Eins og oft áður eiga uppvakningar hug minn og hjarta (eða heila?). Árið 2021 kom út bókin Uppvakningasótt eftir Kristinu Ohlsson í þýðingu Höllu Maríu Helgadóttur. Bókin hefur lengi verið á leslistanum mínum og þótt sagan í bókinni gerist á heitum sumarkvöldum í Svíþjóð, þá fannst mér tilvalið að lesa hana á svölum haustkvöldum á Íslandi.

Dularfull veikindi

Bókin segir frá Herberti sem býr í smábænum Eldsala í Svíþjóð. Það er heitt og mollulegt sumar og geiturngar eru um allt. Hann og Sallý, besta vinkona hans, eru tólf ára og standa alltaf saman. Þau eiga sér leynistað í gamalli myllu. 

 

Undarleg veikindi fara að hrjá bæjarbúa og dularfullur aðkomumaður virðist tengjast málinu. Herbert og Sallý enda á því að flækjast í atburðarás sem þau hafa litla stjórn á og komast á snoðir um að ekki sé allt sem sýnist varðandi þessi veikindi. Svo virðist sem fólk í Eldsala þjáist af uppvakningasótt. 

Allt er þá þrennt er

Uppvakningasótt er fyrsta bókin í þríleik ætluðum börnum frá miðstigi í grunnskóla. Nú þegar hafa komið út tvær bækur úr seríunni á íslensku og má ætla að þriðja bókin sé væntanleg með haustskipunum. Önnur bókin í seríunni heitir Leyndardómur varúlfsins. Bækurnar eru skrifaðar á einföldu tungumáli, letur er stórt og breitt bil á milli lína. Að sama skapi eru spássíur breiðar og texti á hverri síðu er ekki svo mikill. Við fyrstu sýn gerði ég ráð fyrir að bækurnar væru ætlaðar unglingum, en eftir lesturinn þá tel ég að bækurnar henti börnum allt frá 10 ára aldri. Þótt það séu hrollvekjandi senur í bókinni, þá gengur hún ekki fram af börnum. Allt er frekar temmilegt og meiri áhersla lögð á hið dularfulla frekar en hrollvekjuna.

Þola börn meira?

 Uppvakningasótt er eins og áður segir einföld saga, þótt mér virðist sem sagan eigi eftir að flækjast örlítið með tilkomu nýrra ættingja og fleiri ókinda. Herbert er svolítið sakleysislegur tólf ára drengur. Sama má segja um Sallý. Lengi framan af lestrinum hélt ég að þau væru yngri en raunin var, en þau eru tólf ára. Þetta fannst mér ríma ágætlega við að markhópur bókanna sé börn á miðstigi. Hér sé verið að sigta út lesendahóp á miðstigi grunnskóla og upp á efsta stig. Lýsingar á sóttinni sjálfri voru líka frekar sakleysislegar. Helstu einkenni voru blóðhlaupin augu, fölvi og hanskaklæddar hendur. Að sjálfsögðu kom blóð við sögu, en það var sem áður segir mjög temmilegt og rólegt. 

Bókin átti sína spretti og það er æsispennandi sena í lok bókarinnar þar sem Herbert þarf að flýja undan uppvakningastóði. Ég tel þó að íslensk börn þoli vel meiri hrylling en leynist í þessari bók. Þetta er bók fyrir þau viðkvæmari sem vilja samt taka þátt í hausthryllingnum í október.  

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...