Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem ég sat árið 2013 varð hún strax mikil uppáhaldsbók hjá mér. Ég var að stíga mín fyrstu skref í heimi bókmenntafræðinnar og alls kyns hugtök og merkingar stukku af síðum bókarinnar og inn í ferskan heila sem hafði aldrei séð aðra eins list.

Nú eru góð tíu ár liðin og ég les Hvítfeld enn reglulega. Sama má segja um smásagnasafn Kristínar, Doris deyr, sem býr í litlu hólfi í hjarta mínu og minnir reglulega á sig. Nýjasta bók Kristínar, Tól var því skiljanlega bókin sem ég var spenntust fyrir í jólabókaflóðinu 2022.

Fíknisjúkdómar og fjölskyldur

Tól fjallar um Villu Dúadóttur, um hugsanlegan barnsföður hennar Jón Loga, um Ninju sem var að skilja, um Amalíu og Fönn og Báru og hálfrússneska hvalveiðimanninn Dimitri, en aðallega fjallar hún um fíknina, um einmanaleikann og ættarskítinn sem leggst á okkur kynslóð fram af kynslóð.

Villa er heimildarmyndagerðarkona en hún er líka kona með flókna áfallasögu, hún er móðir, hún er dóttir og barnabarn, kærasta og lítið barn. Við kynnumst mismunandi fíkn, til að mynda alkóhólisma sem er, að ég held, mjög algengur í íslensku samfélagi og fær oft lítinn skilning; þessum sem drekkur illa og allt of mikið en nægilega sjaldan til að halda lífi sínu í skorðum. Mömmurnar í bókinni eru mismunandi, lifandi og fullar af ást og breyskleika, eru aldrei nóg en um leið allt of mikið, ekki neitt og allt í einu. Feður eru fjarverandi þó þeir séu til staðar, til staðar þó þeir viti ekki af sjálfum sér, jafnvel verri sem uppalendur en ef þeir væru horfnir.

Ættarsaga Íslands

Rétt eins og Hvítfeld er Tól ættarsaga, en þó saga fleiri en einnar ættar. Hún er saga allra íslenskra ætta í bland, nístandi auga sem sér beint inn í innsta kjarna þjóðarsálar. Við sjáum allar týpur af vanrækslu, af mistökum foreldra, hvort sem það er viljandi, óvart eða óumflýjanlegt. Við kynnumst einmanaleika, kvíða, lamandi fíkn, ofbeldi og skeytingarleysi. En í gegnum allt ógeðið sem Kristín galdrar fram fyrir lesandanum liggur þráður manngæsku, fegurðar og vonar. Í heimi Kristínar er ást, það er fegurð og öllum og öllu er viðbjargandi á einhverju stigi. Allir voru einu sinni lítil börn. Allir eiga skilið ást.

Ég vil ekki skrifa of mikið en ég gæti skrifað í marga daga um þessa bók. Hún er vel unnin, rannsóknarvinnan sem liggur að baki hennar skilar sterkum grunni og raunsannri frásögn. Raddir persónanna eru jafn ólíkar og þær eru margar, skipting milli sjónarhorna er vel tímasett í framvindu bókar. Hið óvænta kemur alltaf á óvart en aldrei þó eins og skrattinn úr sauðarleggnum heldur sem næsti hlekkur í vel mótaðri fléttu þar sem niðurstaðan er augljós þegar maður veit hana, en manni hefði aldrei dottið hún í hug áður. 

Ágengar spurningar

Spurningarnar sem bókin veltir upp eru áleitnar og eiga vel við í dag. Vangaveltur um gerendur og meðvirkni, þolendur og hverra réttur sé að segja hvaða sögur talar inn í samtímann á áhugaverðan hátt, og höfundur reynir ekki svara spurningum heldur frekar að veita persónum, sem og lesendum, færi á að velta þessu fyrir sér frá ýmsum hliðum.

Ég hakkaði bókina í mig á þrem dögum og hefði lesið hana á einum ef ég hefði ekki skyldum að gegna. Daginn sem ég kláraði Tól varð ég eirðarlaus því ég saknaði félagsskapar bókarinnar. Ég þurfti í framhaldi að vanda valið á næstu bók  einstaklega vel því standardinn minn var orðinn svo hár.

Niðurstaða mín er að Tól er fallegasta ljóta bók sem ég hef nokkru sinni lesið og höfundi ber mikið lof fyrir dásamlegt listaverk.

 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...