Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur voru veitt í fjórða sinn í ár. Verðlaunin voru stofnuð árið 2018 til heiðurs Guðrúnu Helga­dótt­ur rit­höf­undi. Verðlaun­in eru veitt ár­lega fyr­ir óútgefið hand­rit að barna- eða ung­menna­bók og styðja þannig við ný­sköp­un í grein­inni. Að þessu sinni bár­ust 24 hand­rit í keppnina.

Handritið sem hlaut hnossið í ár er barnabókin Leyndardómar Draumaríkisins eftir Kamillu Kjerúlf. Kamilla er fædd árið 1995 og er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Ævintýraleg ferð í Draumaríkið

Sagan segir af hinum ellefu ára Davíð. Í fyrsta kafla bókarinnar keppir hann í körfubolta. Hann er óöruggur og liðsfélagar hans skynja það. Þegar hann fær loks boltann gengur það ekki betur en svo að hann fellur fram fyrir sig, beint á ennið og fær risastóra kúlu og háð félaga sinna. Í næsta kafla vaknar Davíð upp í Draumaríkinu og hittir Sunnu sem er á leið á draumavakt. Í Draumaríkinu eru draumar búnir til með stórum draumavélum sem er stjórnað af Draumlendingum eins og Sunnu.

 

En Draumaríkið er í hættu. Martraðaskrímsli hafa ráðist inn í draumana og tekið yfir. Draumlendingum stendur hætta af þeim og allir dreymendur eiga á hættu að fá einungis martraðir ef þróuninni verður ekki snúið við. Í viðbót er algjör ráðgáta hvernig Davíð hefur komist í Draumaríkið, þar sem þar eru nær eingöngu börn og unglingar sem hafa látist ung.

Bókin býr yfir fjölda góðra kosta. Til dæmis er sagan nokkuð spennandi og tungumál bókarinnar oftast einfalt, sem ætti að höfða til barna. Davíð er mjög venjulegur íslenskur drengur og hans veruleiki speglar raunveruleika íslenskra barna – þegar hann er ekki í Draumaríkinu. Hann er óöruggur, á erfitt með að svara hrekkjusvínum fullum hálsi, er kvíðinn og óframfærinn. Hann lærir leiðir til að takast á við nokkuð af þessu með ferðum sínum í Draumaríkið. Heimurinn sem er innan Draumaríkisins er að sama skapi nokkuð einfaldur og flækir ekki lestrarupplifunina neitt fyrir yngri lesendum.

Hefði þurft meiri vinnu

Ég er svolítið hugsi eftir lestur bókarinnar, einfaldlega af því mér hefði þótt handritið þurfa að gerjast aðeins áður en það kom út. Hér er handrit sem sent var í keppni og hlaut verðlaun og er nú komið út með stimpil Barnabókaverðlauna Guðrúnar Helgadóttur á kápuna. Handrit sem send eru í samkeppni sem þessa, þar sem besta handritið hlýtur verðlaunin, þarf mikinn yfirlestur og ritstjórn fyrir útgáfu. Ekki síst þegar höfundur sendir frá sér sitt fyrsta verk.

Við útgáfu þessarar bókar finnst mér sem slegið hafi verið slöku við. Fyrir það fyrsta eru málfarsvillur algengar í gegnum alla bókina og málfar er ekki nægilega vandað. Auðveldlega hefði mátt umorða setningar til að skapa betra flæði í textanum. Persónusköpun er heldur grunn sem veldur því að lesandi á erfitt með að mynda tengsl við aðalpersónurnar. Í stað þess að sýna lesandanum Draumaríkið með lýsingum og leyfa lesanda að lesa örlítið á milli línanna er mest af upplýsingunum komið fram í „spurt og svarað“ milli Davíðs og Sunnu – þau samskipti ná stundum yfir nokkrar síður. Endurtekningarnar eru töluvert margar í söguþræðinum og sum samtöl koma fyrir tvisvar.

Spennandi söguheimur

Fyrir utan þessa vankanta þá er söguþráðurinn aðgengilegur. Kamilla er að vinna með þema sem er nokkuð þekkt í barnabókum, það er að segja draumar og martraðir, og því ætti sagan að ganga vel til barna. Þau kannast við þessar pælingar.

Leyndardómar Draumaríkisins hefði þurft sterkari ritstjórn fyrir útgáfu. Hugmyndin á bak við söguna er feikigóð. Davíð lærir í gegnum ævintýrið í Draumaríkinu að standa uppi í hárinu á strákunum sem stríða honum. Hann lærir að treysta sjálfum sér, verður röggsamur og ákveðinn.

 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...