Kvennafrí 2023

24. október 2023 leggja konur og kvár niður störf í heilan dag. Að Kvennaverkfallinu standa fjölmörg félög kvenna, hinsegin fólks og launafólks.

Á vefsíðunni kvennafri.is segir:

Það eru 48 ár liðin frá fyrsta kvennafrídeginum og verkfallið 2023 verður það sjötta í röðinni. Konur verða enn fyrir kerfisbundnu launamisrétti og kynbundnu ofbeldi verður að útrýma.

Því fannst okkur í Lestrarklefanum tilvalið að taka saman lista yfir bækur sem hæfa viðfangsefninu.

Ósýnilegar konur eftir Caroline Criado Perez

Bókin, eins og titillinn gefur til kynna, snýst um hinar fjölmörgu holur sem þarf enn að fylla upp í í gagnasöfnum heimsins með tilliti til kvenna. Hún hefur vakið mikla athygli enda sýnir hún svart á hvítu hvernig heimurinn sem konur og karlar lifa í jöfnu hlutfalli í hefur verið hannaður með karla sem mælistiku fyrir almenning. Höfundurinn telur kvenfyrirlitningu ekki rót núverandi ástands, heldur frekar hve stór hluti heimsins hefur verið hannaður án tillits til ólíkra þarfa kvenna og karla, oft án þess að konum hafi verið boðið sæti við ákvarðanaborðið. Oft standi konur frammi fyrir vandamálum í daglegu og opinberu lífi sem kynjaskipt gögn gætu varpað ljósi á.

Bókakápa Why women are poorer than men

Why Women Are Poorer Than Men eftir Annabelle Williams

Fjármál er málaflokkur sem er konum óhagstæður frá vöggu til grafar ef marka má þær rannsóknir og tölfræðilegu gögn sem höfundur vitnar í. Vegna bleika skattsins eru leikföng ætluð fyrir stúlkur dýrari en þau sem ætluð eru fyrir drengi, tíðavörur hafa verið undarlega verðlagðar, konur bera meginábyrgð á getnaðarvörnum og vörur sem eldri borgarar nýta við daglega iðju eru dýrari fyrir konur. Rótgróin samfélagsleg viðhorf, markaðshyggja og hugrænar skynvillur eru nokkrar lykilástæður þess að konur eru fátækari en karlmenn. Dæmi um samfélagslegu viðhorfin er að þriðja vaktin, eða hugræna byrðin, fellur oft ómeðvitað á herðar kvenna.

Who Cooked Adam Smith’s Dinner? eftir Katrine Marcal

Í bókinni kortleggur höfundur goðsögnina um „economic man” sem er ein af grundvallarkenningum hagfræðinnar. Sú kenning hefur ráðið ríkjum í skilningi okkar á markaðshyggju nútímans en hún gengur út á að maðurinn stjórnist eingöngu af eiginhagsmunum. Það sjónarmið gerir lítið úr störfum eins og barnauppeldi og heimilisstörfum.

Who cooked adam smiths dinner
Feminine Mystique

The Feminine Mystique eftir Betty Friedan

Bókin sem fjallar um „vandamálið sem hefur ekkert nafn” varð 60 ára nú í ár (2023). Vandamálið sem um ræðir er í stuttu máli sagt skaðleg viðhorf og stofnanir sem grafa undan trausti kvenna á vitsmunalegum hæfileikum sínum og halda þeim á heimilinu. Þegar höfundur skrifaði bókina var alsiða að hin hefðbundna bandaríska kona gifti sig á unglingsaldri og kvenstúdentar hættu í námi til að giftast.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...