„Nánast ómanneskjuleg glíma.“

Rebekka Sif, Katrín Lilja og Anna Margrét ræða um Bréfin hennar mömmu og Það síðasta sem hann sagði mér

Í hátíðarþætti Lestrarklefans á Storytel má sjá viðtal við Ólaf Ragnar Grímsson sem gaf út bókina Bréfin hennar mömmu í haust. Gagnrýnendur Lestrarklefans ræða um bókina ásamt spennusögunni Það síðasta sem hann sagði mér eftir Lauru Dave. 

„Snart mig mjög djúpt.“

Á síðasta ári birtust bréf úr blárri tösku. Taskan hafði fylgt fjölskyldu Ólafs Ragnars um áraraðir en enginn vissi að í henni leyndust dýrtmæt bréf, gluggi inn í fortíðina. Bréfin voru skrifuð af Svanhildi Hjartar, móður Ólafs Ragnars Grímssonar. Bréfin hafa nú verið gefin út í bókinni Bréfin hennar mömmu þar sem Ólafur Ragnar skrifar inngang og bindur bréfin saman með sögulegu og persónulegu samhengi. 

„Það er sérkennileg lífsreynsla að vera orðinn þetta aldraður og vera í fyrsta sinn að sjá líf móður minnar og foreldra í þessu nýja ljósi berklanna,“ segir Ólafur um upplifunina að lesa bréfin í fyrsta sinn. Hann var sendur þriggja ára í fóstur til ömmu sinnar og afa á Þingeyri. Móðir hans barðist við berklana í fimmtán ár. „Þetta snart mig mjög djúpt því loksins skildi ég að þessi glíma var miklu erfiðari, hún var miklu nær dauðanum oftar en ég hafði áttað mig á. Þessi glíma – að sjá ekki eiginmann sinn, sjá ekki son sinn, misserum, jafnvel árunum saman, fór djúpt í sálina.“

Ný yfirstaðinn heimsfaraldur sé ekkert í líkingu við berklana: „Kóróna var nánast eins og barnaleikur miðað við þessa fimmtíu ára glímu þjóðarinnar við berklana,“ segir Ólafur. Enda gefur bókin sterka innsýn inn í þessa erfiðu tíma í sögu þjóðarinnar. „Þetta var nánast ómanneskjuleg glíma.“

Í myndveri Storytel ræða svo Rebekka Sif, Katrín Lilja og Anna Margrét um verkið og eru sammála að bókin eigi erindi til sem flestra. „Hún gefur einstaka sýn inn í líf berklasjúklinga um miðja 20. öldina og það kom mér á óvart hvað mér fannst gaman að þessu,“ segir Katrín Lilja, ritstjóri Lestrarklefans. 

„Góð spennusaga með góða fléttu.“

Anna Margrét og Katrín Lilja fjalla jafnframt um bókina Það síðasta sem hann sagði mér eftir bandaríska höfundinn Lauru Dave sem hefur verið mjög vinsæl sem hljóðbók í nýrri íslenskri þýðingu Arnars Matthíassonar. Bókin var valin í bókaklúbb Reese Witherspoon, sem hefur hafið margar bækur upp til vegs og virðingar. „Maður var með væntingar og þegar maður er búinn að byggja upp einhverjar væntingar fyrir bók þá verður maður stundum fyrir vonbrigðum,“ segir Katrín Lilja um bókina. Anna Margrét tekur undir þetta: „Hún skilur ekkert ofboðslega mikið eftir, fyrir utan að vera góð spennusaga með góða fléttu. Ég var að búast við einhverju aðeins meiru frá henni. Mér fannst hún engu að síður góð.“ Kannski á sagan meira erindi á sjónvarpsskjáinn. „Ég held hún eigi eftir að ganga vel upp í sjónvarpsþáttaseríu,“ bætir Katrín Lilja við. 

Horfa má á þáttinn í heild sinni hér.

Að lokum mæla þær stöllur með hljóðbókum sem vert er að hlusta á. Þáttastjórn er í höndum rithöfundarins Rebekku Sifjar Stefánsdóttur aðstoðarritstjórans okkar. 

Við viljum sérstaklega þakka Brá verslun fyrir fallegan fatnað sem bæði Rebekka og Katrín klæðast.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...