Strákur eða stelpa

Strákur eða stelpa er litrík og listræn barnabók eftir Joana Estrela, sem kemur út í þýðingu Sverris Norland hjá AM forlagi. Textinn er ljóðrænn en einfaldur og hentar börnum vel, en er þó einnig áhugaverður fyrir fullorðna fólkið sem les. Eins og hjá mörgum AM bókum er stíll teikninganna líflegur og litríkur og örlítið abstrakt, hægt er að týna sér í myndunum og sjá stöðugt eitthvað nýtt.

 

Höfum trú á börnum

Ég las bókina með eins árs syni mínum og hann var mjög áhugasamur um myndirnar og hljóðin, en ég held að dýpra inntak um kyngervi og hlutverk hafi aðeins farið fram hjá honum, enda bókin ætluð fyrir 2 ára og eldri. Ég var þó orðin nógu stór til að skilja boðskapinn og finnst hann ósköp góður: sá að kyn þitt skiptir ekki máli þegar kemur að því að þekkja þinn innri mann. Veruleiki barnanna okkar er oft á tíðum ósköp kynjaður enda teljum við mörg hver að það að hafa allt svart og hvítt og einfalt sé mikilvægt til að rugla ekki þau yngstu á meðal okkar í rýminu. Ég held að þarna ættum við að hafa meiri trú á litla fólkinu okkar, en börn skilja ótrúlega mikið og því fyrr sem þau vita að heimurinn er ekki eingöngu samansafn tvíhyggju, því betra.

Bókin kemur einnig inn á vídd utan tveggja afmarkaðra kynja og bendir lesendum á að það þurfi kannski ekki að vera eitthvað eitt og, það sem er uppáhaldið mitt, að þú vitir sjálfur hver þú ert sama hvað aðrir telja sig vita um þig. Þetta eru valdeflandi skilaboð fyrir litla lesendur, sama hvernig þau upplifa kyn sitt. Ef upplifun þeirra er ekki samferða líffræðilega ákveðnu kyni geta þau fundið staðfestingu á að það sé í lagi. Ef kyntjáning þeirra fellur ekki að því sem samfélagið býst við, vita þau líka að það er í lagi og þeirra að ákveða. Einnig hjálpa þessi skilaboð þeim að læra að hlusta á það sem fólk segir um sig í stað þess að telja sig vita betur út frá samfélagslegum stöðlum.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.