Íslenska kakóköltið

Guðrún Brjánsdóttir kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2020 þegar hún vann handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar raddir, með nóvellunni Sjálfstýring. Sú bók er nístandi og segir af ungri stúlku sem verður fyrir kynferðisofbeldi og ferðalagi hennar að einhvers konar sátt. Með Óbragði er Guðrún á nýjum slóðum, bókin er uppfull af háði og léttleika sem ætti að skemmta lesandanum á sama tíma og hún talar sterkt inn í íslenskt samfélag.

Athyglisvert er að bókin kom fyrst út í danskri þýðingu, Kakaokulten, en Guðrún hefur áður dvalið í Kaupmannahöfn í söngnámi. Ég verð að viðurkenna að ég er töluvert hrifnari af danska titli skáldsögunnar, Kakóköltið, enda er hann mjög grípandi. Það má velta fyrir sér hvað olli því að bókin fær sitthvoran titilinn á tungumálunum tveimur. 

 Veggjalýs alls staðar

Óbragð fjallar um Hjalta, ungan mann sem leggur stund á meistaranám í verkfræði við Háskóla Íslands. Hann stendur á tímamótum, kærasta hans til fjölda ára hefur nýlega flutt út úr sameiginlegri íbúð þeirra. Hægt og rólega fer lesandinn að sjá að líklega er ekki allt í lagi með Hjalta, til dæmis er ástæðan fyrir sambandsslitum hans þráhyggja hans varðandi veggjalýs. Vandamálið er fjölþættara; kvíði, þunglyndi og þráhyggja. Sambandsslitin hreyfa við Hjalta og lífi hans. Það gerir líka sundskýluklæddi nágranni hans sem býður honum í heilunarferð með Kakófylkingunni, þar sem þátttakendur dreypa á heilögu kakói frá Gvatemala. Athöfnunum stjórnar Hildigunnur, leiðtogi hópsins, af festu. En það er margt sem leynist undir yfirborðinu. 

Óm sjantí sjantí

Í Skaftafelli, þar sem kakófylkingin tjaldar, fylgist Hjalti með jöklunum hopa. Sjálfur neitar hann sér um kjöt til að leggja sitt á vogaskálarnar gegn hnattrænni hlýnun. Hjalti er hinn áhyggjufulli og samviskusami borgari, sem stefnir hraðbyrir í kulnun og þrot. Hann er með áhyggjur heimsins á herðum sér. Áhyggjurnar blómstruðu meðfram þráhyggunni um lýsnar og ætla engan enda að taka. Í Hjalta sjáum við áhyggjur okkar allra, viðbrögð okkar við loftslagsvánni. Honum er telft á móti andstæðunni, landverði sem grillar alla daga og talar tæpitungulaust um bráðnun jökla og yfirvofandi heimsenda, án þess að hafa miklar áhyggjur af því. Hjalti laðast að henni og hún að honum. Hildigunnur reynir að stjórna Hjalta, ásamt öllum öðrum hennar viðföngum, en kemur mest upp um sjálfa sig og hennar undirförlu áform. 

Óbragð er stórskemmtileg skáldsaga, hún er ferskur andblær og mun fá lesandann til að glotta í kampinn, jafnvel hlæja að óförum grey Hjalta. Samfélagsádeilan er létt og leikandi og sýnir okkur hvað við erum öll í rauninni miklir hræsnarar án nokkurs prédikunartón eða ásökunar. Við erum öll svona inn við beinið. Guðrún Brjánsdóttir er fantagóður penni og það má ekki finna nokkra hnökra á textanum. Endilega grípið Óbragð með ykkur í sólarlanda- eða sumarbústaðaferðina yfir páskana, þið sjáið ekki eftir því. 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...