Hverfult minni og kvikar goðsagnir: Rokkbækur

Til er ein bókmenntagrein sem ég er afskaplega veikur fyrir en átta mig jafnframt á því að er fremur ófín, og ég viðurkenni því ekki endilega í hvaða félagsskap sem er að ég elski. Þetta eru bækur um dægurtónlist og dægurtónlistarmenn, sérstaklega karlkyns, enskumælandi tónlistarmenn sem voru upp á sitt besta á 7. og 8. áratugnum. Af hverju ætti það að vera vandræðalegt, kynni einhver að spyrja? Það er líklega fyrir þær sakir að ég sé sjálfur vel veikleika þessarar bókmenntagreinar. Þetta eru allt bækur um karlmenn eftir karlmenn, þær eru víða skrifaðar eftir nokkuð skýrri forskrift og því keimlíkar hver annarri, og rétt eins og með tónlistina sjálfa þá les ég þessar bækur ekki bara einu sinni – nei, ég á það til að grípa þær úr hillunni hvenær sem mig vantar eitthvað léttmeti til lesturs, eitthvað sem þarf enga einbeitingu til að lesa en er þægilegt fyrir hugann að rifja upp kynnin við. Þannig les ég einfaldlega vandræðalega mikið af þessum bókmenntum, miklu meira en nokkru sinni af fagurbókmenntum.

Þær bækur sem ég ætla að fjalla um hér falla í nokkra meginflokka. Sá fyrsti er það sem mætti kannski nefna lagalistabókina, þar sem fjallað er um nokkurn fjölda laga einhvers tónlistarmanns eða hljómsveitar eitt á eftir öðru. Á meðan maður les þennan oftast mjög hrósandi texta um tónlistina er eins og hún spilist sjálfvirkt í huganum, algjörlega án þess að maður setji á plötuna eða fari á Spotify (þótt það sé gaman að gera það líka). Það skemmtilega við þetta er að lögin eiga það til að hljóma jafnvel enn betur en mann minnti við þessa yfirferð, maður uppgötvar á þeim nýjar hliðar og kynnist þeim á nýjan hátt. Þetta er þannig bókmenntagrein sem veitir mikla ánægju ef (og það er náttúrulega stórt ef) maður þekkir lögin sem rætt er um vel. Í þessum flokki eru t.d. bækurnar Rocks Off: 50 Tracks that Tell the Story of the Rolling Stones eftir Bill Janowitz (2013), sem fer ekki mikið á dýptina en er frábærlega skemmtileg (fyrir aðdáendur Stones) engu að síður.

Tónlist og menning

Nokkuð dýpri er frábær bók breska tónlistargagnrýnandans Ian McDonald, Revolution in the Head: The Beatles‘ Records and the Sixties (1994). McDonald tekur fyrir hvert einasta lag sem Bítlarnir tóku upp og greinir sögulega, tónfræðilega og menningarlega. Hans skoðun er að Bítlarnir og plötur þeirra skilgreini ofar öllu öðru sjöunda áratuginn, ekki bara tónlistarlega heldur í heild sinni, og fyrir þessu færir hann góð rök. Hann er einnig í mikilli vörn fyrir þann áratug, en þegar hann skrifar hafði mikið vatn runnið til sjávar síðan Bítlarnir voru uppi og efnishyggjumenning 9. og 10. áratugarins leit hæðnisaugum á þá og þeirra sporgöngumenn. Þótt McDonald sjái alveg gallana við menningu Bítlaáranna er hann engu að síður á því að 7. áratugurinn hafi verið öðrum merkilegri og eys úr skálum fyrirlitningar sinnar á þeim andlausu tímum trommuheila, synþa og Thatcherisma sem hann var sjálfur fastur í. Þetta sjónarhorn hefur ekki elst sérstaklega vel en engu að síður er gaman að lesa það, þótt maður sé ekki sammála – en þetta er nokkuð sem ekki allir menningarrýnar hafa á valdi sínu. Svo er McDonald bara svo skarpur: Enginn sem einu sinni les greiningu hans á lagasmíðastíl Lennons (hinn „lárétti“ stíll) í andstöðu við stíl McCartney‘s (hin „lóðrétti“ stíll) getur hlustað á Bítlana sömu eyrum aftur.

