Bölvun bókaformsins: The Philosophy of Modern Song eftir Bob Dylan

Eins og ég hef áður minnst á í pistli á þessari síðu, þá er ég forfallinn aðdáandi bóka um dægurtónlist og sérstaklega svokallaðra lagalistabóka – bóka sem telja upp fjölda dægurlaga og fjalla um hvert og eitt þeirra í sérkafla, með þeim áhrifum að lögin virðast spilast í hausnum á manni um leið og maður les en einhvernveginn lifna enn meira við í samhengi lestursins. Auðvitað er það skilyrði fyrir að hafa fulla ánægju af slíkri bók að lögin í henni séu á áhugasviði lesandans. Mitt áhugasvið er (myndi ég halda fram) ágætlega vítt en engu að síður hverfist það að miklu leyti um bandaríska dægurtónlist, helst frá því áður en ég fæddist. Þar er mitt obsessíva uppáhald líklega hamhleypan Bob Dylan, sem ég gæti skrifað hundrað pistla um ef ég myndi ekki hemja mig.

Tarantúla úr ruslinu

Þannig ætti að skiljast vel hversu spenntur ég varð þegar fréttir bárust af því að Bob Dylan sjálfur væri að gefa út lagalistabók, The Philosophy of Modern Song (Simon & Schuster, 2022). Þetta er þriðja bók Dylans á sinni 80 ára ævi og má segja að rithöfundaferillinn hafi verið brokkgengur. Frumraun hans var stream-of-consciousness ljóðabókin Tarantula sem kom út árið 1971, en var skrifuð 1965-1966. Ég myndi helst mæla með því að forðast þá bók. Hún er afurð þeirrar aðferðar sem Dylan beitti á þessum tíma til þess að semja lagatextana sína – að láta hugsanir sínar streyma fram, blaðsíðu eftir blaðsíðu, þar sem lítið er stoppað til að huga að rökrænu samhengi en hugmyndunum þeim mun frekar leyft að flæða áfram, eins og skrifað sé í vímu. En galdurinn í lögum Dylans felst í því hvernig hann ritstýrir kaosnum, heldur góðu línunum, sem eignast nýja merkingu þar með, en hendir rest. En Tarantula er dálítið eins og einhver hafi farið í ruslatunnuna hjá Dylan og birt innihald hennar hrátt. Það er svosem áhugavert út af fyrir sig að fá þessa innsýn inn í sköpunarferli hans, en rétt eins og mann langar ekkert að vita hvernig pulsan á disknum manns var framleidd, þá vekur Tarantula litla hrifningu aðdáandans: hún er best ólesin.

Ævisaga um skáldaða ævi

Öllu betur gekk Dylan með fyrsta bindi „ævisögu“ sinnar, Chronicles: Volume One (2004). Það eru nú næstum tuttugu ár síðan hún birtist og bindin verða varla fleiri úr þessu, sem er synd, því bókin er að mínu mati frábær. Lykill að því að kunna að meta hana er þó að hafa í huga hversu póstmódernískur Dylan er og hversu innilega sama honum er um sannleikann, sem almennt er talinn hinn heilagi grall ævisagnageirans. Bókin er vissulega afar sannfærandi aflestrar, rennur vel, er frábærlega stíluð, en við örlitla umhugsun að lestri loknum kynnu að fara að renna á lesandann tvær grímur. Margir Dylan-fanatíkerar tóku strax eftir að ýmislegt í frásögn bókarinnar stangaðist á við aðrar heimildir um hans ævi, og viti menn, fólk fór að finna línur eignaðar raunverulegu fólki sem voru gripnar úr skáldsögum, senur sem vísuðu hingað og þangað í ýmsar bækur, sagnfræðirit, ferðabæklinga. Það kom í ljós að bókin var einhvers konar collage-verk, samansafn úr allskonar heimildum skeytt saman af meistaralegri natni í heillega „ævisögu“mynd. Trúgjarnir lesendur höfðu verið hafðir að fífli. Þeir gátu annaðhvort verið fúlir eða þvert á móti dáðst að þessum leik að sannleikanum. Af hverju ætti einhver að hafa áhuga á „sannleikanum“ um mig? virðist Dylan spyrja. Er ég ekki listamaður sem er þekktur fyrir að breyta mér eins og kamelljón? Viljið þið ekki frekar fá mýtu um mig en sannleikann? Persónulega segi ég já og amen.

