnar að þetta sé fjörug leiksýning.

Hvað er umskiptingur?

Bókin fjallar um systkinin Sævar og Bellu sem eru í berjamó á meðan foreldrarnir eru í göngu. Miklar erjur eru á milli þeirra og Sævar er orðin dauðþreyttur á litlu systur sem öskrar stanslaust og frekjast. Þegar Sævar fer að leita að berjum lognast Bella út af í einni lyngbrekkunni. En ofan í jörðinni, þar nálægt, er tröllaheimilið. Þar er Tröllamamma dauðuppgefin af því tröllabörnin eru mjög fjörug og mjög svo ólagleg að hennar eigin mati. Hún er búin að fá sig fullsadda af hávaðagangi og ljótleika og ætlar í leit að fegurð og fágun. Hún grípur Steina, son sinn, og arkar með hann út af heimilinu en hann sofnar fljótt á baki hennar. Þá rekst tröllamamma á sofandi Bellu og þykir hún fegurðin uppmáluð. Hún ákveður að taka Bellu en skilja Steina eftir. Sævar verður heldur betur hissa þegar hann kemur til baka og sér að trölladrengur er kominn í stað systurinnar.

Ofurfjölskyldan, Ofur-Sól, Ofur-Máni og Ofur-pabbi, heyra kallað er hjálp og þegar þau mæta á svæðið finna þau Sævar og Steina. Þá kemur í ljós að skipti á börnunum tveimur hefur átt sér stað. Ofurfjölskyldan ákveður að hjálpa strákunum að finna Bellu og tröllamömmu en komast að því að það verður ekki létt verk. Tröll krefjast nefnilega lausnargjalds fyrir horfið mannsbarn.

Grasið hinum megin

Það er spennandi að fylgjast með hópnum reyna að ná öllum hlutunum sem þarf til að frelsa Bellu frá tröllamömmu en atriðin eru hvert öðru flóknara, fyrir utan þann fyrsta sem kom heldur betur á óvart. Á endanum tekst þeim að redda málunum og finna Bellu á tröllaheimilinu. Þar hefur hún sett allt í uppnám og tröllamamma var farin að sjá eftir þessu öllu saman. Hún hefði betur haldið sínu eigin barni og verður himinlifandi að fá Steina sinn aftur.

Boðskapurinn í bókinni er bæði mikilvægur og skýr. Oft heldur fólk að það sem aðrir eiga sé betra en það sem það á sjálft en grasið er ekki alltaf grænna hinum megin. Ég hefði viljað sjá fallegra málfar hjá Bellu en inn á milli leynast alveg skemmtileg orð eins og geigvænlega. Það er jákvætt að rekast á orð sem eru ekki endilega á hverju strái í barnabókum því það gegnir mikilvægu hlutverki í að auka orðaforða barna.

Þessi bók heillaði mig sérstaklega þar sem ég hef mikinn áhuga á tröllum og íslenskum þjóðsögum. Það er svo sniðugt hvernig Sigrún fléttar yfirnáttúrulega hluti eins og  dreka, álfa og ofur-krakka inn í hversdagslega umhverfið í berjamó. Skemmtilegur blær er yfir bókinni, sagan er ljúf og þægileg aflestrar þar sem letrið er nokkuð stórt. Myndirnar eru dásamlegar og gera svo mikið fyrir söguna en þær teiknar Sigrún sjálf.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...