En að sumu leyti er lagalistaformið heftandi fyrir dýpri greiningar. Slíkt kallar á kaflaskiptar esseyjubækur, og þar ber fremstan að nefna meistara menningarumfjöllunar í gegnum dægurtónlist, bandaríska menningarrýninn Greil Marcus. Hans frægasta bók er Mystery Train: Images of America in Rock‘n‘Roll Music (1975). Þar má segja að hann spinni nokkuð óvæntan þráð útfrá tónlistarmönnunum Elvis Presley, Robert Johnson, The Band, Randy Newman og Sly Stone, og finnur allstaðar einhverskonar frásögn af eða greiningu á sögu Bandaríkjanna í heild sinni. Hann rökstyður hvernig það megi nota dægurtónlist (allavega dægurtónlist sem ristir jafn djúpt og tónlist ofangreindra) ekkert síður en bókmenntir eða kvikmyndir til að skoða öll stærstu þemu í bandarískri menningu og sögu. Gallinn er líklega sá að þótt þetta virki sannfærandi í Mystery Train þá er Marcus á þessum sömu slóðum í öllum sínum bókum og verður stundum langsótt að allt og ekkert sé um BANDARÍKIN með stórum stöfum. Engu að síður er hægt að mæla með bókum hans um Van Morrison (Listening to Van Morrison, 2010) og Bob Dylan (Invisible Republic: Bob Dylan‘s Basement Tapes (1997); Bob Dylan by Greil Marcus: Writings 1968-2010 (2010).

Seinasta tegund svona bókmennta sem ég ætla að skoða hér er (sjálfs)ævisagan. Hér er að sjálfsögu um afar auðugan garð að gresja, en ég ætla bara að minnast á örfáar ævisögur sem mér þykja eftirtektarverðar. Fyrst ber að nefna það sem mér þykir meistaralegt dæmi um formið, tveggja binda ævisögu bandaríska rithöfundarins Peter Guralnick um Elvis Presley, Last Train to Memphis: The Rise of Elvis Presley (1994) og Careless Love: The Unmaking of Elvis Presley (1999). Eins og titlar bókanna gefa til kynna lýsir Guralnick risi og falli Elvisar og það á afskaplega harmleikjalegan hátt. Eins hratt og stórkostlega og Elvis rís þá er fallið langt og skelfilegt. Án þess að Guralnick hamri á tengingum þessarar sögu við BANDARÍKIN með stórum stöfum, eins og Greil Marcus, þá finnur lesandinn hjá sjálfum sér hversu táknrænt þetta er; hæfileikar Elvisar voru ótrúlegir og meðfæddir, en hann kunni svo illa að fara með þá sjálfur; frægðin sem hann eiginlega hlaut að hljóta í ljósi hæfileikanna gat varla annað en skemmt hann sem manneskju, og þær skemmdir hlutu að ganga að honum dauðum. Leiðin að dauða Elvisar á klósettinu í Graceland, þar sem hann gaf upp öndina akfeitur og lyfjaður, hafandi bókstaflega sungið sitt síðasta fyrir framan myndavélarnar, er ótrúleg. Ég held að maður þurfi ekki að vera sérstakur áhugamaður um tónlist Elvisar til að hrífast (og hryllast) með þessari bók, einni bestu ævisögu sem ég hef lesið.

Raunir ævisöguhöfundarins

Allt öðruvísi er ævisaga bandaríska rithöfundarins Clinton Heylin um Bob Dylan, Behind the Shades (1991). Þessi bók er nákvæm, gagnrýnin á heimildir og læsileg; hún er löng og yfirgripsmikil og hefur verið uppfærð og endurútgefin ekki einu sinni heldur tvisvar (2001 og 2011) og nær þannig yfir stærstan hluta ferils Dylan. Er þetta þá ekki bara hin ágætasta bók?

Já og nei. Í gegnum þessa ævisögu birtist ekki bara ævi Dylans heldur líka nokkuð undarlegt ferðalag ævisagnahöfundarins Clintons Heylin. Hann augljóslega byrjar að rita ævisöguna út af ást og aðdáun á Bob Dylan og tónlist hans. Þegar hann gefur bókina fyrst út árið 1991 lítur ferill Dylans út fyrir að vera kominn á ákveðinn endapunkt. Það hafði verið ris og fall (hann var frábær fyrst, svo fór að síga á ferilinn, nú var þetta búið), ferill Dylans var skiljanlegur og bókvænn. Heylin hefur liðið eins og hann gæti sett lokaorðið á þetta alltsaman og verið maðurinn sem hefði skrifað Bókina um Dylan, með stóru b-i. En hvað gerðist? Dylan dirfðist að koma ferli sínum aftur í gang á 10. áratugnum og gaf út hverja plötuna á fætur annarri sem gagnrýnendur héldu ekki vatni yfir. Bók Heylins var orðin úrelt. Hann þurfti að gefa hana út aftur.

