Kanadíski leikarinn Elliot Page skaust upp á stjörnuhimininn þegar hann lék ófrískan ungling í Juno, mynd sem sló rækilega í gegn öllum að óvörum árið 2007. Þá var Elliot ekki nema tvítugur en hafði þó verið að leika síðan hann var smástrákur. Hann hafði framan af fundið öryggi í leiknum, í því að bregða sér í gervi annarrar manneskju og að hætta að vera hann sjálfur. Leiklistin var þó tvíeggja sverð í lífi Elliots, sérstaklega eftir að hann fór að eldast og komast á kynþroskaskeiðið og hlutverkin sem hann fékk fóru að krefjast þess að hann væri stöðugt kvenlegri og léki hlutverk sem honum leið ekki vel í. Með Juno og heimsfrægð fylgdi svo aukin pressa á Elliot að leika hlutverk þegar myndavélarnar voru ekki í gangi, að leika fyrir heiminn allan að Elliot Page væri gagnkynhneigð cis kona sem elskaði að vera í kjól. 

Elliot hafði alltaf vitað sjálfur að hann væri strákur, án þess að eiga til tungumál til að tjá það, og að hann væri skotinn í stelpum. Í ævisögu sinni Pageboy skrifar Elliot á fallegan og töfrandi hátt um uppvöxt sinn í Nova Scotia, um samband sitt við foreldra sína og kynjaðar kröfur kynslóðar þeirra og samfélagsins. Hann skrifar um fyrstu ástina, hvernig það var að koma út úr skápnum, fyrst sem hinsegin kona árið 2014 og svo sem trans maður, um leynileg ástarsambönd og opinber, og um það þegar það eina sem hann vissi var að hann varð að koma út úr skápnum í annað sinn til að lifa af. 

Frægð, átröskun og áreiti

Hann skrifar líka um átröskun, um hvernig hann reyndi að halda sér eins grönnum og mögulegt var til að verða ekki kvenlegri í vextinum, um hvernig stjórnin sem hann hafði yfir því sem hann borðaði varð að því eina sem honum fannst hann ráða við í heiminum. Hann skrifar um Hollywood, um stórstjörnu sem níðist á honum, um framleiðendur sem notfæra sér hann kynferðislega, um einmanaleikann sem hann finnur aleinn í LA, ungur og óreyndur. Hann skrifar að hann valdi nafnið sitt, Elliot, eftir litla stráknum í ET, sem er það krúttlegasta sem ég veit. Hann trúir lesandanum fyrir áreitni sem hann verður fyrir og ofbeldi, hvernig hið ótrúlegasta fólk hefur skoðun á að hann sé trans, lætur eins og það sé val, eins og hann sé athyglissjúkur. Frægð og fegurð og aðgangur að aðgerðum veitir Elliot á suman hátt öryggi, en á annan hátt er hann alveg jafn berskjaldaður og allt trans fólk. Menn eins og Jordan Peterson og aðrir öfgahægripésar beina spjótum sínum að Elliot með nafni. Hann fær morðhótanir og haturspóst. Hann er ekki nafnlaus þó hann sé passing því hann er opinber persóna.

Langt kominn

Ég hef verið aðdáandi Elliot Page og hef verið síðan ég sá hann fyrst í kvikmyndinni Hard Candy frá árinu 2005. Pageboy er vel skrifuð og áhugaverð. Eina gagnrýnin sem ég myndi henda fram er að það er ofboðslega mikið af náttúrulýsingum á Kanada, sem er alveg gott og blessað en kannski ekki alveg það sem ég kom til að lesa. Það var dásamlegt að fá að sjá inn í hugann hans Elliot og læra um líf hans, sem ég hafði hingað til ekki vitað mikið um, auk þess sem það er frábært að sjá að hann virðist ánægður og á réttri leið í lífinu eftir mörg erfið ár. Ég mæli með lestri þessarar bókar fyrir aðdáendur Elliots, þá sem vilja fræðast um líf hinsegin fólks og alla sem hafa sérstakan áhuga á Kanada.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...