Það er alla jafnan beðið með mikilli eftirvæntingu eftir bókum Gunnars Helgasonar. Bækurnar hans seljast sem heitar lummur fyrir hver jól og hann hefur varla stigið feilspor í skrifum fyrir börn síðustu árin. Nýjasta serían hans er um fjölmenningarsamfélagið í Breiðholtinu. Sagan um hinn hálfpólska Alexander Daníel Hermann Dawidsson, eða ADHD, og mjög fjölbreyttu fjölskylduna hans.
Í annari bókinni um ADHD, Bannað að ljúga, hafa Alexander og pabbi hans stofnað fjölskyldu með mömmu Sóleyjar “Pakman” Pakpao. Það þýðir að langamma og amma og Máney fylgja með. Fjölskylda Alexanders hefur því stækkað töluvert, en honum finnst það fínt. Það sem er hins vegar ekki fínt er að Sóley verður fyrir einelti í skólanum. Því þarf Alexander að redda. Hann þarf líka að redda nýju húsnæði undir nýju stóru fjölskylduna og tala við mesta glæpaforingja Íslands.
Leikandi létt um alvarleg mál
Sagan er skrifuð í gamansömum stíl, eins og aðrar bækur Gunnars. Söguþráðurinn er hraður og fjallar að mestu um hversdagsleg málefni, stór og smá. Textinn flæðir af miklum hraða, alveg eins og hugsanir Alexanders. Í hverjum kafla er tekið fyrir umræðuefni, sem hefur fyrir vikið ris og hnig, en vekur jafnframt forvitni um áframhaldið. Gunnar nær að hneyksla unga lesendur með blóti og munnsöfnuði hinnar ungu Máneyjar. Ungur ráðunautur Lestrarklefans sem las bókina átti stundum ekki orð yfir munnsöfnuðinum og þurfti að gera hlé á lestrinum til að segja forráðamönnum sínum allt um þessi nýju orð. Máney er nefnilega líka skemmtilegur orðasmiður.
Í Bannað að ljúga er þó ekki allt dans á rósum, það er það sjaldnast í lífinu heldur. Pabbi Sóleyjar og Máneyjar er í fangelsi. Þær eiga slæmar minningar og tengsl við lögregluna, sem kom inn á heimili þeirra með látum og fjarlægði pabba þeirra. Hann gerði mistök og situr í fangelsi fyrir þau. Þegar ný stelpa kemur í bekkinn til Alexanders og Sóleyjar kynnast þau líka helsta mafíuforningja Íslands. Og Alexander kemst í smá vesen, því hann getur ekki logið. Hann kann það ekki! Getur það ekki! En stundum þarf að ljúga. Eða er það ekki?
Gunnar Helgason skrifar um samfélagið í Breiðholtinu tæpitungulaust og af virðingu eins og í fyrri bókinni um ADHD. Þótt umræðuefnið sé oftar en ekki alvarlegt, þá er mikill húmor í bókinni. Það er með ólíkindum hve auðveldlega Gunnar nær til ungra lesenda með bókunum sínum. Líklega er ástæðan sú að hann skrifar um reynsluheim krakka, hann hefur unnið rannsóknarvinnu sína. Ég bíð spennt eftir næstu bók um ADHD.