En þá var gallinn sá að hrifning Heylin á viðfangsefni sínu hafði dofnað. Hann þoldi ekki nýju tónlist Dylans og rakkaði hana niður í nýju útgáfunni árið 2001. Aftur reyndi hann að setja einhvern punkt aftan við feril Dylans. En Dylan var ekki hættur: Eins og gagngert til að pirra Heylin hélt hann áfram að gefa út plötur sem fengu enn betri dóma en áður. Aftur varð bókin úrelt; aftur varð Heylin að endurútgefa. Í þetta skiptið (2010-útgáfan) er samband ævisagnaritara og ævinnar sem um er ritað orðið svo helsjúkt að það er eiginlega fyndið. Það skín í gegn í nýjustu köflunum að Heylin hatar núna Dylan og allt sem hann gerir og nennir varla að skrifa um það lengur nema af einhverri sjúkri skyldurækni. Og ég veit ekki hvernig vesalings Heylin líður núna: Fyrir nokkrum dögum gaf Dylan út enn eina plötuna sem er að fá ekkert nema fimm stjörnu dóma. Mig grunar samt að nú hafi hann gefist upp og neyðist til að leyfa Dylan að eiga lokaorðið um sína óstýrilátu ævi sem enginn kemur neinum böndum á.

Dylan hefur raunar sjálfur gefið út stutta sjálfsævisögu, Chronicles (2004), og var hún þýdd á íslensku af Guðmundi Andra Thorssyni undir nafninu Annálar (2019). Þar kennir allt annarra grasa. Dylan hefur aldrei haft neinn áhuga á „sannleikanum“ um sig, heldur lítur greinilega á eigin persónu sem hálfgerðan skáldskap, eða sem einskonar mýtu. Í Annálum lýgur eða skáldar Dylan nefnilega eins og vindurinn; mörkin milli skáldskapar og veruleika eru algjörlega óljós og engin tilraun er gerð til að búa til einhverja endanlega útgáfu af ævi viðfangsefnisins, fígúrunnar Bob Dylan. Þetta er þvert á það sem Heylin reynir að gera og lýsir líklega vel skoðunum Dylans á ævisögulegu verkefni hans. Fyrir jafn póstmóderníska manneskju og Dylan meikar hin hefðbundna ævisaga engan sens.

Horfnar minningar

Og það verður að segja að fleiri mættu taka þessa skoðun Dylans til greina þegar kemur að sjálfsævisagnaskrifum. Þar má t.d. nefna Testimony (2016), nýlega sjálfsævisögu Robbie Robertson, gítarleikara og helsta lagasmiðs hljómsveitarinnar The Band, sem urðu einmitt frægir fyrir samstarf sitt með Bob Dylan. Þótt þessi hljómsveit sé víða gleymd í dag finnst mér hún hreinlega stórkostleg og les flest sem ég kemst í um hana; þannig var það tilhlökkunarefni þegar bókin kom út og ég dreif mig út í bókabúð eftir henni.

En þar mætti mér furðuleg samsuða. Robertson er að reyna að skrifa hefðbundna rokkbók og tekst það að mörgu leyti – skemmtileg er sagan af því þegar Robertson bjargar Bob Dylan frá drukknun í baðkari í París – en jafnframt skynjar maður eitthvað annarlegt í frásögninni. Robertson er ofar öllu að búa til rétta ímynd fyrir sig sjálfan, að skapa um sig rétt eftirmæli. Til þess beitir hann ýmsum brellum og brögðum – gerir lítið úr sumum, upphefur aðra, smjaðrar og slúðrar á víxl. En verst er þegar maður skynjar hvernig minni Robertson hefur lotið í lægra haldi fyrir goðsögninni sem hann vill skapa. Þetta sést átakanlega í lokakafla bókarinnar, þar sem Robertson skrifar um hina goðsagnakenndu síðustu tónleika The Band, sem voru kvikmyndaðir og gefnir út í frábærri bíómynd Martin Scorsese, The Last Waltz (1978). Robertson endar á miklum orðaflaumi um seinasta lagið sem þeir spiluðu á tónleikunum, hvernig hann horfði á hljómsveitarmeðlimina spila sitt besta og fylltist stolti yfir að deila með þeim sviði. En lesandi sem þekkir til sér strax að lýsingin kemur ekki úr minni Robertson, sem þó var á staðnum. Nei, allt sem hann segir er beint úr kvikmyndinni The Last Waltz, það er auga myndavélarinnar sem sá þetta en ekki Robertson. Ég trúi því alveg að þetta sé ekki uppgerð eða stælar: Kvikmyndin hefur einfaldlega tekið yfir, hann skynjar þessa atburði í gegnum annan og öflugri miðil en eigin minningar. Kannski valdi hann að gera það; kannski þurrkaði hin kalda myndavél hverfular minningarnar út. Sorglegt en skiljanlegt, og segir margt um þessa bókmenntagrein, rokkbókina: Minningarnar glíma við goðsagnirnar, raunveruleikinn við arfleiðina, tónlistin við egóið.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...