Úr útvarpi í bók

The Philosophy of Modern Song er því þriðja tilraun Dylans með bókaformið og eftir Chronicles hugsaði ég mér gott til glóðarinnar. Svo gott sem á útgáfudegi dreif ég mig út í búð eftir henni og var byrjaður að lesa hana strax í lestinni heim. En skemmst er frá því að segja að ég varð fyrir vonbrigðum. Ég kannaðist strax við hvað Dylan var að gera og á hverju það byggði: hinum frábæru útvarpsþáttum hans, Theme Time Radio Hour, sem fóru upprunalega í loftið milli 2006 og 2009. Í þáttunum spilar Dylan lög sem hverfast í kringum ákveðið þema hvers þáttar („veðrið“, „kossar“, „viskí“ o.s.frv.) Inn á milli spjallar hann um lögin, grínast, les upp lesendabréf (öll fölsuð) og miðlar gríðarlegri þekkingu sinni á tónlist. Lagavalið er ótrúlega breitt, en engu að síður alls ekki þannig að það virki ópersónulegt (eins og breiðir lagalistar eiga það til að vera) – dálæti Dylans á ákveðnum tónlistarmönnum kemur skýrt fram, kannski einna mest áberandi í tilfelli djasssöngkvennanna Sarah Vaughan og Dinah Washington, sem hann þarf stundum hreinlega að biðjast afsökunar á að spila einu sinni enn, hann bara fái ekki nóg af þeim.

Horfnu konurnar

Ég tek þær Söru Vaughan og Dinu Washington sérstaklega fram því að þær er einmitt hvergi að finna í The Philosophy of Modern Song. Ekki Joni Mitchell heldur eða Bessie Smith eða Janis Joplin. Já, það er bara ein kona meðal flutningsmanna þeirra 66 laga sem í bókinni birtast – Nina Simone með „Don‘t Let Me Be Misunderstood“. Auðvitað hefur þessi ruglaða staðreynd leitt til þess að gagnrýnendur hafa tekið Dylan til bæna sem áttræða karlrembu sem virðist aldrei hafa heyrt kvenna getið. En þetta er sérstaklega sárt og fáránlegt fyrir aðdáandann mig sem veit vel, hafandi hlustað á útvarpsþættina hans, að þetta endurspeglar tónlistarsmekk Dylans ekki á neinn hátt. Svo hvað í fjandanum gerðist eiginlega við vinnslu þessarar bókar?

Fyrir hvern er þetta?

Það eina sem manni dettur í hug er að Dylan hafi á einn hátt eða annan ályktað að bókaformið kallaði á einhverja ritskoðaða útgáfu af hans eigin tónlistarsmekk, og að konur hafi verið það sem þyrfti að fjúka. Taldi hann að lesendur bókarinnar væru aðrir karlar á sínu reiki og vildi höfða til þeirra eigin kvenfjandsamlega smekks? Það má finna vísbendingar um það í bókinni, sem vissulega er með slagsíðu í þágu eldri laga, og hann á það til að skrifa um þau í mjög sterkum boomer-stíl, kvartandi yfir ömurð nútímans. Ég er sjálfur hallur undir svartsýni gagnvart heimi okkar í dag, en slík gagnrýni þarf að vera betur sett fram en það raus sem birtist í The Philosophy of Modern Song. Sjaldan finnst mér Dylan komast að kjarna laganna sem hann skrifar um: stíllinn hljómar raunar alltaf eins og hann sé að reyna að þóknast einhverjum, og hver sem það eiginlega er, þá finnst mér hann óþolandi. Ekki það – lögin sem talin eru hér upp eru algjörlega frábær, hvert og eitt einasta, og ég hef gert margar kærar uppgötvanir á nýrri tónlist upp úr þessari bók. En það bjargar henni ekki fyrir horn: Dylan hefur nú skrifað tvær vondar bækur og eina góða. Líklega ætti hann bara að halda sig við tónlistina héðan af – nú, eða útvarp.

Lestu þetta næst