„Pabbi þarf að vinna til seint“

Í síðustu viku var gamanleikritið Pabbastrákar frumsýnt í Tjarnarbíó. Áhorfendur eru fluttir til ársins 2007 þar sem sýslumannsmöppudýrið Ólafur Bragi er á leið í æðislegt fjölskyldufrí til Spánar með Silju konu sinni og 15 ára syni þeirra, Snorra. Á flugvellinum hittir Ólafur Hannes nokkurn Hannesson sem er á leið á spænsku ströndina til að skrifa ævisögu föður síns heitins sem féll frá árið áður. Hannes er jafn ólíkur hinum ferkantaða Ólafi og hugsast getur, og þegar leiðir þeirra félaga liggja saman sökum misskilnings lenda þeir í óvæntum ævintýrum.

 

Gauragrín á Glitnishandklæði

Þetta er uppskrift af fyrsta flokks gauragrínmynd (e. Buddy Comedy), þar sem spaugilegar uppákomur og litskrúðugir karakterar koma við sögu. Höfundar og flytjendur verksins, þeir Helgi Grímur og Hákon Örn, eru að skoða sígildar staðalímyndir um pabba í anda bandarískra grínmynda og er leikritið, samkvæmt þeim, byggt upp eins og sígild DVD grínmynd frá þessum árum. Ólafur er einmitt þessi hefðbundi, ferkantaði úthverfapabbi sem kann ekki að slappa af en Hannes veitir honum mótvægi með því að vera barnslega einfaldur, jafnvel eilífur unglingur sem er að reyna að tengjast látnum pabba sínum á meðan Ólafur reynir að tengjast syni sínum, og svo tengjast þeir auðvitað hvor öðrum alveg óvart. Það langfyndnasta í þessu gamanleikriti er án efa samband Ólafs við Snorra son sinn, enda er óþreytandi brunn af húmor að finna í kring um vandræðalega foreldra og unglingspilta sem þurfa að sýna fram á að þeir séu ekki lengur sömu smákrakkarnir og þeir voru í síðustu Spánarferð.

Við höfum öll farið í þetta frí

Vel tekst upp með margt í sviðsetningu, skipting á milli sena er oftast góð, og þá sérstaklega í djammsenunni. Ljós eru nýtt til að sýna lyftur, gestamóttökur og önnur hóteltengd atriði á einfaldan en áhrifaríkan máta. Ef mætti setja eitthvað út á verkið væri það að stundum eru senurnar helst til langar, og okkur er fylgt of mikið frá A til Ö. Það væri hægt að skipta örlítið hraðar á milli sena, sérstaklega þegar áhorfandi veit oftast nær alveg hvað er að fara að gerast en þarf samt að sitja undir því í smáatriðum. Þá voru gáturnar hans Ólafs eitthvað sem hefði alveg mátt skilja eftir árið 2007, en við höfðum líka öll heyrt þær fyrir 15 árum.

Tíminn sem verkið gerist á er einmitt nýttur skemmtilega, það er vitnað í gamla tækni, Ólafur breiðir úr Glitnis-handklæði og svo mætti lengi telja. Mikið af húmor sýningarinnar byggir á því að áhorfendur muni árið 2007 vel og mér þætti forvitnilegt að vita hvernig sýningin gengi í yngri áhorfendur – hvort skortur á nostalgískri tengingu myndi taka frá gríninu. Þó má ekki taka það frá verkinu að þetta, akkúrat þetta, fjölskyldufrí á Spáni er svo snaríslenskt og kunnuglegt. Við höfum held ég öll farið í akkúrat þessa ferð til Spánar, og ef ekki við þá einhver sem við þekkjum nægilega vel til að okkur líði eins og við höfum verið þarna, hvort sem við fórum árið 2007, 2017 eða 1980.

Fýlupúkinn flissar

Svo það sé á hreinu þá er ég sennilega ekki besta manneskjan til að dæma þetta verk því ég er ekki hrifin af gauragrínmyndum, enda frekar leiðinleg týpa. Ég fór samt alveg að gráta úr hlátri á einum stað, það vantar ekki, en ég held að ég hafi verið að hlæja meira að verkinu en með því, eða að súrrealismanum í heild sinni kannski. Húmorinn og uppsetningin minnti mig þó á gamanmyndir á borð við Shaun of the Dead, þar sem húmorinn er svo steiktur en samt blátt áfram og persónurnar kunnuglegar, um leið og þær eru algerir rugludallar, að maður getur ekki annað en hlegið svolítið. Meira að segja fýlupúkar eins og ég sem sitja venjulega í fýlu úti í horni hlæja svolítið að Pabbastrákum. Höfundum tekst algerlega ætlunarverk sitt að skapa gauragrínmynd á sviði, sem er flott hugmynd sem er fylgt alveg í gegn. Þegar best lætur er leikritið fyndin og skemmtileg hugmynd sem hefði mátt útfæra aðeins betur.

PS. Er þetta byggt á sönnum atburðum eða ekki? Ég veit það ekki og get ekki fundið út úr því. Eru alvöru Hannes og alvöru Ólafur í alvöru til eða er það djók? Þeir sem vita mega hafa samband við Lestrarklefann og koma þessu á hreint.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...